29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (3487)

172. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég held, að þetta sé á dálitlum misskilningi byggt hjá hæstv. atvmrh. Ég held, að ríkisstj. ætti ekki að verða miklu erfiðara um greiðslu á svona lánum eftir gr. eins og hún er nú orðuð, vegna þess að þetta er aðeins heimild til ríkisstj. og hún getur sett þau skilyrði, sem henni sýnist, áður en hún notar heimildina. Hitt er misskilningur, að við höfum breytt til í þeim tilgangi að létta nokkuð undir með frystihúsi Sláturfélags Suðurlands. Það er ekki meiningin að liðka frekar til fyrir frystihús Sláturfél. með þessari breytingu. Um síðara atriðið, styrkinn til niðursuðuverksmiðjunnar, er það að segja, að þar held ég, að við rekumst ekki á neina aðra; a. m. k. veit ég, að þm. hlutaðeigandi héraða þarna upp frá hafa lagt töluvert kapp á, að svona till. kæmist inn. Eftir því sem mér hefir skilizt, er þessi niðursuða uppi í Borgarnesi lítil og kannske þverrandi, og hafa verið notuð sömu áhöld við niðursuðuna og notuð hafa verið við mjólkina, en nú er frv. á ferðinni um styrk til mjólkurbúa. — Ég held, að þessi mótmæli hæstv. ráðh. séu að nokkru leyti byggð á misskilningi. Þetta á ekki að verða erfiðara fyrir ríkissjóð, því að hann getur sett þau lánsskilyrði, sem honum sýnist. Það er í engu breytt til um kröfur til frystihúsanna frá því, sem gert var í frv., og loks rekst það ekkert á hagsmuni Borgfirðinga, þó að Sláturfél. komi þarna undir.