20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég gerði áður grein fyrir því, að hækkunartill. fjvn. næmu 322 þús. kr., en á móti því gerir n. till. um 130 þús. kr. hækkun á nokkrum helztu tekjuliðunum, svo að tekjuhallinn hækkar um 190 þús. kr. eftir till. n. Nú standa hinsvegar svo sakir, að fyrir liggja brtt. frá dm. upp á 900 þús. kr. rúmlega, en þar frá má að vísu draga 300 þús. kr., sem fjvn. gerir till. um til atvinnubóta, þar sem þessi upphæð felur í sér annað og hærra framlag í því skyni, svo að hækkunin verður 600 þús. kr., ef allar hækkunartill. hv. þm. verða samþ. Til viðbótar við þetta koma svo ábyrgðarheimildirnar, sem till. hafa komið fram um og nema um 1 millj. kr. Fjvn. lítur svo á, að því miður verði á þessum örðugu tímum að leggja á móti mörgu, sem æskilegt væri að koma í framkvæmd. Nú verður það að sitja fyrir öllu, að gera mönnum fært að lifa skaplega bæði til lands og sjávar. Hitt verður að bíða betri tíma.

Í sambandi við þetta skal ég svo taka það fram, að þrátt fyrir það, þótt ekki verði hækkaðir útgjaldaliðir frá því, sem fjvn. leggur til, þá býst hún þó við, að einn liður í fjárl. hækki talsvert frá því, sem gert hefir verið ráð fyrir, því að frv. það um breyt. á vegal., sem var afgr. í dag frá þessari d. sem l., felur í sér talsvert aukin útgjöld fyrir ríkissjóð vegna viðhalds vega, en það hefir ekki verið venja hingað til að taka inn í fjárl. útgjöld vegna lagabreyt., sem gerðar hafa verið á því þingi. En þótt það sé ekki gert, þá verður vitanlega að haga till. sínum við fjárl. með hliðsjón af því.

Ég skal svo með nokkrum orðum minnast á þær till., sem hér liggja fyrir, en ég skal játa það, að það verður sumt ekki eins ýtarlegt og vera ætti, því að aðalröksemdin móti flestum þessum fjárbeiðnum er sú, að ekki sé hægt að sinna þeim vegna þess, hve þröngt er í búi hjá ríkissjóði. Má segja um margar till., að þær skipti ekki miklu máli hver fyrir sig, en safnast þegar saman kemur. Um sitthvað hefir n. þó óbundin atkv., af því að henni þótti þar orka nokkurs tvímælis.

Það er þá fyrst á þskj. 733 III, 3000 kr. til fjörefnarannsókna. N. viðurkennir, að þetta sé nauðsynlegt, þó skiptar séu skoðanir um það, að það sé svo nauðsynlegt, að sjálfsagt sé að veita styrk til þess nú. N. hefir óbundin atkv. um þennan lið og sömuleiðis um næstu 3 liði, þar sem ræðir um styrki til heilbrigðismála.

Þá er sjúkrastyrkur eins manns, og er n. á móti þeirri till., þar sem d. hefir áður fellt burt slíka styrki til annara sjúklinga.

Þá er lítilsháttar styrkur til Ferðafélags Ísl. N. vill ekki leggjast á móti þessu, en hyggur, að þetta sé eitt af því, sem megi bíða.

Þá er hér stór liður, sem er að mörgu leyti góður og gagnlegur. Það er bygging radióvita á Reykjanesi. Þessi sorglegu slys, sem koma svo oft, gera manni erfitt að vera á móti svona hlutum. Engu að síður er þessi liður svo stór, að n. sér sér ekki fært að mæla með honum, þar sem það er ekki heldur með öllu ljóst, að svona viti hefði t. d. forðað hinu mikla slysi, sem varð nú fyrir skömmu suður hjá Grindavík. Auðvitað verður þessi viti reistur fyrr eða síðar, en vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs sér n. ekki fært að mæla með, að það sé gert að þessu sinni.

Þá er önnur stór till. um framlag til öldubrjóts austur af Siglufjarðareyri. Um þessa till. eru óbundin atkv. Það hagar nokkuð sérstaklega til með þetta, því að eftir þeim gögnum, sem lágu fyrir n., þá er því ekki að neita, að þar er um það að ræða, að vernda mikil verðmæti með þessum varnargarði, m. a. verðmæti, sem tilheyra ríkinu. Svo sem kunnugt er, á ríkið þarna stóra síldarverksmiðju, og er jafnvel í ráði, að það eignist þar aðra til, og bryggjum þeim, sem þarna eru og tilheyra verksmiðjunni, er stórhætta búin, vegna þess að þar er ekkert skjól til varnar gegn sjógangi. Nú fyrir skömmu hefir ríkið orðið að kosta stórfé til að viðhalda þessum bryggjum sínum. Kunnáttumenn telja, að þessi garður mundi verða örugg vörn gegn þessum skemmdum. N. sér því ekki fært að leggja ákveðið á móti þessari fjárveitingu.

Þá er lítill liður til eins safnaðar. N. getur ekki mælt með þessari till. Að vísu er svipuð till. í fjárl. nú, en n. telur mjög varhugavert að ganga lengra á þeirri leið, því að kunnugt er, að ýmsar kirkjur eru mjög illa staddar. Þetta mundi því leiða af sér margar aðrar slíkar beiðnir, og sér n. sér því ekki annað fært en að leggja á móti þessari till.

Þá kemur geysileg runa af námsstyrkjum, bæði á þessu þskj. og einhverjum fleirum. N. talaði ýtarlega um þetta við 2. umr. og sér alls ekki fært að leggja til, að þessir námsstyrkir verði samþ. Vitanlega mælir margt með sumum þessum till., en n. treystir sér ekki til að gera þar upp á milli. D. hefir viðurkennt, að það væri heppileg stefna, sem n. vildi taka upp og getið var um við 2. umr., og hefir n. nú borið fram till. um að hækka heildarliðinn um 8 þús. kr. Vil ég þá láta þess getið um leið, að n. ætlast til þess, að í þetta sinn muni menntamálaráðið sérstaklega taka til greina þá menn, sem komu inn í fjárl. í Nd., og þá menn, sem hafa verið bornir fram hér bæði við 2. umr. og þessa umr. N. ætlast til, að menntamálaráðið láti þessa menn sitja fyrir öðrum nýrri umsóknum. N. vill taka það fram, að hún lítur svo á, að af þessum styrk eigi engu siður að veita til lokanáms heldur en annars náms, sem nauðsynlegt þykir. N. vonast eftir, að með þessari yfirlýsingu, sem vitanlega gildir ekki sem framtíðarákvörðun, heldur aðeins fyrir þetta eina ár, meðan verið er að koma þessari breyt. á, sem n. telur æskilega, svo að ekki sé hlaupið til þingsins með þessar sérstöku styrkbeiðnir, þá sé þessum námsmönnum tryggt, að menntamálaráðið veiti þeim sérstaklega þennan styrk.

Þá er hér beiðni um styrk til handa Iðnsambandinu. Liðurinn um styrk til verklegs náms erlendis var felldur úr við 2. umr., svo að n. sér ekki ástæðu til að samþ. þetta nú og gerir ekki ráð fyrir, að d. hafi snúizt svo hugur, að hún vilji nú taka þennan lið aftur inn í fjárl. N. hefir ekki heldur treyst sér til að mæla með till. um styrk til Landssambandsins.

Þá er hér styrkbeiðni fyrir verzlunarskólann. Það hefir verið svo að undanförnu, að hér hafa verið 2 verzlunarskólar, og hefir styrkur til þeirra verið látinn haldast í hendur til að gera ekki þar upp á milli. Þessi skóli er fyrst og fremst sóttur af mönnum, sem eiga heima í bænum og hafa þannig góða aðstöðu, þar sem þeir geta dvalið heima hjá sér, þegar þeir stunda námið. N. sér ekki fært að þessu sinni að mæla með þessari styrkhækkun til skólans.

Þá er hér utanfararstyrkur til kennara. Þar sem hann hefir verið tekinn út af fjárl., vill n. ekki fara að taka hann upp á ný. Sama er að segja um styrkhækkunina til sundlaugabygginga. N. finnst nú eins og við 2. umr., að eins og fjárhagurinn er nú, sé 5000 kr. sæmilega hár styrkur og leggur því eindregið á móti frekari hækkun.

Þá koma nokkrir smástyrkir, sem talað var um við 2. umr. og n. vill ekki mæla með.

Þá er styrkurinn til Leikfélagsins, sem n. vill ekki mæla með, með því að ekki verður heldur séð, að það hafi nú með höndum nein viðurkennd merkileg stykki á boðstólum, svo að það hvetur ekki til að hækka styrkinn úr því, sem hann er nú.

Þá er styrkbeiðni til konu í Frakklandi, sem n. sér ekki, að ástæða sé til að veita, með því að henni er ekki kunnugt þar um neina sérstaka verðleika.

Þá kemur hin stóra till. hv. 2. landsk. til atvinnubóta. N. getur ekki fallizt á, að nauðsyn beri til að veita svona mikið fé til þess, með því að hún verður að vona, að atvinnuleysi muni heldur minnka en aukast, þar sem nú lítur heldur blómlegar út, a. m. k. að því er sjávarútveginn snertir, og hinsvegar þykist hún hafa gert þar allríflega úrlausn með því að leggja til, að veittar séu 300 þús. kr. í þessu skyni. Hv. þm. leggur það líka til, að bæjar- og sveitarfélög leggi ekki meira fram en jafnmikið og ríkissjóður. Nú er það fyrst og fremst hlutverk sveitar- eða bæjarfélaga að sjá fyrir þessum atvinnuleysingjum, en ríkið á aðeins að styrkja þau til þess. N. getur því ekki fallizt á að lækka framlagið, sem á að koma á móti styrknum úr ríkissjóði. N. þykir rétt að taka það sérstaklega fram, að hún lítur svo á, að stj. geti áskilið, að framlagi ríkissjóðs sé að nokkru eða öllu leyti varið til þeirra framkvæmda, sem ríkið verður að annast á þeim stað, þar sem atvinnubæturnar eru veittar. Það virðist sjálfsagt að haga vinnunni þannig, að fyrir utan það, að hún er veitt sem atvinnubót, þá hafi ríkið eitthvert gagn af því, sem framkvæmt er.

Þá er hér till. um styrk til Skógræktarfélags Ísl. N. er nokkuð skipt um þetta, svo að um till. eru óbundin atkv. Það væri æskilegt, að stj. tæki þessi skógræktarmál til frekari athugunar fyrir næsta þing til að koma betra skipulagi á þetta. Nú hefir skógræktarfélagið ráðið til sín mann, sem er mjög efnilegur og hefir lagt mikla stund á þessa grein. Þess vegna er illt að geta ekki notað krafta hans betur en horfur eru á nú.

XXXIV. till. er um styrk til náms í vatnalíffræði. Því verður ekki neitað, að það væri gott og blessað að fá mann, sem væri sérfræðingur í þessari grein. N. leggur ekki mikla áherzlu á þennan lið, en meiri hl. er á móti honum.

Þá er farið hér fram á styrk handa Pétri Sigurðssyni. Um þetta hefir n. óbundin atkv., og sama er að segja um styrkinn til sjúkrasjóðsins á Hellissandi og sömuleiðis um eftirlaunin til einnar prestsekkju, sem till. er um á þessu sama þskj.

Þá er till. um einskonar eftirlaun til Sigurðar Sigurðssonar skálds. N. hefir óbundin atkv. um þennan lið. Þessi styrkur mætti þá helzt skoðast sem verðlaun fyrir hans mikla starf að björgunarmálunum hér á landi.

Þá er hér á sama þskj. heimildarákvæði fyrir stj. að kaupa hús fyrir póst og síma á Blönduósi. Um þetta hefir n. óbundin atkv.

Þá leggur hv. 2. landsk. til að veita stj. heimild til að leggja fram úr ríkissjóði allt að 10 þús. kr. til útgáfu kennslubóka. N. var ekki kunnugt um, að sérstakur skortur væri á kennslubókum, og telur því, að þetta megi bíða og leggur því á móti till. eins og nú standa sakir.

Þá er lagt til að greiða Jóni Guðmundssyni, eiganda gistihússins Valhallar, þær 5 þús. kr., sem heimilað er í fjárl. 1933, 22. gr., að greiða honum af fé því, sem inn kemur vegna alþ.hátíðarinnar. Um þetta eru óbundin atkv., og líta menn allmisjafnt á þetta. Sumir líta svo á, að Jón Guðmundsson hafi haft hagnað af hátíðinni og þess vegna ekki bein ástæða til að samþ. þessa till.

Þá er hér till. um að veita Jóni Þorleifssyni málara allt að 10 þús. kr. lán til að koma sér upp vinnustofu. Um þetta hefir n. óbundin atkv.

Þá er hér næst till. um lækkun á framlagi eða styrk til hleðslustöðva fyrir útvarpsnotendur, sem ég held, að sé næstum eina sparnaðartill. á þessu þskj. Meiri hl. n. mælir með, að hún verði samþ.

N. mælir með till. um ábyrgð á láni fyrir Vestmannaeyjakaupstað til að stækka þar raforkuveituna.

Þá er hér till. um ábyrgð fyrir allt að 300 þús. kr. láni fyrir þjóðleikhúsið. N. sér ekki fært að mæla með, að slík till. verði samþ. nú, og má gera ráð fyrir, að svo kunni að fara, þó að hagnaður eigi að verða mikill af þessu, þá verði hann nú ekki mikill eins og sakir standa nú á tímum.

Þá er hér till. um ábyrgð fyrir láni til byggingar á öldubrjót á Siglufirði. N. gerir ráð fyrir, að afstaða til þessarar till. fari eftir því, hvernig menn snúast við till. um ríkisstyrk til þessara framkvæmda, sem ég minntist á áðan.

Þá er ábyrgð á láni til að reka tunnuverksmiðju Siglufjarðar. Þessari verksmiðju var í fyrra veittur styrkur upp í stofnkostnað. N. sér ekki fært að mæla með, að ríkið taki neina ábyrgð á slíkum rekstri, þar sem það hefir enga íhlutun um það. N. veit ekki heldur, hversu trúlega er um þetta séð og leggur því á móti till.

Þá eru brtt. á þskj. 746, og er þar fyrst till. um styrk til læknishéraðs. N. kemur ekki á óvart, þó að svona till. komi fram, eftir því sem fram kom við 2. umr. Þá voru slíkar till. felldar, og vonar n., að d. sé þar sama sinnis um og leggur á móti till. N. sér ekkert frekari ástæðu til að veita þennan styrk, þó að hv. 2. þm. Árn. lýsti því greinilega, að einhver kjarakaup hefði verið gerð á þessu húsi, sem ríkið átti þarna.

Þá er á sama þskj. smátill. frá hv. 2. þm. S.-M., um 1000 kr. framlag til bryggjugerða. N. hefir fengið upplýsingar um, að mikil þörf sé fyrir að fá bryggju í þessu kauptúni, sem hér er um að ræða, og hefir því óbundin atkv. um þessa till.

Þá er till. um einn námsstyrk, og er um hann það sama að segja og aðra námsstyrki.

Þá er hér till. frá hv. 2. landsk., að veita 1500 kr. styrk til útgáfu íslenzk-þýzkrar orðabókar. Meiri hl. n. er á móti þessari till., en ég er dálítið hikandi við það, því að leitt er, ef nauðsynjaverk, sem byrjað er á, þarf að eyðileggjast vegna fjárskorts.

Þá er hér till. um heimild til að styrkja bændur vegna óviðunandi verðlags á afurðum þeirra. Ég hefi áður minnzt á þessa till. og hefir n. óbundin atkv. um hana.

Þá er á þskj. 751 stór till. frá hv. 1. þm. Reykv., sem gerir sér mjög annt um námsstyrki. Það sýnist helzt, að honum þyki aldrei nóg borið þar i. Fyrst leggur hann til, að styrkurinn verði hækkaður úr 16000 upp í 20000, eða gera meira en að tvöfalda þann styrk, sem nú er í fjárl. En honum þykir það ekki nóg, hann vili fastbinda þennan styrk við vissa menn, þá, sem fellt var við 2. umr. að styrkja. Ég vona, að hv. þdm. sjái, að það er ekkert samræmi í því að samþ. þessa till. nú, þar sem hún felldi styrk til þessara manna við 2. umr. Því að hvaða munur er á því að veita hverjum þessara manna styrk út af fyrir sig, eða hækka heildarstyrkinn og binda hann svo við þessa menn? N. leggur á móti till. Hún þykist líka hafa gert úrlausn, þar sem hún hefir lagt til, að þessi styrkur verði tvöfaldaður og hefir gert grein fyrir, hvernig hún vill, að honum sé úthlutað.

Þá er styrkurinn til Veiði- og loðdýrafélagsins. Svo er ætlazt til, að Búnaðarfél. hafi þau mál með höndum og leggur því fjvn. á móti brtt.

Ég býst nú við, að sumum hv. þdm. þyki þetta kaldar kveðjur frá fjvn. En á slíkum tímum sem þessum verður að láta fleira ógert en gott þykir. Þótt brtt. séu flestar lágar, verður heildarupphæðin mikil.