08.05.1933
Efri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (3594)

77. mál, virkjun Sogsins

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Það er ánægjulegt að heyra það, að hv. 2. þm. Arn. lýsir yfir fylgi sínu við þetta mál, og sízt skal ég verða til þess að vekja nokkrar ýfingar út af því, sem á undan er gengið, þegar málinu er þannig komið sem nú er.

Hv. þm. gerði að umtalsefni hnútur, sem farið hefðu milli mín og hv. 2. landsk. út af þessu máli. Ég vil taka það fram, að ég tek ekki neitt til mín af þeim ummælum hv. þm., hvað sem kann að eiga við um hv. 2. landsk. Ég held, að ég geti sagt hv. 2. þm. Árn., að það er enginn ágreiningur milli mín og hv. 2. landsk. um þetta mál. Hitt er ekki nema mannlegt, þó brydda kunni á því, að hvor um sig kunni að vilja eigna sér og sínu fólki heiðurinn af framgangi þessa máls. En það kalla ég ekki hnippingar, og það er ekki sprottið af neinum ágreiningi.

Hv. 2. þm. Árn. gerði ráð fyrir því, að heppilegra kynni að vera að setja eitthvað af efni til virkjunarinnar upp á Eyrarbakka heldur en í Rvík. Það getur vel verið, að eitthvað kunni að vera til í þessu. Annars skal ég taka það fram, að ákvæðin um vegabætur, sbr. 3. gr., eru upphaflega miðuð við það að gera mögulegt að koma þyngstu stykkjunum að orkuverinu. Þessi stykki eru svo þung, að gert er ráð fyrir, að þær brýr, sem eru á núv. vegum, séu ekki nægilega styrkar til þess að þola þann flutning, og eru þessar vegabætur hugsaðar til þess að styrkja þessar brýr. Mér finnst nokkuð hæpið, að hægt sé að gera ráð fyrir því, að þessum þyngstu stykkjum verði skipað í land á Eyrarbakka með þeim tækjum, sem þar eru fyrir hendi, en auðvitað ætla ég mér ekki að leggja neinn dóm á það, og verður það vitanlega á valdi verkfræðinganna að ákveða það.

Það hefir ekki verið minnzt á brtt. 571, frá hv. 2. þm. Eyf. og hv. 2. þm. S.-M., af neinum, hvorki hv. flm. eða öðrum, og geri ég það því ótilkvaddur, ef svo mætti segja, en brtt. þessi er á þá leið, að ábyrgðarheimild ríkisins sé færð niður úr allt að 7 millj. kr. í allt að 4 millj. kr. Ég vil vekja athygli hv. flm. á því, að úr því felld var hér við 2. umr. till. um að miða lögin við þarfir Rvíkur einnar, og úr því að 6. og 7. gr. frv. standa enn óbreyttar, þá er burt fallin sérhver ástæða fyrir því að færa ábyrgðarheimildina niður eða takmarka þá upphæð, sem ríkissjóði er heimilt að ábyrgjast í fyrirtækinu, vegna þess, að eftir 6. og 7. gr. er ríkissjóði skylt að ábyrgjast fyrir Rvík það, sem til virkjunarinnar þarf, þangað til fallvatnið er að hálfu leyti virkjað, en eftir það á ríkissjóður ekki aðeins að ábyrgjast það, sem til virkjunarinnar þarf, heldur á hann þá einnig að leggja fé til hennar að nokkru leyti, þar til hún er fullgerð. Þannig er ríkissjóður skyldugur að ábyrgjast fyrir Rvík kostnaðinn við fyrra helming verksins, en úr því er ríkissjóður hliðstæður aðili í fyrirtækinu. Þegar svo er um búið, sýnist alveg meiningarlaust að vera að binda hendur ríkisstj. um það, hvort byrjunarábyrgð á fyrirtækinu skuli vera há eða lág, því það gæti orðið til tjóns fyrir alla aðila. Það er áreiðanlegt, að sú leið verður valin, sem að fenginni rannsókn verður talin heppilegust, miðað við nútíðarþörf og framtíðarnotkun á aflinu. Nú hefir annar þessara hv. flm. flutt brtt. um það, að byrja skuli frekar á Neðra-Soginu, sem er stærra fallvatn heldur en Efra-Sogið og því dýrari virkjun. Ég álít ekki rétt að binda hendur stj. um það, hvor staðurinn verði heldur tekinn, en ég vil vekja athygli á því, að ef Neðra-Sogið verður samþ., þá er þar með ríkissjóður bundinn við stærra fyrirtækið. Ef ákveðin er niðurfærsla á byrjunarupphæðinni, þá mun það frekar verða til þess, að tekið verði minna fallvatnið til virkjunar. Það segir sig nokkurnveginn sjálft, að á hverju stigi þarf minni upphæð, því smærra sem fyrirtækið er. Nú skilst mér eftir brtt. hv. 2. þm. S.-M., að hann kjósi frekar, að tekið verði stærra fallvatnið, en þá finnst mér, að hann ætti ekki samtímis að koma með aðra till. um að minnka byrjunarupphæðina. Það getur vel verið, að réttara sé að ráðast í að virkja stærra fallvatnið, en ef að því á að vinna, þá álít ég vera óráð að byrja á því að minnka ábyrgðarheimildina.