13.05.1933
Efri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (3408)

167. mál, kreppulánasjóð

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég skal nú ekki á þessu stigi deila við hv. 2. landsk. um það, hvort nauðsynlegt sé að leggja skatt á landsmenn til þess að greiða sjálfsagt svona 260—280 þús. á ári í 7½ ár, sem mér skilst eftir framkomnum upplýsingum vera hið raunverulega innihald 1. gr. frv., eins og það er nú. Ég hefi nefnilega ekki séð í skjölum málsins neina grg. fyrir því, hvað þessi stofnun eiginlega þurfi að fá af reiðu fé, og ég get ekki séð þetta beinlínis af frv. og skal því ekki um þetta deila á þessu stigi. Ég er því samþykkur, að stofnunin fái á þennan hátt það, sem hún þarf; en ég álít heldur ekki, að það eigi að vera að leggja henni meira en hún þarf af fé á þennan hátt. Það, sem hún þarf þar fram yfir, álít ég að hún eigi að fá á þann hátt, sem 2. gr. gerir ráð fyrir. — Ég sé, að það er ætlazt til, að lánin úr sjóðnum verði veitt til 42 ára með 5% föstu árgjaldi. En hinsvegar eiga ríkisskuldabréfin að bera 4½% í vöxtu og vera innleyst á 40 árum. Nú getur komið fram nokkur mismunur sjóðnum í óhag af tekjum og gjöldum, ef maður hugsar sér, að hann standi straum af ríkisskuldabréfunum og hafi til þess ekkert annað en árgjald af útlánunum. En mig vantar grg. fyrir því, hve mikill sá árlegi mismunur muni verða, ef útlán úr sjóðnum nema tiltekinni upphæð, t. d. nálægt því hámarki, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég álít, að það þurfi að gera grein fyrir þessu; og það skal ekki standa á mér til fyrirgreiðslu á þessu máli að samþ. þær fjárveitingar úr ríkissjóði, sem þarf. En ég er ákaflega tregur til að samþ. meira en hægt er að sýna mér fram á að þurfi, málefnisins vegna.

Ég er alveg sammála hv. 3. landsk. um það, sem hann sagði um niðurlagsákvæði það, sem nú er komið inn í 2. gr. um væntanleg afföll af þessum ríkisskuldabréfum, að því leyti sem þau verða látin til greiðslu upp í skuldir. Ég held, að það ákvæði sé ekki til neins stuðnings fyrir þá bændur, sem hér eiga hlut að máli. Mér virðist það helzt vera komið inn í frv. sem einhverskonar hjálp eða ívilnun til þeirra, sem hafa lánað bændum og eru komnir í hættu með sín lán eða búnir að tapa þeim. Ég er fús til að leggja nokkuð á landsmenn til að greiða úr vandkvæðum bænda. En ég er mjög ófús til að leggja nokkuð á landsmenn til þess að gefa skuldheimtumönnum bænda gjafir eða hjálpa þeim til að ná nokkru inn af því, sem nú er þeim raunverulega tapað. Og ég væri ánægður með, að þetta ákvæði færi út, því að ég álít ákvæðið eins og það er í frv., mjög sómasamlegan lið í nauðasamningum lánsstofnunar við prívatmann, ef prívatmaðurinn greiðir þann hluta af skuldinni, sem honum verður gert að greiða eftir nauðasamningi, með þessum ríkisskuldabréfum affallalaust. Ég held, að þeir, sem annars lána prívatmönnum og lenda í áhættu með þau útlán, myndu almennt tekið verða þakklátir fyrir að fá greiðslu í slíkum bréfum með nafnverði. A. m. k. vorkenni ég þeim alls ekki.

Ég vil að lokum aðeins minnast á eitt atriði, sem mér finnst heldur ekki sýna nægilega föst tök á því, að kreppulánasjóður eigi að vera algerlega heilbrigð stofnun, eins og ég vil, að hann verði. Frv. gerir ráð fyrir, að ein stjórn hafi á hendi stjórn útlána, en svo eigi önnur stj. að taka við til að stjórna innheimtunni.

Þetta ákvæði er óeðlilegt. Það er í alla staði heilbrigðast, að sama stofnunin, og þá með sömu mönnum, ef forsjónin vill svo vera láta, hafi hvorttveggja á hendi, útlánin og innheimtuna. Ef útlánin eru framkvæmd af einum aðilja, og annar á svo að fara að innheimta, þá er nú fyrst og fremst sá fyrri kominn út og ber enga ábyrgð sinna gerða á venjulegan hátt, og sá, sem á að annast innheimtuna, getur skotið skuldinni á fyrirrennara sinn, sem annaðist útlánin, um það, sem ábótavant kynni að vera, ef hann gengur slælega að innheimtunni. Ég álít alveg sjálfsagt, að sama stjórnin hafi á hendi stj. sjóðsins frá upphafi.