19.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (3467)

124. mál, geldingu hesta og nauta

Halldór Steinsson:

Ég á ásamt tveimur öðrum þm. brtt. við þetta frv. Eins og kunnugt er, þá mætti þetta frv. allmikilli mótspyrnu á þinginu í fyrra. Það, sem því var aðallega fundið til foráttu hér í d. í fyrra, voru einmitt þeir gallar, sem við með þessum brtt. viljum reyna að ráða bót á. Þessar brtt. eru 2. Önnur er sú, að gera frv. víðtækara en það nú er. Samkv. frv. eins og það er, þá nær þetta aðeins til tveggja dýrategunda, hesta og nauta. En þar sem frv. er flutt sem miskunnar- og mannúðarmál gagnvart dýrunum, þá virðist miskunnin ekki hafa náð langt, þar sem það nær aðeins til tveggja dýraflokka. Aðalbrtt. okkar gengur í þá átt að gera þessi lög víðtækari, þannig að láta þau ná til allra húsdýra. Þetta er önnur aðalbreyt. En hin breyt. er sú, að í staðinn fyrir að nota kloroform skuli staðdeyfa. Það ætti að vera hv. þm. kunnugt, að kloroform er hættulegt og talsverður vandi að fara með það, svo að ég er ekki í neinum minnsta vafa um það, að það er alls ekki á færi almennings að fara með það. Það er alls ekki forsvaranlegt að láta þá menn, sem þetta starf eiga að hafa með höndum, fara með þetta lyf, því að þótt það sé tekið fram í frv., að þessir menn eigi að fá tilsögn dýralæknis, þá verður hún aldrei svo fullkomin, að þeir geti fengið verulega þekkingu á ýmsum sjúkdómum, sem nauðsynlegt er til þess að geta notað þetta meðal.

Ég vil taka til dæmis lungnaveiki eða hjartabilun, að í þeim sjúkdómum er hættulegt að nota þetta lyf. Aftur á móti er hin aðferðin, að staðdeyfa, miklu hættuminni og einfaldari.

Ég vonast eftir, að hv. d. geti gengið inn á þessar brtt., því að þær miða að því, að áliti okkar flm., að gera frv. fullkomnara en það er nú.