29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (3622)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Jónas Jónsson:

Ég ætla að nota mér það leyfi, sem hæstv. forseti hefir gefið til þess að tala um þingsköp.

Hæstv. forseti verður að skilja það og viðurkenna, að hann verður að hafa fasta reglu um það, að heimta grg. af þm., ef þeir greiða ekki atkv. Það verður ekki þolað, að hann heimti það af sumum, en ekki öllum. Við verðum að heimta af honum jafnrétti, og þó það sé leiðinlegt fyrir mig, sem lengi hefi starfað með honum sem samflokksmanni, og það með góðri samvinnu, þá verður ekki hjá því komizt að segja honum þetta, úr því hann finnur það ekki sjálfur, að hann verður að vera réttlátur í kröfum sínum. En það hefir komið fyrir í vetur oft, að hæstv. forseti hefir sýnt hlutdrægni með því að líða það átölulaust, að hv. sjálfstæðismenn greiddu ekki atkv. við nafnakall án þess að tilgreina ástæður. Og í þetta sinn tilgreindi ég ekki ástæðu fyrir því, að ég greiddi ekki atkv., til þess að vita, hvort ástæður yrðu heimtaðar af mér fremur en öðrum.