17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (3640)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Úr því að óskir hafa komið fram um að taka þetta mál af dagskrá, til þess að athuga það betur, vil ég ekki fyrir mitt leyti standa að móti því, að svo verði gert. Annars get ég ekki séð, að þetta mál sé svo margbrotið, að það þurfi að bíða með afgreiðslu þess, til þess að athuga það betur. Ég álít, að menn geti nokkurnveginn ráðið það við sig nú þegar, hvort þeir vilja ljá því lið eða ekki.

Hv. frsm. minni hl. var að tala um, að þetta væri ekki stórt fjárhagsmál, sízt fyrir bændur, sagði hann, en ef ætti að taka það upp sem sanngirnismál, þá gæti það orðið stórt fjárhagsmál fyrir ríkissjóð, því að sjávarútvegsmenn mundu koma á eftir og krefjast samskonar réttarbóta fyrir sig. Mér hefir nú virzt það algerlega viðurkennt af öllum, að landbúnaðurinn standi lakast að vígi allra atvinnuvega í landinu. Og þess vegna sýnist það ekkert óeðlilegt, þótt hann yrði þá þess aðnjótandi að losna við þetta gjald, jafnvel þótt því yrði ekki létt af öðrum atvinnuvegum.

Út af því, sem ég sagði um mismun á aðstöðu þeirra bænda, sem selja afurðir sínar innanlands, og hinna, sem selja þær til útlanda, vildi hv. frsm. minni hl. halda því fram, að sama gilti um sjávarútveginn; fiskur væri seldur miklu hærra verði innanlands heldur en fengist fyrir hann á útlendum markaði. Þetta er að vísu rétt, það sem það nær. En það hefir bara svo sáralítið að segja hvað sjávarútveginn snertir, því það er svo örlítið brot af afurðum hans, sem selt er á innlendum markaði.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að þetta væri bónorðsför hjá bændum. Ég get alls ekki viðurkennt, að þetta sé nein bónorðsför. (ÓTh: Bónorðsför til bænda þá). Má þá aldrei bera fram mál, sem einn þm. álítur nauðsynlegt og réttmætt, þó að hann hafi ekki verið beðinn um það? (JAJ: Það verður þá a. m. k. að vera skynsamlegt). Já, og að þessu frv. liggja fullgild rök, sem ég nefndi áðan, að þessi atvinnuvegur sýnist ekki beint til þess fallinn sem stendur, að tekið sé af því litla verði, sem fæst fyrir framleiðslu hans, enda þótt litlar upphæðir séu.

Þá var hv. þm. N.-Ísf. að tala um smámunasemi í sambandi við þetta frv. En ég vil minna á, að skammt er síðan hér var á ferð í þinginu mál, sem ekki var stærra hagsmunamál sjávarútvegsins heldur en þetta er fyrir landbúnaðinn, og var þó lagt hið mesta kapp á það. Ég játa, að þetta er ekki stórmál og hefir ekki mikla fjárhagslega þýðingu, og ef það, eins og hv. þm. N.-Ísf. talaði um, getur vakið andúð gegn heilli stétt í landinu, þá eru menn orðnir undarlega viðkvæmir. Ég get ekki gert neitt úr slíku.

Ég fer svo ekki frekar út í þetta mál, þar sem ég fyrir mitt leyti geng inn á, að það verði tekið af dagskrá að þessu sinni.