20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

1. mál, fjárlög 1934

Jakob Möller:

Ég veit ekki, hvað hv. 2. landsk. hefir mælt í garð hv. frsm., sem hefir valdið því, að hv. frsm. fór að gera grein fyrir ástandinu hjá bændum landsins, en ég hygg, að ástæðan hafi verið sú, að honum hefir þótt bresta skilning á því vandræðaástandi, sem nú er meðal bænda. En ég vil í því sambandi minna hv. frsm. á það, sem sagt var hér við 2. umr. í sambandi við þær till., sem ég flutti þá og flyt nú aftur, um styrki til íslenzkra námsmanna erlendis. Ég minntist á það, að kreppan, sem nú ríkir í landinu og sverfur sérstaklega mikið að bændum, hún nær ekki síður til námsmanna en annara. Þeir eiga nú við svo mikla erfiðleika að stríða, að það er alveg sambærilegt við örðugleika bænda og annara atvinnurekenda hér á landi. Þar er því einnig við að bæta, að þessir námsmenn eru margir synir bænda, og að því leyti sem þeir geta átt von á styrk heiman að, stendur afkoma þeirra í sambandi við yfirstandandi fjárhagsörðugleika alveg eins og bændanna sjálfra. Það er því hin mesta nauðsyn, að ríkið hlaupi undir bagga með þessum mönnum og veiti þeim þann fjárstyrk, að þeir geti haldið áfram námi sínu.

Nú hefir hv. fjvn. á þskj. 733 XV borið fram brtt. um að námsstyrkur handa stúdentum sé hækkaður um 8 þús. kr., en samkv. þeirri gr., sem þar um ræðir, þá er sá styrkur ekki eingöngu bundinn við stúdenta. Ég hefi því borið fram brtt. á þskj. 751, sem bindur þessa hækkun við það, að styrkurinn gangi til þeirra stúdenta, sem Nd. samþ. að veita styrk, en voru felldir úr við 2. umr. í Ed. Ég veit, að hv. fjvn. hefir lagt til þessa 8 þús. kr. hækkun í þeim tilgangi, að þessir stúdentar geti fengið styrk af því fé. Mér virðist þessi hækkun allt of lítil og hefi þess vegna borið fram till. á þskj. 751, ásamt hv. 2. landsk., um að hækka liðinn um 4 þús. kr., og jafnframt er á sama þskj. brtt. um viðbót við aths. þá, sem er í fjárl. um þessa fjárveitingu, að hækkuninni skuli varið á sérstakan hátt, sem þar greinir. Hv. fjvn. hefir ekki gert till. um að breyta þeirri aths. neitt. En þar sem n. mun ætlast til, að þessi styrkur verði veittur þessum stúdentum, sem Nd. samþ. að styrkja, en Ed. felldi við 2. umr., þá þótti rétt, að þetta væri skýrt tekið fram. Þar eru taldir upp 8 stúdentar, sem eiga að fá styrk til lokanáms, hver í sinni fræðigrein, og ef veittar verða 1000 kr. til hvers þeirra, þá nægir þessi hækkun handa þeim. Svo er bætt við 3 stúdentum, þegar brtt. hv. 2. landsk. er talin með. Þar er ekki um lokanám að ræða, og er ætlazt til, að hver af þessum stúdentum fái 1200 kr. Mundi þá upphæðin nægja, ef samþ. yrði till. okkar, að hækka liðinn um 4 þús. kr.

Ég hefi skilið hv. fjvn. svo, að hún álíti í raun og veru sanngjarnt að veita styrk til lokanáms, en hún vildi aðeins hafa það undir öðrum lið. Ég geri þess vegna ráð fyrir, að n. geti tekið vel í þessa till.

Þá á ég brtt. á þskj. 733 ásamt hv. 4. landsk., um breyt. á styrk til Verzlunarskóla Íslands. Fyrir fjvn. hafa legið umsóknir frá stj. skólans um hækkun á styrk til hans. Er þar farið fram á sem aðalmálaleitun, að styrkurinn verði miðaður við 8. gr. 1. um héraðsskóla, í öðru lagi að styrkur til skólans verði á annan sanngjarnan hátt miðaður við nemenda- og kennslustundafjölda í hlutfalli við aðra skóla, og í þriðja lagi, að styrkurinn verði hækkaður þannig, að hann verði eins hár og hann var 1922, 9000 kr.

Ég geri ráð fyrir, að ekki sé ágreiningur um, að þessi skóli sé þörf stofnun. Hann hefir verið stofnaður fyrir framtak einstakra manna og kostnaðurinn að langmestu leyti borinn af einstökum mönnum. Vegna hinnar miklu þarfar fyrir þá kennslu, sem þessi skóli hefir veitt, hefir hann stækkað svo gífurlega, að þess er alls ekki að vænta, að hann geti haldið áfram að starfa með fullu afli, ef hann verður eingöngu að byggja á framlagi einstakra manna. Að vísu eru þar borguð skólagjöld hærri en við ríkisskólana, en það er náttúrlega hvergi nærri nægilegt til að standast þann kostnað, sem fylgir svo miklum skólarekstri. Nemendur hafa verið upp undir 200 síðasta ár, og má búast við, að þeim fjölgi ár frá ári. Þessi vaxandi aðsókn sýnir auðvitað betur en allt annað, hve mikil þörf er fyrir skólann og hvað það er mikil sanngirniskrafa, að skólinn sé styrktur á svipaðan hátt og aðrir skólar.

Nú höfum við hv. 4. landsk. ekki farið lengra í till. okkar en svo, að styrkurinn verði eitthvað í áttina til þess, sem styrkurinn til kvennaskólanna er, þ. e. a. s. að honum verði veittur lítilsháttar rekstrarstyrkur og svo styrkur eftir nemendafjölda, 40 kr. á hvern nemanda, sem er allt skólaárið, miðað við 200 nemendur. Með þessu yrði styrkurinn til þessa 200 manna skóla 18 þús. kr., og er það minna heldur en það, sem er lagt til þessara miklu fámennari skóla, kvennaskólanna. Kvennaskólinn í Rvík fær 28 þús. kr., en kvennaskólinn á Blönduósi 14 þús., því að hann er svo miklu fámennari. Þó að við teldum í rauninni sjálfsagt, að skólinn fengi styrk til jafns við þessa skóla, þá höfum við samt lagt til að styrkurinn verði ekki hærri en 18 þús., en lægri upphæð er ekki hægt að fara fram á. Þá höfum við borið fram varatill. um, að styrkurinn, sem nú er, 5 þús. kr., hækki upp í 10 þús. kr.

Þá hefi ég borið fram XXV. till. á sama þskj., um fjárveitingu, sem var einnig borin fram við 2. umr., en er nú nokkru lægri en varatill., sem ég bar þá fram, en tók aftur. Ég vænti, að hv. þdm. sjái sér fært að samþ. þessa litlu fjárveitingu, aðeins 800 kr., því að ég veit, að hv. þm. játa, að það, sem þar er um að ræða, er hið þarfasta, og hv. þm. hafa daglega tækifæri til að sannfæra sig um það.

Þá er XXVII. till. á sama þskj., að hækka styrkinn til Leikfélags Rvíkur úr 4 þús. kr. upp í 6 þús. kr. Þessi till. er til að færa til samræmis við það, sem áður hefir verið. Mér skilst, að það sé í raun og veru vilji þingsins, að þessi leikstarfsemi geti haldið áfram, en með sívaxandi erfiðleikum vegna þess ástands, sem nú er, þá verður alltaf erfiðara að halda uppi þessari starfsemi, og eftir því sem árangurinn hefir orðið af rekstri félagsins undanfarin ár, er ekki annað sjáanlegt en að þessi starfsemi falli niður, ef ekki verður hlaupið undir bagga með því.

Þá hefi ég samkv. tilmælum hv. þm. Vestm. flutt brtt., sem er XXII. till. á þskj. 733, að hækka framlagið til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum um 2 þús. kr. Þegar frv. kom frá Nd., var í því 10 þús. kr. fjárveiting, en samkv. till. fjvn. Ed. var sá liður lækkaður niður í 6 þús. kr. Til samkomulags geri ég það nú að till. minni, að fjárveitingin verði 8 þús. krónur.

Til þessarar till. liggja þær ástæður, að þar sem um þessa ræktun í Vestmannaeyjum er að ræða, þá er það ræktun á landi ríkissjóðs. Það starf er þess vegna unnið til þess að auka verðmæti á eign ríkisins, og þar við bætist, að þessi vinna getur jafnframt skoðazt sem atvinnubótavinna á þessum stað og sennilegt er, að þá megi veita þeim mun minna fé sem beinan atvinnubótastyrk.

Í XXXIII. till. er farið fram á lítilsháttar styrk til Skógræktarfélags Íslands. Þetta félag hefir nú í undirbúningi talsverðar framkvæmdir, en til þess að þær geti orðið, verður það að fá þennan styrk, og það er líka í fullu samræmi við ýmsar fjárveitingar, sem þingið hefir áður veitt, að veita styrk til þessa starfs.

Jafnframt þessu hefi ég boðið mönnum upp á að lækka annan útgjaldalið í fjárl., svo að útgjöldin verði þeim mun minni. Það er útgjaldaliður, sem er hundinn a. m. k. að einhverju leyti við samskonar starfsemi, þ. e. a. s. skógrækt, en eftir því sem ég veit bezt kemur að betri notum í því sambandi, heldur mun aðallega veitt til annara hluta, sem eru lítið skyldir þessari starfsemi.

XLV. till. er flutt samkv. beiðni hv. þm. Vestm. Um þá till. þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Vestmannaeyjakaupstaður er að stækka, og af því leiðir það, að hann verður að fá stærri rafmagnsveitu, og til slíkra framkvæmda er óhugsandi að fá lán nema með ríkisábyrgð. Hinsvegar á það að vera tryggt, að þarna sé engin áhætta, þar sem þetta fyrirtæki gefur í aðra hönd þær tekjur, sem nauðsynlegar eru til að standast þann kostnað, sem af þessu leiðir.

Svipað er að segja um XLVII. till., þar sem farið er fram á ríkisábyrgð fyrir 300 þús. kr. láni fyrir leikhússjóð, til þess að fullgera þjóðleikhúsið til kvikmyndasýninga. Þar getur ekki verið um áhættu að ræða, því að telja má vafalaust, þegar sá rekstur er kominn í gang, að þá mundi hann fullkomlega geta staðið undir vöxtum og afborgunum af slíku láni, Nægir í því sambandi að vísa til þess, að hér í bæ eru kvikmyndahús, sem byggð eru á dýrari tíma, en eru nú að borga sig upp beinlínis með þeim hagnaði, sem af rekstrinum leiðir. Þar við bætist það, að þessi ábyrgð verkaði sem ráðstöfun til atvinnubóta, og þarf þá það opinbera að leggja þeim mun minna fram beinlínis í því skyni. Það færi að vísu nokkuð af þessu til að kaupa útlent efni, vélar og þessháttar, en langmest færi í smíði innanhúss, smíði á húsgögnum og þvíumlíku.

Þá hefi ég verið beðinn að skýra frá efni yfirlýsingar viðvíkjandi XXXVIII. till. frá hv. 4. landsk. um 800 kr. styrk til Sigurðar Sigurðssonar skálds. Þessi styrkur er í raun og veru ekki eingöngu miðaður við verðleika þessa manns sem skálds, þótt hann sé góðs maklegur að því leyti. Það er ekki síður fyrir starfsemi hans fyrir björgunarmálin í landinu. Ég hefi verið beðinn að lesa upp fyrir hv. þd. yfirlýsingu þar að lútandi frá varðskipstjórunum Jóhanni P. Jónssyni og Friðríki Ólafssyni. Hún er þannig:

„Okkur undirrituðum er kunnugt um, að herra Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti hefir í hyggju að fara þess á leit við hið háa Alþingi, að fá einhvern fjárstyrk frá hinu opinbera í notum þess, sem hann hefir lagt til bókmennta landsins og björgunar- og landhelgisgæzlumálanna.

Við höfum frá fyrstu byrjun unnið að björgunar- og landhelgisgæzlunni og erum því vel kunnugir starfi hans í þeim efnum, sem hefir verið rækt af miklum áhuga og allmiklum fjárframlögum, meðan þessa þurfti mest með.

Viljum við því mæla hið bezta með því, að hinu háa Alþingi mætti þóknast að verða við ósk hans í þessu efni, enda vitum við, að hann, atvinnulaus og þrotinn að starfskröftum, hefir þess þörf.

Virðingarfyllst.

Jóh. P. Jónsson. Friðrik Ólafsson.

Það er kunnugt um þennan mann, að hann hefir misst heilsu og hefir orðið að hætta við lífsstarf sitt, sem gaf honum að vísu allgóða afkomu, en vegna veikinda hefir svo atvikazt, að hann er efnalaus, enda hefir hann að kunnugra manna sögn verið óspar á framlög til þarfra framkvæmda, og þó fyrst og fremst til björgunarstarfsemi í Vestmannaeyjum. Vil ég því mæla hið bezta með þessari till. hv. 4. landsk.

Þá flyt ég á þskj. 746 till. um lokanámsstyrk til Jóns Gíslasonar. Það var fyrir vangá, að hann varð ekki með í till. þeirri, sem ég hefi nú þegar gert grein fyrir, en vænti, að hún nái fram að ganga, ef hinar verða samþ.

Þá hefi ég á þskj. 759 borið fram till. um 500 kr. styrk til Veiði- og loðdýrafélags Íslands. Þetta er vafalaust þörf starfsemi, og er nú sagt, að Búnaðarfélag Íslands ætli að taka þetta mál að sér, en af því mun þó ekki hafa orðið enn. Þetta félag hefir nú þegar unnið gott verk, og þykir mér því sanngjarnt, að Alþingi veiti því þessa litlu viðurkenningu, a. m. k. þangað til séð verður, hvað verður úr framkvæmdum í þessu efni af hálfu Búnaðarfélagsins.

Ég held, að ég hafi þá minnzt á þær brtt., sem ég hefi að flytja og geti því látið við þetta sitja að sinni.