04.05.1933
Efri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2261 í B-deild Alþingistíðinda. (3569)

77. mál, virkjun Sogsins

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég á bágt með að halda, að hv. 2. landsk. trúi því í raun og veru, að nokkur fyrirstaða sé á því í bæjarstj. Rvíkur að snúa sér að Sogsvirkjuninni, ef það er framkvæmanlegt. Hann er þá víst sá eini, sem efast um það. Það er líka alveg rangt hjá hv. þm., að það hafi verið af vantrú á það, að meiri hl. bæjarstj. væri málinu hlynntur, að Sigurður Jónasson vildi hefjast handa um einkavirkjun. Ástæðurnar voru allt aðrar, m. a. sú, að Sigurð Jónasson brast þolinmæði til að bíða eftir ríkisábyrgð, og ef til vill sú, að honum hefir þótt fyrirtækið gróðavænlegt. En vonin um ríkisstyrk brást á þinginu 1931, og það olli því, að hann tók þetta til bragðs. Ég veit, að fyrst og fremst Sigurður Jónasson getur fullvissað hv. 2. landsk. um þetta, ef hann bara spyr hann um það. Þetta mái er þannig vaxið, að það var samþ. 1929 í bæjarstj. að ráðast í Sogsvirkjunina, og það undirbúið og verkið boðið út. Tilboð kom og var borið upp í bæjarstj. í lok ársins 1930, en það var þannig, að ekki þótti aðgengilegt meiri hl. bæjarstj., og það var fellt. En það var ekki af því, að sá meiri hl. í bæjarstj. væri þá orðinn andvígur Sogsvirkjuninni. Hann áleit, að ef hægt væri að fá ríkisábyrgð og tryggja fé til verksins, myndi hægt að komast að betri kjörum en með þeirri aðferð, sem hv. þm. skýrði hér frá í gær, nefnil. að bundið var saman framkvæmd verksins og fjárútvegun til þess. En svo fór það þannig, að þegar leitað var eftir ábyrgð til þingsins, var neitað um hana. Það er líka algerlega ástæðulaust hjá hv. þm., þegar hann gefur það í skyn, að bæjarstj. muni draga framkvæmdina af ásettu ráði, þótt ábyrgðin verði veitt nú, og því muni vera nauðsynlegt að setja ákvæði um það í frv., að ef bæjarstj. hefji ekki framkvæmdirnar innan viss tíma, þá skuli ríkið gera það. Bæjarstj. gerir það, þegar fært er. — Það er ástæðulaust að ræða um þær till., sem hann drap á í ræðu sinni í gær, að hann myndi bera fram hér á síðara stigi þessa máls. Það gefst tækifæri til þess, þegar þær koma fram. En ég get fullvissað hv. þm. um, að það eru alveg sömu ástæður, sem kynnu að geta orðið til þess að hindra framkvæmdir bæjarstj. á komanda sumri, sem myndu hindra það, að ríkisstj. gæti hafizt handa í sumar. En það er nógur tími til að ræða þetta, þegar hv. þm. kemur fram með till. sínar. Ég sé ekki ástæðu til að tala meira um þetta. Það er kunnugt, þegar menn tala um virkjun Elliðaánna, að nú er enginn ágreiningur um það í bæjarstj., að ef mögulegt er skuli virkja Sogið. En ágreiningurinn er um það, hvort fela á einkafyrirtæki þá framkvæmd, að ráða bót á rafmagnsskortinum, eða að ríkisábyrgð fáist og bærinn annist framkvæmdirnar sjálfur, og sé þá tryggilegra að fullvirkja Elliðaárnar heldur en sæta því að kaupa rafmagn dýru verði af einkafyrirtæki. Það var í því sambandi, sem ágreiningurinn varð og Elliðaárnar teknar fram yfir. (JBald: Bæjarstj. hefir öll hafnað því). Já, það er alveg rétt, bæjarstj. er mótfallin því. En ágreiningurinn er um, hvort eigi að ráðast til bráðabirgða í fullvirkjun Elliðaánna, sem í raun og veru, eins og hv. 1. landsk. benti á, mun verða gert seinna, þótt það verði ekki gert á næsta stigi málsins.