17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (3636)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Lárus Helgason:

Þetta frv. mun vera eitt af þeim, sem eiga að miða að því að styrkja landbúnaðinn. En ég verð að segja það, að mér finnst, að hér sé um svo lítið að ræða, að tæplega sé gerlegt að togast mikið á um það. Við vitum, að oft getur verið um það að ræða, að annað árið gangi betur fyrir sjávarútveginum, en hitt árið kannske betur fyrir landbúnaðinum.

Ég álít, að það eigi ekki að vera nein togstreita á milli þeirra, sem stunda sjávarútveg, og hinna, sem stunda landbúnað. Því er það, að ég tel, að rétt væri að athuga þetta mál betur, og vil þess vegna óska þess, að það verði tekið af dagskrá. (Dómsmrh.: Það er rétt).

Ef gengið verður inn á þá braut að afnema útflutningsgjald af afurðum atvinnuveganna, þá býst ég við, að því yrði haldið áfram. Og þá held ég, að réttara væri að athuga málið vel, áður en gengið er inn á þá braut, þó sú stefna eigi fullan rétt á sér, en ástæður ríkissjóðs verða að sýna möguleika til þessa.