04.05.1933
Efri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (3575)

77. mál, virkjun Sogsins

Jón Baldvinsson:

Ég ætla aðeins að leiðrétta lítilsháttar missögn, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. S.-M. Hann játaði, að það væri rétt, sem ég hafði sagt, að samskonar rafmagnsfyrirtæki og það, sem hér er um að ræða, bæru sig vel og gætu jafnvel verið arðvænleg, en hann bætti við þeirri eftirsetningu, ef skynsamlega væri til þeirra stofnað og af fullri varúð. Þetta vita náttúrlega allir. Enda hefir ekkert komið fram í þeim kostnaðaráætlunum eða framkvæmdaplönum, sem gerð hafa verið um virkjun Sogsins, er bendir til annars en að til þess fyrirtækis verði stofnað á skynsamlegum og traustum grundvelli. En það atriði í ræðu hans, sem ég vildi leiðrétta, mun stafa af því, að hann hefir misskilið það, sem ég sagði. Ég sagði ekki, að einstök iðnaðarfyrirtæki hér í bænum hefðu reist hér sérstakar rafmagnsstöðvar til iðnrekstrar af því, að þeim hefði þótt rafmagnið of dýrt frá rafmagnsveitu Rvíkur, heldur af hinu, að þau gátu ekki fengið þaðan rafmagn. Rafmagnsstöðin við Elliðaárnar framleiðir ekki nóg rafmagn til iðnrekstrar í hænum. Hitt játa ég líka, að það er of dýrt að framleiða rafmagn hér við Elliðaárnar til iðnrekstrar í stærri stíl. Þess vegna er það samhljóða álit allra, sem til þekkja, að Rvíkurbær þurfi að fá ódýrara rafmagn frá stærri stöð, og það er hægt með því að virkja Sogið.

Það er mesti misskilningur, að þessi smáfyrirtæki hér í bænum hafi ódýrara rafmagn á þann hátt að framleiða það sjálf með mótorvélum; því fylgir meiri kostnaður heldur en ef þau gætu fengið rafmagnið frá raforkuveitu bæjarins. En þau eiga bara ekki kost á að fá það. Það er svo sem ekki af því, að þau vilji það ekki, t. d. sænska frystihúsið og aðrar slíkar stofnanir. Þess vegna getur hv. 2. þm. S.-M. ekki notað þetta dæmi til stuðnings því, að hið fyrirhugaða raforkufyrirtæki geti verið varhugavert. Það hefir ekki við rök að styðjast, og hann getur ekki dregið neitt út úr minni ræðu, er bendi í þá átt.

Hitt játa auðvitað allir, að rafveitustöð Rvíkur við Elliðaárnar var afardýr, enda var byrjað á að reisa hana þegar allt var í toppverði hér á landi, um 1920—21, og þær viðbætur, sem gerðar voru skömmu síðar, voru líka reistar á dýrum tíma, þegar efni og vinna var í háu verði. Og þrátt fyrir þetta er rafmagnið frá Elliðaárstöðinni til muna ódýrara en unnt er að selja það frá þeim stöðvum, sem knúðar eru með vélum, eins og tíðkast víða í kaupstöðum og sjávarþorpum úti um land, svo sem í Hafnarfirði, á Eyrarbakka og ef til vill Norðfirði. Það rafmagn, sem framleitt er með mótorvélum, er alstaðar dýrara heldur en það rafmagn, sem framleitt er við Elliðaárstöðina, þó að dýr sé. Með virkjun vatnsfalls má viðast hvar fá ódýrara rafmagn heldur en mögulegt er að framleiða með vélaafli. Það verður að knýja Framsfl. til þess að fylgja þessu máli fram, af því að hann ásamt Sjálfstfl. ber ábyrgð á stj. Það veltur á miklu um framtíð og afkomu íbúa höfuðstaðarins, hvernig þessu máli farnast. Það verður bezt búið í haginn fyrir Reykvíkinga með því að auka atvinnumöguleikana, og það er gert, ef Sogsvirkjunin kemst í framkvæmd.

Ég ætla, að það hafi verið hv. 5. landsk., sem sagði, að það væri ekki hægt að fá peninga til þess að virkja Sogið, nema með ríkisábyrgð, og það er sennilega rétt. En ástæðan til þess er ekki sú, að erlendir fjármálamenn hafi ótrú á þessu fyrirtæki, heldur sú, að þeir vilja tryggja sér það, að íslenzka stj. og löggjafarvaldið íþyngi ekki þessu fyrirtæki með ýmiskonar kvöðum. Og er hér um sömu ástæður að ræða og þegar erlendir fjármálamenn eru fúsastir að lána fé sitt til fyrirtækja gegn því að fá sérleyfi til rekstrar þeirra um tiltekið tímabil. Því þá er jafnan um það samið fyrir fram við hlutaðeigandi stjórnarvöld, hverskonar kvaðir hið opinbera leggur á fyrirtækið. Þess vegna krefjast þeir ríkisábyrgðar til tryggingar því, að ríkið leggi ekki ósanngjarnar kvaðir á fyrirtækið, en ekki af ótta við, að það sé ekki reist á heilbrigðum og öruggum grundvelli.