04.05.1933
Efri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (3579)

77. mál, virkjun Sogsins

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég stend aðeins upp til þess að leiðrétta merkilega meðferð á sögulegum staðreyndum, sem kom fram í ræðu hv. 5. landsk. Hann segir, að hv. 1. landsk. hafi gerzt borgarstjóri í Rvík til þess að hindra það, að virkjun Sogsins kæmist í framkvæmd. Hann taldi þær ástæður fyrir þessu, að um þær mundir, sem borgarstjórakosning átti að fara hér fram í vetur, þá hefði verið samkomulag milli nokkurs hluta Sjálfstfl., jafnaðarmanna og framsóknarmanna í bæjarstj. um að koma þessu máli í framkvæmd, og sagði, að virkjunin hefði verið drifin áfram, ef hv. 1. landsk. hefði ekki orðið borgarstjóri. Sannleikurinn í þessu máli er nú sá, að afdrif málsins fóru ekkert eftir því, hver varð borgarstjóri. Sú till., sem fyrir lá í bæjarstj. um virkjun Sogsins, var felld með öllum greiddum atkv. Hv. 1. landsk. átti ekki atkvæðisrétt og kom því ekki til hans kasta að fella málið eða drífa það í gegn. Ef maður á að draga nokkra ályktun af þessari frásögn hv. 5. landsk., verður helzt að gera ráð fyrir því, að hann hafi litið svo á, að ef hv. 1. landsk. hefði ekki orðið borgarstjóri í árslokin, myndi hafa tekizt að koma fram þessari fyrirætlun h/f Sogsvirkjunar, þó að það færi svo við það, að hv. 1. landsk. varð borgarstjóri, að það væri fellt. Þá verður maður að álíta, við nánari athugun, að jafnaðarmenn, sem ég hygg, að séu rangar getsakir í þeirra garð, og a. m. k. flokksmenn hv. 5. landsk. hafi ætlað sér að greiða atkv., undir gefnum forsendum, gegn betri vitund, en hafi ekki þorað að standa við það, þegar á hólminn kom, og greitt atkv. á móti till. Hv. þm. talaði um flottræfilshátt í sambandi við þetta mál. Hann kallar það flottræfilshátt að vilja byggja fullkomna rafmagnsstöð, sem geti orðið til frambúðar fyrir bæjarfélagið og bæjarfélagið geti haft hag af, en vill lúta að því, að byggja bráðabirgðastöð, sem er til hagsmuna fyrir einkafyrirtæki. Ég vil spyrja, hvort hann telji það flottræfilshátt, ef hann ætlaði að kaupa sér bíl, sem vel er hugsanlegt, og hann keypti heldur bifreið, sem hann vissi um fyrirfram, að entist um sæmilega langan tíma, en bifreið, sem hann vissi fyrirfram, að entist ekki nema skamman tíma og yrði síðan ónýt. Þó að sú bifreið kostaði hann minna í upphafi, yrði hún honum margfalt dýrari. Það liggur í því, að hann þyrfti að kaupa aðra bifreið strax á eftir. Að tala um flottræfilshátt í þessu sambandi er því ekki annað en heimska ein.