27.05.1933
Efri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (3430)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm. (Jón Jónsson):

Mér virðast tvær af þeim brtt., sem fram hafa komið, brtt. á þskj. 817 og 1. liður á þskj. 800, gangi mjög í gagnstæðar áttir. Till. á þskj. 817 miðar að því, að skuldabréfin skuli aðeins vera gildur gjaldeyrir affallalaust fyrir lántakendur sjálfa. Ef því halli verður á skuldabréfum, þá færist hann yfir á þann næsta, lendir á þeim, sem greiðslu fá hjá bónda, sem tekur lán úr kreppulánasjóði. Eftir frv. eru aftur bréfin gildur gjaldeyrir affallalaust upp í allar skuldir manna, sem stofnaðar voru 1. jan. þ. á. Tapið lendir þannig hjá lánstofnunum eða hjá þeim, sem lánað hafa án þess að skulda öðrum. (JBald: En ef lánstofnanir skulda?). Það er hugsanlegt, að þær geti þá líka greitt með skuldabréfunum. En niðurstaðan verður sú, að Landsbankinn kemur til með að liggja með meiri hluta skuldabréfanna, svo að tapið lendir á honum. En það tap, sem leiðir af lægri vöxtum kreppulánasjóðs, er ekkert milljónatap, og bankinn hefir þá fyrr gefið eftir skuldir og það margfalt meiri en þær, sem hér um ræðir. Og þó að hv. 1. þm. Reykv. talaði um, að þeir, sem útveg stunda, hafi sjálfir orðið að bera hallann af atvinnurekstrinum — og verið skammaðir í þokkabót — þá er hitt þó réttara, að mest öll töp bankanna hafi einmitt stafað frá þessum atvinnuveg. Ég er svo sem ekki að áfella þessa menn, sem hafa orðið gjaldþrota, en segi þetta aðeins til samanburðar. Tap bankanna, sem hér um ræðir, yrði á aðra millj. kr., ef það lenti allt hjá honum, en vitanlega myndi það aldrei lenda þar allt, heldur dreifast á sparisjóði og prívatmenn, og finnst mér þeir ekkert vorkunnarverðir eða brjóstumkennanlegir, þó að þeir taki eitthvert tap á sig, og beinlínis sanngjarnt, að þeir geri það, þar sem þetta bætir þeirra hag. Deildin hefir fallizt á við 2. umr. þessa máls, að bréfin gangi affallalaust. Og þegar gefið verður eftir, þá er hulið að baki, að lántakandi verði að teljast starfshæfur á eftir. Mér virðist, þar sem búast má við, að lánardrottnar verði að gefa stórkostlega eftir, þá vera nokkuð mikið að ætlast til, að þeir verði skyldaðir til að taka bréfin við nafnverði, án þess að mega nota þau á sama hátt í sínar skuldir. Ég held, að þeim verði það alveg óbærilegt.

Hv. 5. landsk. stefnir alveg í gagnstæða átt með till. sínum. Hann óttast, að lánardrottnarnir verði harðast úti og taki of mikið á sig. Hann kemur með till. um að verja allt að 1 millj. kr. til þeirra stofnana, sem þurfa að gefa mjög mikið eftir af skuldum til bænda. En sá galli er á þessu, að eftir frv. er ætlazt til, að sjóðurinn standi sjálfur undir sínum lánum, og þá er ekkert fé til í þessa greiðslu. Mér virðist líka fulllangt gengið, ef þessum stofnunum er fyrst gert það hagræði, sem frv. gerir ráð fyrir, og veitt stórfé að auki. Því verður ekki neitað, að þeim stofnunum, sem hann ber fyrir brjósti, samvinnufélögunum, var gert léttara fyrir með þeim ráðstöfunum, sem verið var að samþ. í dag, og ég sé ekki, að hægt sé að fara öllu lengra.

Hin till. á þskj. 800, um að stjórn kreppulánasjóðs verði fjölmennari, er að mínum dómi ekki góð, og leggur meiri hl. n. á móti henni. Telur hann enga tryggingu fyrir því, að stjórn sjóðsins fari betur úr hendi, þó að í henni verði 5 í stað 3 manna. Auk þess er enginn vafi á því, að það yrði langtum vafningsmeira, enda er ekki venjan, að bankastjórnir séu svo fjölmennar. Það er líka óeðlilegt að vissu leyti, og mundi vekja óþarfa tortryggni, ef vissir lánardrottnar hefðu meira vald yfir stjórn sjóðsins en aðrir. Þess vegna getur n. ekki mælt með þessari till. Það virðist líka vera sæmileg miðlunarleið, að þingið útnefni meiri hl. í stjórnina, og ekki ástæða til að fylgja öðru en því.