29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (3561)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Jón Jónsson:

Út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. vil ég taka það fram, að ég býst við, að hann hafi rétt fyrir sér um það, að brtt. hans, ef hún er lesin saman við ræktunarsjóðslögin, rýri ekki tekjur ræktunarsjóðs.

Hv. 5. landsk. segir, að ég muni ekki óska eftir því, að ranglætið haldist við. Ég held því aðeins fast fram, að það skipti mjög litlu, hvort þetta útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum verður afnumið eða ekki. Það væri kannske eðlilegt gagnvart hinum atvinnuveginum, að lagt yrði eitthvert lítilsháttar gjald á landbúnaðarafurðir yfirleitt. Það kynni að þykja ósanngjarnt, að þær væru alveg undanþegnar samsvarandi skatti þeim, er sjávarafurðir standa undir. En hvað frv. hv. 5. landsk. viðkemur, þá sé ég ekki, að það skipti miklu, hvort þetta 10 til 15 aur. gjald á hvern dilk verður fellt niður eða ekki, en ef það á að kosta svo stórkostlegan hnekki fyrir ríkissjóð sem brtt. hv. 1. þm. Reykv. gerir ráð fyrir, þá get ég ekki fallizt á neina breyt. á lögunum.