29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2223 í B-deild Alþingistíðinda. (3483)

172. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Frsm. (Jón Jónsson):

Landbn. hefir leyft sér að flytja hér brtt. á orðun 5. gr. frv., sem fer fram á, að það sé ekki eingöngu bundið við, að lánin, sem ríkið taki að sér að greiða hluta af vegna frystihúsanna, séu úr viðlagasjóði eða Búnaðarbankanum. N. vissi ekki í fyrstu annað en að svo væri ástatt um öll frystihúsin, að þau hefðu sín lán frá þessum stofnunum, og ætlaðist til, að þetta væri aðalreglan um frystihús, að styrkurinn gengi til að greiða lán við þau. En það er eitt frystihús, sem hefir dálitla sérstöðu um þetta og hefir aðallán sitt í Landsbankanum. Þótti því illt að gera því svo erfitt fyrir, að féð gæti ekki gengið upp í að greiða það lán. Því er það fellt niður úr frvgr., að styrkurinn gangi upp í þessi vissu lán.

Þá er það ný málsgr., sem n. leggur til, að komi við þessa gr., og hljóðar hún um, að sama skuli gilda um lán, sem Sláturfél. Suðurlands hafi tekið vegna stofnunar niðursuðuverksmiðju, sem félagið hefir komið upp. Niðursuðuverksmiðjan tók að einhverju leyti til starfa 1920 og starfaði þá að því að sjóða niður kjöt, en það var í mjög smáum stíl. En svo óx framleiðslan og vann sér álit og fékk sér þá miklu fullkomnari tæki og dýrari, byggði sérstakt hús 1927 og starfaði að þessu 1927, '28 og '29 og hafði þó töluvert mikla umsetningu og útrýmdi miklu af innflutningi samskonar vara, og jafnframt sauð verksmiðjan niður nokkuð af fiski. Árið 1930 var unnið talsvert mikið að niðursuðunni, en þá kom verðfallið yfir þessa starfsemi og hún varð fyrir stórkostlega miklu tjóni og hefir jafnvel ekki enn getað selt vörur sínar frá þessu framleiðslutímabili. Seinasta haust mun hafa verið framleitt lítið. Sem sagt, félagið hefir þarna brotið ísinn um mjög merkilega framkvæmd til þess að gera okkar vörur markaðshæfari en ella. Fyrir það á Sláturfél. Suðurl. þakkir skilið. En jafnframt kom það í ljós, að það hefir á þessum voðalegu verðsveiflutímum bakað sér töluvert tjón með þessu í bili, og því sýnist ekki nema sanngjarnt, að það njóti um þessa starfsemi sína sömu ívilnunar og frystihús hjá öðrum sláturfélögum, sem hafa unnið mikið starf við að gera kjötið markaðshæfara erlendis. N. vill því mæla hið bezta með þessari till., og vænti ég þess fyrir hennar hönd, að d. geti fallizt á umorðun gr.