24.03.1933
Efri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (3552)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég ætla mér ekki að bera brigður á mál hv. 1. þm. Reykv. og 1. landsk. Auðvitað kemur það sér vel fyrir útveginn, að létt verði af honum sköttum. En hinsvegar kemur það ekki til greina, að ríkissjóður verði látinn missa þann tekjustofn, sem þar að auki hefir til langframa ekki svo mikinn kostnað í för með sér fyrir útveginn. Á hinn bóginn er alveg sjálfsagt að fella niður gjaldið af landbúnaðarafurðum, því hér er ekki um réttlátan skatt að ræða, því að þetta háa gjald kemur einungis niður á helmingi bændastéttarinnar, meira að segja þeim hluta hennar, sem erfiðast á um þessar mundir. Allt öðru máli væri hér að gegna, ef missir þessarar tekjulindar gerði ríkissjóði miður kleift að halda uppi strandgæzlu, - en strandvarnarskip eru nú 3. En fjmrh. hefir látið í ljós þá skoðun, að þetta gjald megi missast, og verði þó kleift að halda úti öllum skipunum.