20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

1. mál, fjárlög 1934

Magnús Torfason:

Ég verð nú að hrella hv. d. með því að bera fram eina brtt. á þskj. 746 þess efnis, að til læknisbústaðarins að Laugarási í Grímsneshéraði verði veittar 1200 kr. til greiðslu vaxta af skuldum. Þetta mál er gamalt hér á þingi, allt frá því að læknisbústaður var stofnsettur að Laugarási. Þá var keyptur bústaður gamall, fúinn og feyskinn og með öllu ónýtur. Búizt var við, að hverahitinn væri nægur til upphitunar, en þegar til kom reyndist húsið gatfúið niður við allar stoðir, og hvert járn ryðbrunnið, og svo var stórmiklu fé kastað til þess að flytja kumbaldann á klökkum niður allar mýrar. Af styrknum var svo dreginn fullur þriðjungur vegna þessara „kjarakaupa“! Var sýnu betra, að kaupa nýtt efni í húsið. Auk þessa hefir mikið þurft að lappa upp á kofann hvað eftir annað, og sá kostnaður er nú orðinn nokkuð hár. Skuldir þær, er á eigninni hvíla, eru 34200 kr. Þar af eru 11000, sem hvíla á jörðinni, en afgangurinn eða 23400 á húsinu. Hv. d. hefir nú ákveðið að veita Reykhólalæknisbústað 1200 kr. upp í vaxtagreiðslur af skuldum, sem hann verður að bera, en þær eru 20000 eða um það bil. Þessar skuldir eru hærri, en ég fer samt aðeins fram á, að þessu héraði verði gert eins hátt undir höfði og veitt samskonar kjör og hv. d. hefir samþ., að Reykhólahérað eigi við að búa. Að öðru leyti hefi ég ekki meira fram að færa, nema ég man ekki betur en að athugaverð sé orðunin á till. hv. fjvn. á þskj. 433, XL, um kaup á Skálholti. Rétt á undan er till. frá hæstv. forseta um að veita heimild til húsakaupa fyrir póst og síma á Blönduósi, þar er ákveðið, að dómkvaddir menn skuli meta kaupverðið. Hvers vegna hefir fjvn., sem þó á að bera meira skynbragð á slíka hluti en hæstv. forseti, ekki orðað sína till. svona? Þá mundu allir sætta sig við hana, og ekki væri hægt að koma með neinar ágizkanir. Ég vil því leyfa mér að skjóta því að hv. fjvn., að hún beri fram skrifl. brtt. um að lagfæra þetta. (JónJ: Hv. þm. getur eins vel gert það sjálfur). Nei, ég er aðeins einn, og hv. fjvn. er nær að leiðrétta sjálf sínar eigin misfellur, og ég ætla mér alls ekki þá dul, að ég hafi við hv. fjvn., fimmfaldri í roðinu. En á þessu mundi fara betur, ef því væri breytt, og er það mín einlæg ósk, að hv. n. fari eftir skynsamlegum tillögum, hvaðan sem þær berast.