09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2219 í B-deild Alþingistíðinda. (3446)

172. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Hv. frsm. sagði ekkert liggja fyrir um þörf þeirra manna til að fá greiðslufrest á afborgunum, sem um ræðir í brtt. okkar Alþflmanna. Þetta er ekki rétt. Það liggja fyrir allgreinilegar skýrslur um atvinnuleysi undanfarinna ára hjá þessu fólki, verkamönnum og sjómönnum, og það veit hver maður, að ekki eru miklar horfur á greiðslugetu hjá þessum mönnum. En hitt er rétt, eins og ég tók fram, að engar upplýsingar liggja fyrir um það, hve mikið fé lánsstofnanirnar eiga bundið í fasteignaveðslánum til þessara manna. Hv. frsm. telur það vera mjög mikið. Ég er honum ósammála um það. Ég hygg, að það geti ekki verið mjög mikið, en við getum hvorugur fullyrt neitt í þessu máli, bara hent á líkur. Hinsvegar er það vist, að þörfin á aðstoð í þessu skyni kemur sjálfsagt greinilega fram áður en kemur til að veita nokkra aðstoð, því að umsóknir um slíkt yrðu sendar til lánsstofnananna eða kreppulánasjóðs, og þeim umsóknum mundu sjálfsagt fylgja skýrsla og grg. um efnahag hlutaðeigandi skuldunauts, sem leiddi í ljós, hvort þörf væri á þessari hjálp. Það er því engin hætta á, að það verði að óþörfu veittur þessi stuðningur; a. m. k. er engu meiri hætta á, að þessum mönnum verði hjálpað að óþörfu heldur en þeim, sem til teknir eru í frv. sjálfu.

Út af því, sem ég sagði um brtt. meiri hl. n., að ég teldi það viðkunnanlegra, að lántakanda sé veitt lán úr kreppulánasjóði heldur en að lánsstofnanirnar láni fé til þess að greiða sjálfum sér fyrir sína skuldunauta, þá sagði hv. frsm., að þetta væri ekki gerlegt, vegna þess að þá misstist veðrétturinn. Það er rétt, ef ekki eru sett sérstök ákvæði inn í frv., að þá missist veðrétturinn. En ég fæ ekki betur séð en að auðvelt sé að taka ákvæði upp í frv. um, að veðréttur sá, sem stóð fyrir afborgun á láni hlutaðeigandi lánsstofnunar, færist yfir á ný lán, sem gangi til þess að borga lán með 1. veðrétti. Það þarf að setja slíkt ákvæði í frv., og ég tel það vel gerlegt.