24.05.1933
Efri deild: 80. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (3417)

167. mál, kreppulánasjóð

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég tel, að frv., sem fyrir liggur, taki stórfelldum umbótum með brtt. n. Það, sem ég legg mesta áherzlu á í því sambandi, er, að eftir brtt. er nú sett á fót þarna hrein lánstofnun, sem á að hafa það alveg afmarkaða verkefni að veita lán í tilteknu augnamiði og á svo að standa á eigin fótum með því afmarkaða fjárframlagi úr ríkissjóði, sem henni er lagt í fyrstu. Það sem mér þótti sérstaklega athugavert við frv. eins og það fyrst kom fram hér í þinginu frá stj. var samblöndun á lánastarfsemi og styrktarstarfsemi, sem þessari stofnun var ætlað að hafa. Ég var hræddur um, að það myndi leiða til þess, að styrkveitingum yrði haldið áfram og fjárhagur þessarar stofnunar gerður að engu eða m. ö. o. henni yrði varpað alveg yfir á ríkissjóðinn. Í till. n. er öllu slíku kippt í burt, sem til styrktarstarfsemi gæti talizt, enda á slíkt jafnan að veitast í fjárl., ef menn vilja láta það af hendi og eftir till. n. er svo um búið, að þessi kreppulánasjóður fær af löggjafanna hálfu alla þá aðstöðu til þess að vera sjálfstæð og heilbrigð stofnun, eftir því sem kringumstæður atvinnuveganna leyfa, og lengra verður ekki komizt með löggjafarákvæðum. Ég hefi hugsað mér að greiða atkv. með öllum brtt. n. Það er ekki svo, að ég sé jafnánægður með þær allar; einstöku af hinum smávægilegu finnst mér eitt og annað vera álitamál um, en teldi mjög miklu æskilegra, að brtt. yrðu allar afgreiddar nú við þessa umr. og frv. prentað þannig upp til þess að það geti komið til athugunar fyrir 3. umr. og staðið þá til smábreyt., ef þurfa þætti. En það, sem atvmrh. var að fara fram á, að nokkrar yrðu teknar aftur nú og kæmu ekki til atkv. fyrr en við 3. umr., því að e. t. v. þyrfti frekari breyt. á því efni, sem frv. fjallar um, þá er það óvarlegt að tefla um of á það að geyma sér alveg breyt. til 3. umr. Og ég vil skjóta því til ráðh., hvort hann þrátt fyrir þessa aths., sem hann virðist hafa við þessar brtt., gæti ekki fallizt á, að þær gætu komið til atkv. nú, og opin leið eigi að síður að gera breyt. við 3. umr. En mér finnst hitt óaðgengilegra að gera nú allvíðtækar breyt. á frv., sem allir virðast sammála um, en láta breytingar á nokkrum greinum bíða, þannig að þær gr. liggi þá fyrir í frv. talsvert ósamstæðar við hinar. Ég held, að sú leið verði heppilegri, að láta breyt. nú fara inn, og má athuga þetta til 3. umr. fyrir því.

Af þessum smærri breyt., sem ég er í vafa um, hvort n. hafi hitt á hið rétta með, vil ég nefna 8. brtt. við 21. gr. N. stingur upp á lengri lánstíma, til ársloka 1935. Ég er því sammála, að tíminn til ársloka 1934 sé naumur til að afgreiða þetta, en vil hreyfa því, hvort ekki sé eins eðlilegt að binda þetta við fardaga og hvort ekki sé eins auðvelt að lengja það til fardaga 1935. Það er nú svo í þeim tilfellum, ef bændur ekki geta fengið úrlausn sinna mála á þann hátt, vegna þess að stj. treystir sér ekki til að hjálpa þeim, sem þarf til að geta greitt úr málum sínum, þá þurfa vanalega afleiðingarnar af því að koma fram um fardaga. Það myndi því í rauninni dragast til fardaga 1936, að raunverulega kæmust fullar lyktir á málefni þeirra bænda, sem svo væri ástatt um. Þetta er auðvitað nokkuð langur dráttur, og þykist ég vita, að n. athugar, hvort hægt muni að komast af með tímann til fardaga 1935, en mun þó greiða atkv. með brtt. n. eins og þær liggja fyrir við þessa umr. Ég er ekki alveg viss um, hvort eitt atriði, sem a. m. k. hefir vakað fyrir mér, kemur nægilega skýrt fram í frv. eða í því eins og það verður með brtt. n. Ég hefi hugsað mér, að þessar lánveitingar úr kreppulánasjóði ættu í engu tilfelli að vera til þess að stofnaðist ný skuld, heldur ávallt að lán væri einungis veitt til greiðslu á eða upp í greiðslu fyrirliggjandi skulda. Ég vildi, ef n. er mér sammála um að þetta sé meiningin, að veita lánin einungis til þess að breyta erfiðari skuldum í auðveldari skuldir, að athugað væri til 3. umr. hvort ákvæði frv. hér að lútandi væru nægilega skýr. Ég er ekki viss um það, en ég álít, að heilbrigði þessarar ráðstöfunar sé undir því komin, að það sé þetta, sem verið er að gera, að veita þessu fé til tvenns í senn: að færa niður eða fá afslátt á þeim skuldum, sem nú eru tapaðar eða of þungbærar og þess vegna illa innheimtanlegar, og hitt jafnframt, að gera mönnum þá kost á ódýrara fé til þess að inna af hendi þær skuldbindingar, sem þarf til þess að ná þessum samningum, en hitt eigi ekki að vera meiningin, að hér sé verið að stofna til nýrra útlána eða til aukningar á skuldum í neinni mynd. (PM: 18. gr. tekur það fram). Já, það er e. t. v. nægilega skýrt.

Ég get svo látið hér við sitja. Að því er snertir stjórn sjóðsins var ég búinn að segja mína skoðun við 1. umr. Álít ég, að ekki ætti að skipta um stjórn, þegar lokið er útlánum og á að fara að innheimta, en umr. um það mega bíða til 3. umr., þegar n. gerir sína athugun um það.