20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Baldvinsson:

Mér láðist að geta um till., sem ég flyt á þskj. 746. Það er 1500 kr. styrkur til útgáfu íslenzk-þýzkrar orðabókar. Það er kunnugt, að margir læra nú þýzku hér á landi, vegna aukinna viðskipta okkar við Þjóðverja. Er slík bók til mikils stuðnings í þeim efnum. Hún er búin til af dr. Guðbrandi Jónssyni. Hann er góður þýzkumaður og mikill afkastamaður og hefir unnið lengi að þessu verki. Ýmsir, sem vit hafa á, svo sem Jón Ófeigsson, telja þetta mikið verk og vandað, enda þótt galla megi á finna, eins og alltaf er. En verkið er svo mikið, að engin von er til þess, að bókin komi út nema fyrir opinberan styrk. Hefir ríkissjóður og jafnan lagt styrk til orðabóka, eins og t. d. til íslenzk-dönsku orðabókarinnar, og eins hefir Jón Ófeigsson verið styrktur til orðabókarsamningar. Þetta er því ekkert nýtt, sem hér er farið fram á. Veit ég til þess, að í starfi með Guðbrandi hafa verið Alexander Jóhannesson og fleiri þýzkumenn, þó að aðalverkið hafi verið í höndum hans sjálfs. Mun vera byrjað að prenta bókina, en ekki er til þess ætlazt, að styrkurinn verði greiddur fyrr en hún er fullprentuð. Má búast við, að það dragist nokkuð, því að verkið er seinlegt, en þó myndi þessi styrkur væntanlega koma til útborgunar á miðju næsta ári. Ætti að vera trygging fyrir því, að bókin yrði þá fullprentuð í Ísafoldarprentsmiðju.

Þá vil ég beina því til hv. 6. landsk., hvort ekki muni vera varhugavert að búast við því, að þeir atvinnulausu menn, sem eiga að njóta góðs af framlagi því, er taka á af atvinnubótafénu, geti lagt fram jafnmikið sjálfir. Margir þessara ungu manna, sem hv. þm. talar um, eiga bókstaflega ekkert fyrir sig að leggja, hversu efnilegir sem þeir kunna að vera. Getur þetta allt strandað á því, að þeir geti ekki náð í féð. Hv. þm. minntist á, að bæjarfélögin myndu e. t. v. vilja styrkja þá. En þar er önnur hlið á. Sumum er sá metnaður gefinn, að þeim er illa við að byrja lífsbrautina með því að taka sveitarstyrk. (GL: Það má undir engum kringumstæðum vera sveitarstyrkur). Hv. þm. talaði um, að sveitarfélögin legðu þeim fé. Sveitarfélögin gera oft slíka hluti, og þau geta líka ákveðið, að það skuli ekki teljast sveitarstyrkur. En þetta yrði þó lagt fram af fátækra fé, og væri með þessu ekki annað gert en að fara í kringum hlutina.