20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

1. mál, fjárlög 1934

Guðrún Lárusdóttir:

Ég ætla aðeins að gera stutta grein fyrir þeim fáu brtt., sem ég flyt á þskj. 733. Það er þá fyrst brtt. við 12. gr. 16. j., um hjúkrunarfél. Líkn. Það þarf ekki að lýsa starfsemi félagsins fyrir þeim, sem hér eru kunnugir í borginni. Þetta félag hefir hafið öfluga baráttu gegn vágesti þeim, sem stundum er kallaður „hvíti dauði“. Árið 1921 stofnaði það stöð, sem almennt er kölluð Berklavarnarstöð Líknar, með það fyrir augum að reyna að koma í veg fyrir, að þessi slæmi sjúkdómur festi rætur hjá börnunum. Mér er kunnugt um það, að starfsemin hefir gengið mjög vel, og hún hefir vaxið stöðugt ár frá ári, og er nú komið svo, að ég hygg, að ef félagið yrði að leggja niður eða takmarka starfsemi sína vegna fjárskorts eða annars, þá yrði það almennt talið mjög illa farið.

Starf berklavarnarstöðvarinnar er í því falið, að þangað leita svo að segja allflestir bæjarbúar með börn sín, sem ekki er ugglaust um, að e. t. v. búi í kirtlaveiki eða aðrir kvillar, sem skyldir eru berklum, og stöðin hefir alltaf á reiðum höndum læknishjálp og hjúkrun. Hún hefir fasta hjúkrunarkonu, sem gengur á heimilin, leiðbeinir og gefur góð ráð, þar sem um er að ræða blóðlítil og kirtlaveik börn. Þar að auki veitir stöðin margskonar aðra hjálp, eins og t. d. að útvega sjúklingum ókeypis röntgenljóslækningar og leiðbeiningar fólki, sem kemur til bæjarins ókunnugt, lánar inn á fátæk heimili rúmföt og sér um sótthreinsun, gefur hrákabauka, hitamæla og nánast öll þau tæki, sem þarf til hjúkrunar. Eins og gefur að skilja, þá kostar slíkt mikla peninga, og þegar þess er gætt, að félagið þarf að leigja vandað og dýrt húsnæði, þá er það ekki lítið fé, sem félagið þarf á að halda, enda hefir það notið fjárstyrks frá ríkinu og hefir allajafnan haft í fjárl. upp á síðkastið 4 þús. kr. Bæjarfélagið hefir og styrkt félagið til jafns við ríkið. Nú hefir fjárveitingin lækkað um 1 þús. kr. og liggur þá við borð, að bæjarstyrkurinn lækki einnig. En það væri óhentugt fyrir félagið. Þegar litið er á starfsemi félagsins, þá hygg ég, að hv. þm. muni sjá þá þörf, sem hér er fyrir hendi og samþ. þessa litlu hækkun, m. ö. o. færi styrkinn í samt lag aftur.

Þá er næst brtt. mín við 12. gr. 16. j., nýr liður til sjúkraheimilis Hvítabandsins, 5000 kr. Við 2. umr. fjárl. bar ég fram ásamt hv. 1. þm. Reykv. till. um að veita þessu heimili Hvítabandsins 8000 kr., en sú till. náði ekki fram að ganga, og höfum við því fært hana niður í 5000 kr. í von um að það verði samþykkt. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það, sem ég sagði þá, hvorki um starf félagsins né þörf þess fyrir styrkveitingu. Ég hygg, að öllum, sem mál mitt heyra, sé það ljóst, að ef heimilið á að geta tekið til starfa í náinni framtíð, þá ríði því á að geta fengið þetta fé. Í spítalanum er legupláss fyrir 50 manns. Það verður því talsvert fé, sem inn kemur í spítalagjald og má því til sanns vegar færa, að það sé dýr hver dagurinn, sem heimilið getur ekki tekið til starfa.

Ég vil því leggja áherzlu á, að þessi styrkur til Hvítabandsins verði samþ. Þá ber ég einnig fram brtt. við 12. gr.

16. m., sem er nýr liður, til Unnar Vilhjálmsdóttur. Hún hefir nokkrum sinnum sótt um styrk til þingsins og bænir hennar hafa verið heyrðar, sem hún er þakklát fyrir. Í fyrra sótti hún um 2500 kr., en fékk 1500 kr. Hún lét svo um mælt þá, að ef hún fengi þennan styrk að fullu, þá mundi hún ekki þurfa að sækja oftar til þingsins. En nú endurtekur hún styrkbeiðnina og byggir hana á þessari þörf, sem hún tók fram í fyrra, að fengi hún ekki þennan styrk að fullu, þá yrði hún að koma aftur.

Ég þarf ekki og ætla mér ekki að fara að lýsa kjörum einstæðingsstúlku, sem er fátæk og heilsulaus. Það þekkja sjálfsagt allir hv. dm. eitthvað af því tæi, og ég veit, að þeir bera þær hugrenningar í brjósti, að þeir eru ekki fjarlægir því að vilja rétta slíkum hjálparhönd. Hún gerir sér vonir um að njóta styrks úr minningarsjóði Landsspítalans og að heilsa hennar komist það í lag vonum bráðar, að hún þurfi ekki að knýja á náðardyr þingsins oftar. Ég legg þetta mál hennar í hendur hv. dm., ég veit, að þeir muni gera eftir því sem samvizka þeirra bezt býður.

Þá á ég brtt. við 15. gr. Það er nýr liður, til Dagmar Bjarnason, í viðurkenningarskyni fyrir hjálpsemi hennar við Íslendinga, sem dvalið hafa í Frakklandi. Það kann að vera einkennilegt að bera fram svona till. á þessum krepputímum. Ég skal játa það, að ég hefi ekki haft ástæður til þess að kynnast starfi þessarar konu, sem hér á hlut að máli, en ég veit, að þeir, sem hafa ferðazt um önnur lönd, eru þar vegalitlir, félitlir, og kannske mállitlir, verða fegnir að hitta fyrir heimili, þar sem þeim er rétt hlýleg vinar- og hjálparhönd og ekki síður ef það er eigin landi, sem þar á hlut að máli. Ég hygg, að það megi til sanns vegar færa, að þessi kona hafi reynzt mörgum Íslending, sem til Frakklands hefir komið, fátækur og ekki fullfær í frönskunni, ákaflega vel og þess vegna hefir verið borin fram þessi beiðni fyrir hennar hönd, sem svo hljóðar með leyfi hæstv. forseta:

„Vér undirrituð leyfum oss hér með að fara þess á leit við hið háa Alþingi, að það veiti frk. Dagmar Bjarnason, 1 Rue de 1'Université, Paris, nokkra upphæð sem viðurkenningarvott fyrir gagn og sóma, sem hún hefir unnið landi og þjóð, og þá miklu hjálpsemi, sem hún hefir sýnt Íslendingum erlendis. Ungfrú Dagmar hefir verið búsett í París í 40 ár og má telja, að hús hennar hafi verið athvarf fyrir Íslendinga, sem þar hafa dvalið, og hefir hún reynzt þeim, sem til hennar hafa leitað, hin mesta hjálparhella, og mun óhætt að fullyrða, að kynni þau, sem erlendir menn hafa haft af henni, en þau eru næsta mikil, þar sem hún hefir starfað sem hjúkrunarkona erlendis um áratugi, og meðan á stríðinu stóð var hún sjálfboðaliði við Rauðakrossinn, sé landi voru til hans mesta sóma“.

Undir þetta hafa skrifað ýmsir mætir menn hér í bæ. Annars mun ég ekki fjölyrða um þetta, og geta hv. þdm. kynnt sér umsóknina og þau gögn, er henni fylgja.

Þá á ég brtt. við brtt. á þskj. 733, þar sem talað er um fé til atvinnubóta í kaupstöðum. Brtt. mín fer fram á það, að af þessu fé megi veita allt að 10 þús. kr. handa fátækum, en efnilegum ungum kaupstaðapiltum til þess að stunda nám við búnaðarskóla ríkisins. Þetta þykir e. t. v. einkennileg till. En það er nú samt svo, að þótt ég játi, að atvinnuleysið skelli harðast á fjölskyldumönnunum, þá er það engum óhollara en einmitt ungu mönnunum. Iðjuleysið er rót alls ills. Atvinnuleysi er iðjuleysi, og iðjulausir ungir menn játa oft tælast út í ýmislegt misjafnt. Ungum mönnum sárnar, hvað þeir eru afskiptir atvinnubótavinnunni, fjölskyldumennirnir ganga eðlilega fyrir. En ungir menn þurfa líka að lifa. Verða þeir þá oft til byrði fjölskyldum sínum og ættingjum eða blátt áfram hreppum sínum. Því er sanngjarnt, að ungir menn fái líka að njóta þess fjár, sem varið er til atvinnubóta. Hefir mér ekki hugkvæmzt heppilegri leið en þessi til þess að láta þá hafa hlutdeild í þessu fé. Að ég hefi valið búnaðarskólana í till. minni, kemur til af tvennu. Búnaðarskólar ríkisins eru fyrst og fremst illa sóttir nú á tímum, en þar eru þó miklir starfskraftar, sem verður að nota, og mikið lagt í kostnað frá ríkisins hálfu, sem verður að koma að sem mestu gagni fyrir þjóðina. Í annan stað er þörf á því að beina hugum kaupstaðabúa að búmennsku, og gæti þetta verið heppilegt ráð til þess. Það er réttilega mikið kvartað undan því, að ungt fólk þyrpist í kaupstaðina, þar sem það heldur, að það muni frekar geta bjargað sér og eigi meiri atvinnuvonir. En þessar vonir bregðast oft og tíðum. Hér í Rvík er t. d., einkum á vetrum, yfirfullt af ungum mönnum, sem ekkert hafa að gera. Fer þar oft gott mannsefni forgörðum í ýmiskonar óreglu, af því að engin vinna eða námsstarf er fyrir hendi.

Á síðastl. hausti var gerð ofurlítil tilraun í þessa átt. Sóttu um 20 ungir menn um styrk til þess að stunda nám við ýmsa skóla, en þar eð námsstyrkurinn frá bæjarfélagsins hálfu var aðallega bundinn því skilyrði, að námið væri stundað við búnaðarskóla, urðu þeir ekki nema 2, sem gátu komið til greina og fóru þeir í búnaðarskólann á Hvanneyri. Annar þessara pilta stundar nám sitt sérstaklega vel.

Ef einhverju fé yrði varið í þessu skyni, þá væri hægt að ganga úr skugga um, hvort ungum mönnum væri nokkuð í mun að nota sér þetta. Gæti það þá ýtt undir bæjarstjórnir um að gera hið sama. Enda þótt þetta yrði ekki nema hjálp fyrir fáa unga menn, sem fara á mis við atvinnu og önnur námstækifæri, þá væri þó nokkur bót að því, og held ég, að hægt myndi að veita um 60 ungum mönnum skólavist fyrir það fé, sem hér er tiltekið. Ef ríkið legði fram helming og sveitarfélögin annan helming, þá væri þetta málefni komið í allgott horf. Ég vil, að ungu mennirnir sjái, að löggjafarþing þjóðar þeirra vilji veita þeim athygli og taka tillit til þeirra. Þeir eru framtíð þjóðarinnar. Þetta er að vísu aðeins mjög lítið spor, en ég vona samt, að hv. þm. sjái ástæðu til þess að hjálpa mér til að stíga það, svo að hægt sé að veita hjálp einhverjum ungum mönnum, sem stynja nú þungan undan örðugri byrði atvinnuleysisins.

Þá á ég brtt. við 18. gr. fjárlfrv. um að hækka styrk prestsekkjunnar Margrétar Jónsdóttur upp í 300 kr. Þetta er svo lítið, sem hér er farið fram á, að það tekur því ekki að vera að tala um það.

Mun ég svo ekki tefja hv. d. lengur með þessum brtt. mínum.