29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (3625)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Pétur Magnússon:

Það má segja, að ég hafi gefið tilefni til þeirrar deilu, sem hér hefir risið út af þingsköpum, þar eð ég var sá fyrsti, sem ekki greiddi atkv.

Úr því farið er að gera þetta veður út af atkvgr., þá vildi ég sýna fram á, að ég hafði fullgilda ástæðu til þess að greiða ekki atkv. um brtt. Ég hafði sýnt það bæði við 1. og 2. umr. þessa máls, að ég var á móti málinu í heild sinni; ég gat því ekki greitt atkv. með brtt., og heldur ekki á móti, þar sem ég áleit, að réttast væri, að hún næði fram að ganga, ef frv. yrði samþ. á annað borð. Ég skal játa það, að ég hefði átt að gera grein fyrir þessu í upphafi, en mér fannst málið svo lítilfjörlegt, að ekki tæki því að fara að tilgreina ástæðu, þótt ég greiddi ekki atkv.