27.05.1933
Efri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (3429)

167. mál, kreppulánasjóð

Jónas Jónsson:

Ég hefi flutt við frv. brtt., sem náði ekki samþ. í Nd. 1. liður lýtur að því að heimila stj. kreppulánasjóðs að hafa nokkurt fé til umráða til afskriftar á skuldum. Undirbúningsn. og Nd. hafa gert ráð fyrir því, að ríkið lækkaði vextina af lánunum. Ríkið veitir í raun og veru ekki aðra hjálp en að láta menn fá ódýrari lán en nú er, og verða aðrar lánstofnanir að haga sér þar eftir með því að minnka sinn höfuðstól. Nú álíta margir, að erfitt sé að framkvæma þessa skuldalækkun, ef aðeins sé um að ræða lán frá ríkinu, og því sé nauðsynlegt, að stj. sjóðsins hafi nokkurt fé undir höndum til að létta af fyrirtækjum, sem lán hafa fengið, en ekki geta staðið í skilum. Mikill hluti slíkra skulda er hjá verzlunum fyrir matvöru. Verður að líta svo á, að margar verzlanir hafi stuðlað að því að halda lífinu í þjóðinni með matvörulánum, og eigi þær því rétt á hjálp. Er betra, að þessu fé sé þannig eytt en að því sé eytt í spekúlatiónir. Þó að þetta mál kunni að verða fellt nú, verður það eflaust tekið upp aftur.

Síðari liður brtt. minnar er við 20. gr. frv. Er þar gert ráð fyrir því, að stj. sjóðsins skipi 5 menn í stað 3. Er þar bætt við manni frá Landsbankanum og öðrum frá Samb. ísl. samvinnufélaga. Þessi framkvæmd kemur Landsbankanum mikið við, og má búast við því, að hann verði að gefa eftir eitthvað af lánum sínum og að eitthvað af skuldabréfum safnist fyrir hjá honum. Sú leið, sem n. tók, að útiloka bankann, gerir allt erfiðara og hættulegra. Sama er að segja um Sambandið. Það mun gefa eftir mikið af því, sem það hefir lánað bændum. Það er sú stofnun, sem hefir haft á hendi mestar framkvæmdir fyrir bændur hér á landi. Þessi aðili gætir í einu sinna hagsmuna og landsbúa. Verður hann því að hafa fulltrúa í stj. sjóðsins. Kostnaður við þetta held ég, að verði ekki miklu meiri en ella myndi. Mætti líka ákveða það, að stofnanir þær, sem þessa menn skipa, kosti þá sjálfar.