24.05.1933
Efri deild: 80. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (3421)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég vil þakka hæstv. atvmrh. fyrir, að hann hefir fallið frá þeirri ósk sinni, að n. tæki aftur til 3. umr. þær brtt., þrjár að tölu, er hann í fyrri ræðu sinni taldi athugaverðar. Og sem betur fór tjáði hann sig geta fallizt á meginhlutann af brtt. n., svo að ég þarf ekki að svara honum frekar fyrir hönd n.

En ég verð aðeins að segja örfá orð til hv. 2. landsk. Hv. þm. virtist vera mjög hnugginn fyrir hönd lánardrottna bænda, út af því, að þeir þyrftu að gefa eitthvað eftir af kröfum sínum, einkum ef skuldabréf kreppulánasjóðs yrðu ekki látin sæta afföllum. En ég held sannast að segja, að það hafi enginn meiri ástæðu til að taka þessu frv. með þökkum en einmitt lánardrottnarnir, því að ef þetta frv. verður að 1., þá tryggir það lánardrottnum bænda greiðslu á miklum meiri hl. af skuldum þeirra. Þess vegna er það ekki ósanngjarnt, þó að lánardrottnar verði að taka skuldabréfin með nafnverði, þar sem þeim eru tryggðir 4½% í vexti af bréfunum, og jafnvel þó að meira væri slegið af vöxtunum.

Ég verð svo að þakka hv. þm. fyrir þá fögru líkingu, er hann heimfærði til framkomu minnar gagnvart smábýlamönnunum, með dæmisögunni af móður Sankti Péturs. Ég veit, að það muni vera af sérstökum rótum runnið, að honum er þessi dæmisaga svo minnisstæð, honum virðist fyrirmyndin fögur, enda breytti hann nákvæmlega eftir móður Sankti Péturs við 2. umr. fjárl. hér í d., þar sem hann gat ekki unnað fátækum verkamönnum á Akureyri að halda nokkrum hluta af sjúkrastyrk, sem þeir hafa áður haft. Þar var hann að hrista af sér gamla félaga sína, af því að þeir bera nú ekki sama pólitíska lit og hann. Og svo ætlar hann öðrum slíkt hið sama. (JBald: Þetta kallar maður nú að segja: „Jettu 'ann sjálfur“).