03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2238 í B-deild Alþingistíðinda. (3508)

77. mál, virkjun Sogsins

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

N. hefir klofnað um þetta mál í tvennt, eða jafnvel meira. En meiri hl. n. er sammála um það, að ekki sé hægt að samþ. frv. óbreytt. Í frv. er gert ráð fyrir því, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir allt að 7 millj. kr. láni handa Rvík til virkjunar Sogsins. — Þetta mál er ekki nýtt, heldur var það mikið rætt fyrir tveim árum. Það var ekki hægt að heyra annað á þeim umr. en að þá þegar hefði farið fram fullkomin rannsókn til undirbúnings þessa mannvirkis. Þá var birtur fjöldi blaðagreina um málið, einkum í blaði hv. 2. landsk., og var helzt að heyra úr þeirri átt, að fyrirtækið væri svo undirbúið, að hægt væri að byrja framkvæmdir þá um sumarið. Nú virðist þetta vera breytt. Sá maður, sem nú beitir sér helzt fyrir þessu frv., hv. 1. landsk., telur alls ekki hafa farið fram næga athugun á því, hvernig þessu fyrirtæki ætti að haga, þó að hann vilji nú þegar fá ábyrgðarheimildina. — En ég hefi komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki sé nóg með það, að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað fyrir tveim árum, heldur hafi málið þá verið á hættulegri leið. Síðan hefir það komið fram, að á öðrum stað við Sogið sé hægt að koma upp stöð, sem mundi verða miklu ódýrari en sú, sem upphaflega var áætluð, en þó orðið til fullra nota. Því er það, að ég hefi álitið það eðlilegra að breyta frv. í ábyrgðarheimild handa ríkisstj. fyrir láni, allt að 3½ millj. kr., fyrir Reykjavík til virkjunar Sogsins. Þessi upphæð álít ég, að sé nægileg, og í því felst aðhald frá þinginu til bæjarins um að ráðast ekki í stærra fyrirtæki strax en nauðsynlegt er.

Ég hefi hugsað mér að bera fram við þessa umr. skrifl. brtt. við brtt. á þskj. 445, um að í stað orðanna „Efri-Brú“ komi „Syðri-Brú“, því að þótt virkjunin byrji í landi Efri-Brúar, er meiri hluti hennar í landareign Syðri-Brúar.