05.05.1933
Neðri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (3663)

173. mál, óréttmæta verslunarhætti

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég skal játa, eins og ég tók fram við framsögu málsins, að n. hafði ekki mikinn tíma til að athuga frv., og má vel vera, að orðalag þess megi lagfæra; og að því er snertir þessar brtt. hv. þm. Ísaf., þá er ég mörgum þeirra, ef ekki öllum, samþykkur. Frv. ber það með sér, að það hefir verið þýtt úr dönsku og málið ekki eins gott á því og skyldi. Þess vegna væri e. t. v. ekki nema rétt að fá það tekið út af dagskrá nú og athuga það betur, sérstaklega málið á því. Mér skilst samt sem áður, að till. hv. þm. Ísaf. séu ekki ósamrýmanlegar efni og stefnu frv., og get ég að því leyti til verið ánægður með þær till., sem hann hefir komið fram með. Það er að vísu réttara að segja „til varnar gegn óréttmætum verzlunarháttum“ en „til varnar óréttmætum verzlunarháttum“, en hinsvegar má hv. þm. fara varlega í að hártoga þetta um of, því að „til varnar“ er annað en „til verndar“, en það er oft notað að tala um að varna einhverju, þótt ég játi, að það sé skýrara og réttara mál að segja „til varnar gegn óréttmætum verzlunarháttum“. — Ég skal svo verða við þeim tilmælum, sem hér hafa komið fram, og geri ráð fyrir, að meðnm. mínir samþykki, að málið sé tekið út af dagskrá, og mun n. lagfæra þá agnúa, sem á því eru. (ÓTh: Senda það til norrænudeildar háskólans).