29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (3489)

172. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Hv. 3. landsk. skildi orð mín sem mótmæli; þau áttu ekki að skiljast þannig. Ég vildi aðeins vekja athygli hv. d. á þessu tvennu. Ef það er meiningin, að frystihús Sláturfél. Suðurlands eigi að fá líkan rétt eins og önnur frystihús, þá tel ég ekki rétt að orða brtt. svo: „enda sé það aðalhlutverk þeirra að frysta kjöt til útflutnings“. Það mun vart leika á tveim tungum, að aðalhlutverk þessa frystihúss er að frysta kjöt á innlendan markað, en ekki til útflutnings. Hinsvegar getur það vel komizt undir ákvæðin eins og þau eru í 5. gr. Hitt má vel vera, að ríkisstj. geti sett það skilyrði áður en heimildin er notuð, að lánunum sé betur fyrir komið, t. d. að þeim sé breytt í lán úr viðlagasjóði eða Búnaðarbankanum til lengri tíma; en ég sé ekki, að ástæða til orðabreyt. sé svo nauðsynleg.

Ég hefi síðan ég talaði áðan leitað upplýsinga um niðursuðuna í Borgarnesi. Má vel vera eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi nú fengið, að sú niðursuða, sem þar fer fram, sé ekki sambærileg við niðursuðuna hjá Sláturfél. Suðurlands.