19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (3671)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Húnv. var með hnútur til mín. Hann hefir verið einkennilega skapstirfinn eða skapillur undanfarna daga, og veit ég þó ekki til þess, að ég persónulega geti átt neinn þátt í því. Milli vonzkukastanna var svo hv. þm. að koma með ýmsa mislukkaða fyndni, sem enginn hló að nema hann sjálfur. En það fór minna fyrir röksemdunum hjá honum. Hann vildi bera þetta frv. saman við annað frv., sem hefir verið hér á ferð, um að lækka útflutningsgjald á fiskimjöli. En það er dálítill munur á að færa gjaldið úr 4-5% niður í venjulegt útflutningsgjald, eins og þar var um að ræða, eða losa aðra höfuðgrein framleiðslunnar í landinu alveg undan útflutningsgjaldi.

Ég tók fram rök mín gegn frv. við síðustu umr. og skal ekki fara að endurtaka þau nú. En ég vil benda hv. 2. þm. Rang. á það, að hlægilegt er, þegar hann er að bera þetta frv. saman við þær ráðstafanir, að reyna að tryggja bændum lágmarksverð fyrir kjöt sitt. Þær ráðstafanir miða að því að hækka kjötverðið um 15 aura á kg., en útflutningsgjaldið nemur aðeins 2/3 aur. á kg. Þetta er svo hlægilegt, að enginn þm. ætti að vera að skemma málstað bænda með því að bera slíkt fram. Annars er frv. bezt lýst með ummælum hv. 1. þm. S.-M. Hann sagðist ekki vera svo lítilþægur fyrir hönd bænda, að hann vildi nýta frv. Þetta er hugur flestra bænda í þessu máli. Bægslagangur hv. þm. V.-Húnv. út af frv. er ekki sprottinn af málefnislegum ástæðum, heldur af sömu ástæðum og vöktu fyrir flm. þess í Ed., að dingla skottinu framan í bændur fyrir kosningarnar.

Annars er þetta smámál, sem ekki er hægt að gera mikið úr, nema að því verði horfið að fella niður útflutningsgjald af sjávarafurðum, eins og öll sanngirni mælir með, ef þetta frv. verður samþ. Útgerðin er rekin með tapi, svo að næstum hvert einasta útgerðarfyrirtæki hefir tapað hin síðustu ár. Það er fullkomlega réttmætt, að hlaupið sé undir bagga með landbúnaðinum á erfiðum tímum. En þeir, sem það gera, eiga rétt á því, að foringjar bænda hjálpi til að létta byrðar sjávarútvegsins. En verði horfið að því að fella niður útflutningsgjald á sjávarafurðum, mun það koma fram, að ríkissjóður hefir ekki ráð á að taka afleiðingunum af slíkri samþykkt. Þess vegna mun ég ekki flytja slíka brtt., en greiði atkv. á móti frv. eins og það liggur fyrir.