22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

1. mál, fjárlög 1934

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég þarf ekki mörgu því að svara, sem hv. 2. landsk. sagði. En hann beindi þó til mín nokkrum orðum í lok ræðu sinnar, sem koma við minni dómsmálastjórn, og ég vil svara örlitlu.

Hv. ræðumaður reyndi að láta það í veðri vaka, að það mundi hafa verið mitt erindi í stjórnarsætið að afturkalla mörg mál, sem fyrirrennari minn hafði höfðað á móti ýmsum merkum borgurum hér í bæ. Hv. síðasti ræðumaður var þó svo sanngjarn að geta þess, að ég afturkallaði ekki það mál, sem fyrirrennari minn hafði höfðað gegn mér sjálfum, og svo sanngjarn að segja, að ég væri algerlega hreinn af þessu máli eftir dóm hæstaréttar. En hitt fór hann rangt með, að öll önnur mál, sem hann minntist á, hefði ég afturkallað. Ég býst við, að hann muni það vel, að það voru höfðuð mál á móti 5 framkvæmdastjórum Kveldúlfs, og hann veit vel, að dómur hefir gengið í þeim málum, og að það voru sýknunardómar. Þau mál, sem hv. 2. landsk. á við hér, geta því varla verið önnur en mál þau, sem höfðuð voru gegn fyrirrennurum hans í Ísl.banka. Ég veit ekki, hvort það er vel viðeigandi af honum að fara út í þau, læt það ósagt og ræði þau ekki hér, nema sérstakt tilefni gefist, en ég vil aftur á móti benda á, að ég hefi í útvarpsræðu í Nd. fært sönnur á réttmæti þeirri ráðstafana, sem gerðar voru um þau mál, og hefir enginn hreyft andmælum gegn þeirri ræðu minni. Læt ég nægja að vísa til þess, sem ég þá sagði.

Hv. þm. sagði, að það hefði kannske verið rétt að afturkalla Íslandsbankamálið, a. m. k. vildi hann ekki rengja það. Og þá er ekki hægt að deila við hann um það. En ekki hlýðir fyrir hv. þm. að álasa fyrir afturköllun máls, sem hann hefir lýst yfir, að hann viti ekki nema að hafi verið rétt að afturkalla.

Hv. 2. landsk. nefndi ennfremur nokkur önnur mál, svo sem Keflavíkurmálin og Bolungavíkurmálið og áleit, að ekki hefði verið gert neitt til að rannsaka þau. Mér kemur undarlega fyrir, að hann skuli álasa mér fyrir Keflavíkurmálin. Þau voru löngu komin upp áður en ég tók ráðherrasæti. (JBald: Eru þau hjá dómsmrn. ennþá?) Að vísu. En telur ekki hv. þm. réttara að beina sök þangað, sem hún á heima, heldur en að beina þeirri sök að mér, sem ég ekki á. Ef það er sama, hvort ég er sekur eða saklaus um þetta, þá getur hann talað svo um þetta mál eins og hann gerði. Um Bolungavíkurmálið er það að segja, að það hefir verið rannsakað, en ég veit ekki, hvort því er lokið.

Hv. þm. nefndi ennfremur nýtt mál úr Vestmannaeyjum. En ég verð að segja honum, að hann er fullbráðlátur, ef hann heimtar slík mál afgreidd á 2—3 dögum, og svo mikið er víst, að hann gerði ekki slíkar kröfur til samherja síns, fyrrv. dómsmrh. Ég frétti satt að segja fyrst um þetta mál í dag, svo að varla getur talizt sanngjarnt að ætlazt til, að ég sé búinn að afgreiða það ennþá.

Þá talaði hv. þm. um, að afturkölluð hefðu verið mál gegn þeim, sem fyrrv. dómsmrh. hafði fyrirskipað málshöfðun gegn, en hinsvegar hafi ég látið reka 30 mál út af óeirðunum 9. nóv. Hv. þm. gaf jafnframt í skyn, að þetta sýndi, að tvennskonar réttlæti ríkti í landinu, annað fyrir ríka, en hitt fyrir fátæka. En af því að hann lét sem sakarefni hefðu verið lítil 9. nóv., svo lítil, að aðalsakarefnið hefði verið, að einhver hefði sagt: „Þarna kemur Jakob Möller“, þá vil ég lesa upp fáein læknisvottorð lögregluþjónanna af mörgum, og þá sézt, hvort þessi orð hafa verið aðalorsökin til málshöfðananna. Annars gátu þessi orð verið bending um að ráðast að þessum bæjarfulltrúa. En nú var sá maður, sem þessi orð talaði, sýknaður, svo að þessar röksemdir hv. 2. landsk. hrökkva nokkuð skammt.

Vil ég þá lesa hér 2—3 vottorð af handa hófi. Vottorðin eru 20—30 alls. „Jakob Björnsson lögregluþjónn handleggsbrotnaði á vinstra framhandlegg þann 9. þ. m. (fractura ulnæ). Verður hann sennilega ófær til vinnu 6 vikna tíma í allt.

Reykjavík 30/11 '32.

B. Gunnlaugsson læknir.

Meiðsli þau, sem Sigtr. Eiríksson lögregluþj. varð fyrir 9. nóv., voru:

Háls- og bakvöðvar voru mikið marðir og bólgnir, svo hreyfing í þessum vöðvum var nær ómöguleg vegna sársauka. Á höfði var hann auk þess töluvert marinn. Af áverka þeim, sem hann hafði fengið, er hann mjög máttfarinn í öllum útlimum, og er það enn, má búast við, að hann verði ekki vinnufær fyrr en eftir 1—1½ mánuð hér frá.

Rvík 2/12 '32.

Ó. Þórðarson.

Meiðsli þau, sem Matthías Sveinbjarnarson lögregluþjónn varð fyrir 9. nóv., voru:

Á enninu, vinstra megin, var djúpur, um 3 cm. langur skurður. Á hægri upphandlegg var bólginn og marinn blettur, sömuleiðis á hægri framhandlegg. Höndin sjálf var bólgin. Á vinstri handlegg voru víða marblettir.

Meiðsli þessu er ekki enn að fullu bötnuð. Sérstaklega er baugfingur hægri handar aumur og sár við hreyfingu.

Rvík 30/11

Ó. Þórðarson.

Einn lögregluþjónninn nefbrotnaði, og liggur fyrir vottorð um það, annar herðablaðsbrotnaði og þriðji handleggsbrotnaði, og yfirleitt má sjá, að flestir lögregluþjónarnir voru meira eða minna meiddir og því óstarfhæfir.

Hvað átti nú stjórnin að gera, er lögreglan var orðin óvíg annað en að stofna aðra lögreglu, þótt fjárveitingarheimild væri ekki fyrir hendi? Efast ég ekki um að þingið veiti þetta fé af fúsum vilja eftir á. Það hefir oft komið fyrir áður, að stjórnin hefir greitt fé upp á væntanlegt samþykki þingsins. Og ég veit, að allir þm., og líka hv. 2. landsk., eru sannfærðir um það í hjarta sínu, að þetta var óhjákvæmileg ráðstöfun hjá stjórninni. Og auðvitað varð að refsa þeim, sem meiðslunum ollu.

Afstaða hv. 2. landsk. gagnvart lögreglunni er annars næsta undarleg, og ólík afstöðu jafnaðarmanna annarsstaðar. Sem dæmi má nefna, að út af væntanlegum óeirðum á suðurlandamærum Danmerkur er ríkislögregla aukin þar í skyndi um 100 menn, og eru þessi landamæri þó ekki löng. Þetta gerði jafnaðarmannastjórnin danska.

Mér kom það undarlega fyrir, er hv. 2. landsk. talaði um, að ég væri hlutdrægur. Hann talaði um það glottandi, að 5 sakamálskærur lægju fyrir á sjálfan sig. Hefi ég fyrirskipað sakamál út af þessum kærum, þó að hann sé Alþýðuflokksmaður? Hvað veit hann um, hve margar kærur ég hefi látið niður falla á Alþýðuflokksmenn? Ekki neitt. Þar kemur málstaðurinn einn til greina, og ekkert annað.

Ég þarf ekki að víkja að þeim atriðum í ræðu hv. þm., sem hann beindi til hæstv. forsrh. og hæstv. atvmrh. En út af því, að hann álasaði stj. fyrir það, að stórmálin leystust ekki, vil ég segja honum það, að það er alvanalegt, að lausn stórmála biði síðustu daga þingsins, svo að það er enn of snemmt fyrir hann að hlakka yfir þessu. Stjskrármálið verður ekki leyst nema með samkomulagi. Hv. þm. heldur því fram, að hægt hefði verið að leysa það með hörku í fyrra, en það er ekki rétt. Það var að vísu hægt að fella önnur mál, en það er annað að leysa stjskrármálið. Eftir 110 daga þóf urðu stjórnarskiptin í fyrra. Hv. þm. nefndi, að þetta þing hefði þegar setið í 100 daga. Ég þykist hafa ástæðu til að vona, að stórmálin leysist einmitt á þeim fáu dögum, sem þingið kann að standa fram yfir 100 daga.