24.05.1933
Efri deild: 80. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (3419)

167. mál, kreppulánasjóð

Jón Baldvinsson:

Ég lét þess getið við 1. umr. þessa máls hér í d., að það væri sjálfsagt að veita bændum þann stuðning, sem ríkið sæi sér fært nú í kreppunni. En af því að ég hreyfði þá þeim hugleiðingum mínum, að með þeim ráðstöfunum, sem gerðar væru með þessu frv., væri misskipt á milli stétta í landinu, þá risu hér upp tveir bændur í d. til andmæla og sögðu, að ég væri þessu máli mótsnúinn. En það er síður en svo, enda þótt ég álíti, að það eigi einnig að líta á hag annara stétta, sem eiga álíka erfitt og bændurnir. Alþingi hefir verið tómlátt um að styðja verkamannastéttina. Við síðustu umr. fjárl. hér í d. komst inn í fjárl. lítilsháttar upphæð til atvinnubóta handa verkamönnum. Aftur á móti er hér um að ræða samkv. þessu frv. stórfellda upphæð til hjálpar bændastéttinni, sem á að leggja fram á 10 árum, sumpart með beinu fjárframlagi og sumpart með útgáfu ríkisskuldabréfa, sem ríkið ber ábyrgð á.

Í frv. eins og það kom frá hv. Nd. og enn er óbreytt, er gert ráð fyrir, að nokkur afföll verði á sölu bréfanna, sem þó mega ekki nema meiru en 10%, og er það satt að segja helzt til lítið fyrir þær lánstofnanir, sem eiga að taka við þessum bréfum upp í skuldir, þegar miðað er við gengi á öðrum verðbréfum, t. d. við veðdeildarbréf Landsbankans, sem eru beztu og tryggustu pappírar hér á landi; þau eru seld með 25% afföllum eða fyrir ca. 75%, og þó eru greiddir hærri vextir af þeim lánum en hér er gert ráð fyrir af lánum úr kreppulánasjóði. Við þessi okurkjör á veðdeildarbréfunum verða þeir að búa, sem fá lán til húsabygginga í kaupstöðum og kauptúnum, og fjöldi bænda, sem einnig verða að nota þessa dýru peninga til bygginga eða jarðakaupa o. fl. Bréfin geta þeir ekki selt nú sem stendur fyrir meira en 75%. Nú leggur hv. landbn. til, að þetta ákvæði um 10% afföll af skuldabréfunum skuli fellt úr frv., með þeim forsendum, sem fram komu frá hv. frsm. og hv. 1. landsk., að þeir, sem hafi verið svo greiðugir að veita lán til bænda á undanförnum árum, séu ekki of góðir til þess að taka við þessum gjaldeyri, eða sætta sig við að taka bréfin með fullu verði upp í skuldirnar. Þetta finnst mér ekki réttlátt gagnvart lánsstofnunum ríkisins, því hv. frsm. upplýsti, að þetta myndi aðallega koma niður á Landsbankanum.

Þá kem ég að annari brtt. frá hv. landbn., sem mér finnst að keyri alveg úr hófi, þar sem hún leggur til, að síðari málsliður í fyrri málsgr. 1. gr. frv. verði felldur burtu. Þetta ákvæði var ekki í frv. upphaflega, en kom inn í það í Nd., og fjallar um, „að heimilt sé að lána fé úr sjóðnum ábúendum smábýla við kaupstaði og kauptún, enda sé um stærð býlis fullnægt ákvæðum 57. gr. 1. nr. 31 1920“. — Þessa málsgr. vill hv. landbn. fella úr frv., af því að hún gæti orðið til hjálpar ýmsum smábýlamönnum, sem hafa reist sér býli í nánd við kauptún á síðastl. 10 árum. Mörg af þessum býlum voru stofnuð á þeim árum, sem allt lék í lyndi og vinna og vörur voru í hærra verði en nú og auðveldara að ná í fé til láns. Þessir smábýlamenn verða nú að standa undir þungum skuldaböggum vegna býlanna, sem þeir fá varla undir risið. Og svo vill hv. landbn. fella þá úr frv., af því að kjör þeirra hafi eigi enn verið rannsökuð til fulls. — Annars verð ég að átelja það sinnuleysi og þann skort á umhyggju frá hálfu hæstv. stj. gagnvart þessum mönnum, að láta ekki rannsaka efnahag þeirra og ástæður. Það hefði verið alveg sjálfsögð framkvæmd, ef stjórnin, auk þess að athuga fjárhag bænda, hefði látið rannsaka afkomu verkamannastéttarinnar og smábýlamanna og einnig hag smáútvegsmanna, og undirbúa tillögur til viðréttingar, byggðar á þeirri rannsókn. Í þetta sinn ætla ég þó ekki að ræða um aðra en smábýlamennina. Ég vona, að þeir fái að fljóta með í þessu frv., eins og hv. Nd. gekk frá því. Annars verð ég að segja það, að mér finnst hv. frsm. farast svipað og sagt hefir verið frá um móður Sankti Péturs, hún hafði ekki lifað góðu eða siðvöndu lífi hér í heimi og gat því ekki fengið vist í sælustaðnum, nema fyrir milligöngu og fyrirbænir sonar síns. En þegar Sankti Pétur sendi verur úr efri bústaðnum til þess að sækja móður sína og flytja hana í sælustaðinn, vildu ýmsir fleiri, sem þar höfðu vistarveru, hanga á henni og fylgjast með, í sælustaðinn; en þegar móðir Sankti Péturs sá það, að fleiri áttu að njóta góðs af, þá sparkaði hún í allar áttir og hristi af sér alla þá, er ætlað höfðu að fylgjast með henni til betri og bjartari heima. Niðurlag sögunnar ætla ég ekki að segja, en mér finnst hv. frsm. landbn. farast líkt og móður Sankti Péturs í þessu máli, hann sparkar í smábýlamennina, er áttu að fá að hanga á bændunum í þessu frv. Að vísu veit ég ekki hvort um er að ræða svipaðan stað fyrir þá, sem komast eiga undir ákvæði þessa frv., og þann, sem móðir Sankti Péturs átti í vændum. En víst er það ætlað til bóta, og mér skilst, að af þeim ástæðum kunni hv. frsm. því illa, að lofa smábýlamönnum að hanga á bændunum. Ég undrast það, hvað hugsunarháttur hv. frsm. er einstrengingslegur og gersamlega hlutdrægur í þessu máli; það er eins og hann geti ekki litið við því að styðja nokkra aðra en þá, sem hafa landbúnað að aðalatvinnu, enda þótt þeir menn, sem hér er um að ræða, séu sízt betur settir en bændurnir. Ég mun því fylgja frv. eins og það kom frá Nd. að því er þetta ákvæði snertir. En ýmsum af till. hv. landbn. get ég ekki veitt fylgi. Fyrst og fremst er ég andvígur þeim tveimur brtt., sem ég hefi gert að umtalsefni, því að þær eru báðar til spillis.

Hv. n. hefir hækkað talsvert framlagið úr ríkissjóði til kreppulánasjóðs, frá því sem var í frv., eða úr 2 millj. í 2½ millj. kr. Það er náttúrlega gott, ef ríkissjóður getur lagt þetta fram, en það er athugavert, að þetta á að gerast á næstu 10 árum, og nemur það ca. ¼ millj. kr. á ári. Auk þess hefir nú verið samþ. í fjárl. fyrir árið 1934 að heimila stjórninni allt að 400 þús. kr. til þess að greiða bændum halla af kjötsölunni, ef illa gengur með kjötverzlunina næsta haust. Ég álít, að það sé réttmæt ráðstöfun. Þetta er að vísu stór upphæð, en ég sé ekkert eftir henni. Með hliðsjón af þessu þykir mér það kuldaleg framkoma hjá hv. frsm. að vilja fella smábýlamennina algerlega út úr frv. Ég vænti, að hv. þdm. fylgi ekki n. að málum í því atriði. — Mér heyrðist undir væng, að hæstv. atvmrh. væri ekki sérstaklega hrifinn af þessari brtt. n. Má vera, að honum hafi eins og mér dottið í hug dæmisagan um móður Sankti Péturs.