29.05.1933
Neðri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (3610)

77. mál, virkjun Sogsins

Halldór Stefánsson:

Ég ætla ekki að hefja neinar deilur um þetta mál, en vil þó drepa á einstök atriði í ræðu hv. frsm.

Það er þá fyrst um vegina. Ég efa eigi, að hv. frsm. fari rétt með, hvert álit borgarstjórans sé um þetta, enda hefir svo verið lengi áætlað, að vegurinn eigi að liggja þar, sem hann gat um. En ég hefi þó heyrt aðra halda fram annari leið, sem sé styttri og heppilegri, en það er að taka veginn út af Hellisheiðarveginum. Ef það er rétt, sem mér hefir verið tjáð um þessa leið, þá getur verið mjög mikið álitamál, hvor leiðin er heppilegri. Syðri leiðin hefir þann kost að vera meira lögð um byggðir. Hin leiðin er styttri og hagkvæm fyrir samgöngur í efri hluta Árnessýslu, þar sem hún styttir leiðina þangað um ca. 30 km.

Ég get sagt hið sama og hv. frsm., að ég fagna öllu því, sem stefnir að atvinnubótum, bæði á þessu sumri og endranær.

En til þess að ekki verði minna um vinnu á næstu árum, verður að halda áfram með samskonar ráðstafanir og ekki minni en nú hafa verið gerðar vegna þessa sumars. Hefir það verið gert nú á ýmsan hátt, með vegagerðum eftir fjárl., svo sem venja er, en líka með lántökum til samgöngubóta. Ég er hræddur um, að vöntun kunni að verða á sambærilegum ráðstöfunum til atvinnubóta á næstu árum. Að nú sé völ óvenjulega hagstæðra lánskjara, vil ég á engan hátt vefengja. En þá vil ég leyfa mér að vekja athygli hæstv. ríkisstj. á því, ef peningamarkaðurinn er orðinn svona hagstæður til lántöku, að hún leiti þá fyrir sér um hagstæð lán til að greiða eldri og óhagstæðari lán, svo sem er um lánið frá 1921.