20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

1. mál, fjárlög 1934

Pétur Magnússon:

Ég á 3 brtt. á þskj. 733, sem ég skal gera grein fyrir með nokkrum orðum. Sú fyrsta þeirra er við 14. gr. A. b., nýr liður, þess efnis, að veittar verði 1200 kr. til Síðumúlakirkjusafnaðar, vegna sérstakra fjárhagsvandræða út af kirkjubyggingu. Þessi söfnuður er einhver minnsti söfnuðurinn í landinu, telur eitthvað um 10 bæi, flesta efnalitla. Kirkja var byggð þarna 1926, og kostaði á 9. þús. kr., en svo illa vildi til, að efnið, sem hún var klædd með innan, reyndist ónothæft, svo að raki komst að því og varð að rífa það innan úr og kosta til þess miklu fé. Hinsvegar hefir þingið farið inn á þá braut að styrkja Kvennabrekkusöfnuð í Dalasýslu, sem líkt stendur á fyrir, og mælir öll sanngirni þannig með því, að þessi fátæki söfnuður verði einnig styrktur. — Ég ber fram varatill., um 1000 kr. styrk, ef 1200 kr. skyldi þykja of mikið.

Önnur till. mín, XVII, fer fram á það, að Ágústi Sigurðssyni verði veittur 1200 kr. námsstyrkur. Þessi piltur er búinn að stunda nám í 4—5 ár, að því er ég ætla, og hefir hann lagt stund á norðurlandamálin. Mér er hann ókunnugur að öðru en eftir sögusögn annara, en mér er sagt, að hann sé hinn efnilegasti maður, enda hefir hann hlotið góðan vitnisburð kennara sinna. Mér er og kunnugt um það, að hann hefir fengizt nokkuð við kennslu og hlotið mikið lof sem kennari. Ágúst er sonur séra Sigurðar heitins í Lundi, sem dó fyrir 2 árum. Var séra Sigurður efnalítill maður, svo að sonur hans mun ekki hafa fjárstyrks að vænta þaðan, og getur það þannig leitt til þess, að hann verði að hætta námi, ef honum er synjað um þessa hjálp. Jafnframt er á það að líta, að ekki er ástæðulaust, að hingað komi maður með fullkomna þekkingu í norðurlandamálunum, því að full þörf mun hér á færum kennara í þessum málum. Þriðja till. mín á þessu þskj., XXXVIII, fer fram á það, að Sigurði Sigurðssyni skáldi frá Arnarholti verði veittar 800 kr. Við 2. umr. flutti ég till. um það, að þessu skáldi væri veittar 1000 kr., en sú till. var felld. Ég gerði þá grein fyrir, á hverju ég byggði þessa till., og skal ég ekki endurtaka það.

Loks flyt ég skrifl. brtt. þess efnis, að Árna Skúlasyni verði veittar 500 kr. til framhaldsnáms í húsgagnasmíði. Var það hv. 1. þm. Árn., sem bað mig um að koma þessari till. á framfæri, og hefi ég fengið frá honum styrkumsókn Árna og ummæli kennara hans, sem hv. þm. geta fengið að sjá hjá mér. Árni lauk sveinsprófi hjá Jóni Halldórssyni árið 1930 með ágætiseinkunn og sigldi síðan til Kaupmannahafnar og hefir hann stundað þar framhaldsnám. Liggja fyrir vottorð frá 2 kennurum hans, sem fara um hann ákaflega lofsamlegum orðum, að hann sé ástundunarsamur, duglegur og efnilegasti smiður og prúður maður á alla lund. Hefir hann nú hug á að fullkomna sig frekar og stunda nám í Svíþjóð og jafnvel Þýzkalandi, en er þetta hinsvegar ókleift nema með styrk, og þar sem full þörf mun á því að fá hingað húsgagnasmið, færan í sinni iðn, og iðnaðarmenn hafa til þessa lítils styrks notið af opinberu fé, er ekki nema sanngjarnt í alla staði, að þessi litli styrkur verði veittur.