29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (3485)

172. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég skal einungis vekja athygli á því, að ríkissjóði mun erfitt að nota þessa heimild, ef hún á að orðast eins og í brtt. á þskj. 833. Ég geri ráð fyrir, að sú greiðsla, sem á frystihúsi Sláturfél. Suðurl. hvílir, sé þannig, að hún fari fram mjög fljótt, og mun þess vegna þurfa á reiðufé að halda nú þegar á þessu ári, til þess að heimildin verði notuð. En kosturinn við heimildina, sem er í 5. gr. frv., er sá, að þessa greiðslu má inna af hendi smátt og smátt í viðlagasjóð og Búnaðarbankann. Hinsvegar ætla ég, að það skipti ekki svo mjög miklu máli hvað þetta eina frystihús snertir, því að ég geri ráð fyrir, að það myndi áður en 1. ganga í gildi geta breytt sínum lánum og komizt undir ákvæði 5. gr. eins og þau eru nú. Ég veit ekki heldur hvort Sláturfél. Sl. er nokkur greiði ger með því að breyta orðalaginu, sem er á 5. gr. um sláturhús, sem frysta kjöt til útflutnings, þannig að inn í gr. komi: „enda sé aðalhlutverk þeirra að frysta kjöt til útflutnings“. Ég vil, að menn athugi, hvort frystihúsinu er ekki einmitt gert erfiðara fyrir með orðalagi brtt., því að það mun vera álitamál, hvort það er aðalhlutverk Sláturfél. Sl. að frysta til útflutnings.

Viðvíkjandi 2. lið brtt. vil ég einungis benda á, að niðursuða er rekin víðar en hjá Sláturfél. Sl., a. m. k. er í Borgarnesi rekin allmikil niðursuða, og hygg ég því, að það þurfi athugunar við, hvort þar er þá gætt fulls jafnréttis, ef þetta eina fyrirtæki er tekið út úr og látið fá styrk. Í Nd. varð það að samkomulagi, þó að það kæmi ekki fram í umr., að vegna þess að vart yrði litið svo á, að Sláturfél. Suðurl. hefði það sem sitt aðalhlutverk að frysta kjöt til útflutnings, þá kæmi það að vísu til greina, en í dálítið öðru hlutfalli en þau hús, sem frysta kjöt eingöngu til útflutnings. Einmitt með það fyrir augum var það orðalag haft, sem stóð í frv. eins og það kom hingað, „allt að ¼ stofnkostnaðar“. Ég hygg, að það hafi orðið samkomulag í Nd. við a. m. k. einn mann úr stjórn Sláturfél., að það orðalag væri haft einmitt með tilliti til þessa. Ég get tekið undir það, að Sláturfél. Suðurl. sé alls góðs maklegt fyrir sitt framtak í niðursuðu; en ég hygg, að það geti e. t. v. fleiri gert sömu kröfur. Ef svo fer, skiptir þetta nokkru máli fyrir ríkissjóð.