29.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (3543)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Hv. flm. taldi það ekki hyggilegt að samþ. brtt. mína fyrir þann, sem annt væri um að fella niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, en ég lít svo á, að stj., sem auðvitað lætur sig miklu skipta mál eins og þetta, sem hefir áhrif á tekjur ríkissjóðsins, hún leggi áherzlu á það, að heldur sé farin sú leið, sem tryggði það, ef hægt væri, að ríkissjóður þyrfti einskis í að missa. Ég tel því þá, sem annars vilja fella útflutningsgjaldið niður, gera réttast í því að greiða brtt. minni atkv.

Hitt kemur mér ekki á óvart, að hv. 4. landsk., sem verið hefir forstjóri ræktunarsjóðs frá því hann var stofnaður árið 1925, þyki sárt að missa framlagið til sjóðsins, en rök þau, er hann færði fyrir sinni skoðun, gat ég hinsvegar ekki fallizt á. Það er að vísu rétt, sem hann tók fram, að þessi fyrirhugaða milljón er trygging fyrir jarðræktarbréfum ræktunarsjóðs, en lög sjóðsins mæla svo fyrir, að gefa megi út jarðræktarbréf, er nemi samtals sexfaldri sjálfseign sjóðsins. Það er álitið nóg, að sjálfseigin sé 1/6 móti jarðræktarbréfunum. En enn er nú ekki búið að gefa út fleiri bréf en það, að hlutfallið er þannig, að jarðræktarbréfin eru aðeins 1/10 hærri en sjálfseignin. Það á því svo langt í land, að þetta skipti nokkru um tryggingu jarðræktarbréfanna, hvort tillagið til ræktunarsjóðs fellur niður eða ekki, að ekki er sjáanlegt, að um það þurfi að hugsa í næstu framtíð.

Í sambandi við það, sem hv. flm. sagði um, að það gæti komið til mála að fresta greiðslunni til ræktunarsjóðs, þá vil ég benda á það, að jafneðlilegt væri, að ákvæðið um að fella niður útflutningsgjaldið væri þá einnig til bráðabirgða. Þetta tvennt, útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum og tillag til ræktunarsjóðs, er sama eðlis, og því eiga ráðstafanir um þessi atriði að haldast í hendur. Ef þær verða gerðar til frambúðar, þá á það að ná til þessara atriða beggja, en ef ráðstafanirnar verða aðeins til bráðabirgða, þá eiga þær að ná jafnt til útflutningsgjaldsins og ræktunarsjóðsins.

Það má ekki ganga framhjá því, að þegar þetta framlag til ræktunarsjóðs var ákveðið, þá var jafnframt ákveðið að afla tekna á sérstakan hátt í því augnamiði. Þess vegna er það eðlilegt, að þessi tvö atriði verði látin fylgjast að, hvort sem ráðstafanirnar verða látnar gilda til bráðabirgða eða frambúðar. En ég er ekki hræddur við það, þó nú verði gerðar breyt. til frambúðar í þessum efnum, því ræktunarsjóður getur sér að meinalausu misst þessar tekjur. En hitt er hvorki rétt né hyggilegt á þessum tímum, að vera að safna fé í sjóð með skatti á lamaðan atvinnuveg til þess að veita sama atvinnuvegi lán.