29.05.1933
Neðri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (3608)

77. mál, virkjun Sogsins

Frsm. (Ólafur Thors):

Það eru aðeins örfá orð í sambandi við ræðu hv. 1. þm. N.-M. Ég get a. m. k. ekki að svo stöddu aðhyllzt þær leiðir, sem hann leggur til, að farnar verði í þessu máli, en ég sé heldur ekki ástæðu til þess að fara langt út í það mál. Það getur verið, að þær leiðir, sem hv. þm. bendir á, séu heppilegar í framtíðinni, en þetta mál þolir enga bið, og þess vegna er ekki hægt að hafa gott af þeim ráðum, sem hann stingur upp á í sínu frv. að því er afgreiðslu þessa máls snertir.

Af þeim einstökum atriðum, sem hv. þm. gat um, veitti ég því sérstaklega athygli, að hann taldi, að það væri óráðið, hvar ætti að leggja veginn. Ég hefi alla mína vizku í þessu efni úr borgarstjóranum í Rvík, sem taldi það víst, að vegurinn mundi verða lagður meðfram Þingvallavatni, og svo sagði hann einnig, að ef frv. yrði samþ., mundi þegar verða hafizt handa um framkvæmdir á þessu sumri.

Um það, hvort þörf er á þessu vegna atvinnuleysis, skal ég ekki fjölyrða, en ég hefi, eins og margir aðrir, borið kvíðboga fyrir því, að atvinnan yrði ekki mikil í sumar, og ég held, að það væri ástæða til þess að fagna hverjum þeim ráðstöfunum, sem gætu orðið til þess að auka atvinnu fólksins. En auk þess vil ég leggja áherzlu á það, sem ég áður sagði, að þó að menn leggi ekki mikið upp úr atvinnubótum á þessu sumri, þá er það fyrirsjáanlegt, að verði þetta ekki afgr. fyrr en á næsta þingi, verður of lítill tími til þess að undirbúa framkvæmdverksins, svo að það geti orðið framkvæmt á næsta sumri.

Um það, að lánskjörin mundu vera heppileg eins og stæði, vísa ég til þess, sem ég sagði áðan. Hv. síðasti ræðumaður sagði, að sér væri ekki kunnugt um þessi góðu lánskjör. En ég styðst við þá staðreynd, að Eimskipafélagið tók 60 þús. £ lán, en mér er ekki heimilt að upplýsa, með hvaða kjörum það var, en svo mikið get ég sagt, að þau voru óvenju góð. Það gefur mér tilefni til að halda, að Rvíkurbær geti náð hagkvæmum kjörum, þegar ríkisábyrgð stendur að baki. Lánveitandi Eimskipafélagsins er vátryggingafélag í Englandi, sem heitir Royal Exchange.

Þó að ekki sé annað en þessi góði peningamarkaður erlendis, er það eitt nægilegt til þess að hvetja þingið til að hraða afgreiðslu þessa máls, og þegar svo bætast við önnur rök, þá vænti ég þess, að hv. deild geti fallizt á, að málið verði afgr. nú á þessu þingi.