29.05.1933
Neðri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2294 í B-deild Alþingistíðinda. (3607)

77. mál, virkjun Sogsins

Halldór Stefánsson:

Um þetta mál höfum við afgr. sameiginlegt nál., vegna þess að við erum sammála um eitt atriði, og það er það, að það sé nauðsyn fyrir Rvík að virkja Sogið fyrr heldur en seinna.

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara og er sá nefndarmaðurinn, sem getið er um, að vilji leysa málið á annan hátt, sem sjá má á frv. því, sem ég flyt á þskj. 824.

Fyrirvari minn gildir það, að ég tel réttara að leysa raforkuþörf Rvíkur og annara héraða með sameiginlegum ráðstöfunum, en ekki einstaklegum ráðstöfunum fyrir hvert hérað. Og það er einmitt það, sem í till. mínum í frv. felst.

Ég get ekki komizt hjá því að minnast nokkuð á efni frv. míns um leið og ég geri grein fyrir afstöðu minni til frv., sem fyrir liggur. Vona ég að hæstv. forseti leyfi það.

Eins og ég sagði áðan, þá hefi ég hugsað mér, að raforkumál þeirra, sem hafa skilyrði og brýna þörf fyrir raforku meira en nú hafa þeir, séu leyst með sameiginlegum ráðstöfunum. Það, sem ég legg til, að verði gert, er, að stofnaður sé sérstakur rafveitulánasjóður, og leggi ríkið honum til nokkurt stofnfé. Sjóðurinn geti svo aukizt smátt og smátt fyrir ýms tillög, sem honum eru ætluð. Rafveitulánasjóður taki lán með ríkisábyrgð, og veiti svo aftur lán þeim, sem óska, til framkvæmda í þessu efni, og hafa skilyrði til þess. Með þessu fyrirkomulagi væri veittur jafn styrkur og aðstoð öllum þeim, sem aðstöðu og skilyrði hafa til slíkra framkvæmda sem þessara. Hugmyndin um fyrirkomulag þessa sjóðs fer mjög nærri þeirri hugmynd, sem liggur að baki veðdeildum bankanna. Hún virðist geta átt alveg eins við um rafveituframkvæmdir eins og um framkvæmdir til byggingar húsa, því að þetta eiga og þurfa að vera fyrirtæki, sem bera sig, engu síður en húsin, sem reist eru. Það er mín hugmynd, að þessi sjóður geti eflzt að fé með tillögum frá þeim, sem lán fá úr sjóðnum, á sama hátt og þeir, sem taka lán hjá veðdeildum bankanna, leggja til varasjóðs, og þessi sjóður gæti svo, þegar tímar líða, orðið þess megnugur að styrkja þau raforkufyrirtæki, sem erfiðari eiga aðstöðu til þess að bera sig, svo sem eins og raforkufyrirtæki úti um sveitir landsins.

Það má telja það vafasamt, að það sé nokkur þörf á því, að þetta mál nái fram að ganga nú á þessu þingi, og skal ég aðeins benda á það, að hér í Rvík er ekki búið að ná samkomulagi um það, hvar og hvernig eigi að virkja Sogið.

Þessi atriði er verið að rannsaka nú í sumar, og ég hefi séð þess getið hér í bæjarblöðunum, að þeirri rannsókn muni ekki verða lokið fyrr en undir næstu áramót. Og þar sem þingið á nú að koma saman alllöngu áður en gæti orðið hafizt handa með verkið, þá sé ég ekki þörf á, að frv. nái fram að ganga að þessu sinni.

Ef frv. eins og það nú liggur fyrir ætti að ná samþykki þingsins, þá hefi ég nokkrar sérstakar aths. að gera við það. Verði það afgr. hér við þessa umr., má vera, að ég heri fram við 3. umr. brtt. um þau atriði.

Hv. frsm. n. taldi það nauðsyn, að málið næði fram að ganga á þessu þingi, til þess að undirbúningsframkvæmdir á því þyrftu ekki að tefjast. Ég hefi nú áður vikið nokkuð að þessu atriði. Það gæti ekki verið um aðra nauðsyn að ræða fyrir því, að málið verði afgr. nú heldur en hina fyrirhuguðu vegagerð að virkjunarstaðnum.

Það er nú fyrst og fremst ekki útkljáð mál enn, hvar Sogið verði virkjað, og í öðru lagi hefi ég heyrt mismunandi álit manna um það, hvar vegurinn skuli lagður, þó að virkjað verði Efra-Sogið. Sumir telja, að það eigi að leggja veginn af Þingvallaveginum austan Þingvallavatns þangað suður, en aðrir telja, að hægt sé að fara styttri leið og leggja veginn út af Hellisheiðarveginum sem styzta leið til virkjunarstaðarins. Ég er ekki kunnugur þessu atriði sjálfur og get því ekki dæmt um það af neinni þekkingu. En þeir, sem því eru kunnugir, eru ekki á sama máli. Hinsvegar mætti e. t. v. byrja eitthvað á þessari vegagerð, þó að ekki sé fullvíst, hvar Sogið verður virkjað, en henni verður ekki lokið fyrr en búið er að ákveða, hvar það verður virkjað.

Þessi vegagerð væri náttúrlega góð til atvinnubóta, ef þeirra væri þörf nú um hásumarið, en ég vil telja líklegt, að það verði engu rýrari atvinna á þessu sumri heldur en venjulega hefir verið. Það er áformað að halda uppi allverulegum framkvæmdum, sem veitt er fé til í fjárl., og auk þess mun allmikið verða unnið að vega- og brúargerðum fyrir lánsfé, svo að ég get vel hugsað, að engu verra sé að eiga þessar atvinnubætur til góða þangað til frekari nauðsyn krefði.

Hv. frsm. nefndi til stuðnings því, að frv. næði fram að ganga, að nú væri sérstaklega góð aðstaða til lántöku. Ég heyri þetta nú í fyrsta sinn, því að hingað til hefir verið sagt, að ekki væri hægt að fá lán erlendis, og m. a. minnist ég þess, að hæstv. forsrh. gat þess út af því, þegar verið var að tala um að taka lán til að borga með enska lánið frá 1921. A. m. k. þegar hann var erlendis síðast, voru engin skilyrði til þess. Það má vel vera, að þetta sé breytt nú; ég ætla ekki að bera á móti því, sem hv. þm. sagði um það efni.

Ég hefi þá í stuttu máli gert grein fyrir minni afstöðu til þessa máls og rætt um þær helztu aths., sem ég geri við einstök atriði frv., og vil ég að lokum aðeins endurtaka það álit mitt, sem ég byggi afstöðu mína á, að það sé engin nauðsyn að afgr. málið á þessu þingi, það þurfi ekki að verða neitt til þess að tefja framkvæmd þessarar fyrirhuguðu Sogsvirkjunar, og í öðru lagi tel ég, að það megi koma miklu betur og eðlilegar fyrir þeim stuðningi, sem ríkið er megnugt að veita í þessu skyni, þannig að það komi að jafnari notum þeim, sem skilyrði hafa til slíkra framkvæmda og til þeirra hugsa.