19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (3676)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Sveinbjörn Högnason:

Ég ætlaði ekki að fjölyrða mikið um þetta mál. En mér þykir leitt, að hv. þm. V.-Sk. skuli ekki vera viðstaddur, því ég ætlaði að svara honum örfáum orðum.

Ég ætla ekki að fara út í samanburð á því, hver okkar hefir unnið meira gagn sínum umbjóðendum hér á Alþingi. En ég get borið hv. þm. V.-Sk. það, að ég er sannfærður um, að hann hefir notað hvert tækifæri, sem hann hefir getað, til þess að vinna bændum í Vestur-Skaftafellssýslu gagn. Og ég þekki hann að mesta dugnaði og myndarskap í því að vinna fyrir mál bænda heima í héraði. Einmitt þess vegna segi ég, að það komi úr hörðustu átt, ef hann ætlar að slá á móti framréttri hendi til hjálpar bændum í þessu máli. Hefði ég þekkt hv. þm. að ódugnaði í héraðsmálum og að vera bændum yfirleitt til óþurftar, þá hefði mig ekki þurft að undra framkomu hans nú. Hefði hv. þm. V.-Sk. verið fulltrúi fyrir hérað, sem þetta frv. var til óþurftar fyrir, þá hefði ég ekki viðhaft þau orð, að mótstaða frá honum kæmi úr hörðustu átt. En ég hefi áður bent á það, að þegar fulltrúar þeirra héraða, sem njóta góðs af þessu frv., slá hendi við þeirri hjálp, er það veitir, þá megi búast við því, að á þá sömu menn muni renna tvær grímur síðar, þegar til atkvæða koma till. um beinan fjárstyrk til bænda. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ef bændur úr þeim héruðum, sem framleiða þessa verðlausu útflutningsvöru, kjötið, finna ekki ástæðu til þess að fella niður skatt af þessari vöru, þá geti þeir varla lagt til, að hið opinbera fari að borga beinan styrk eða verðuppbót á þessa sömu vöru. Mér finnst, að slíkt stríddi greinilega hvað á móti öðru. En ég hefi haldið, að hvorttveggja ætti að gera, að létta skattinum af og að veita hjálp til þessara manna, sem verst standa að vígi fyrir það, að þeir hafa ekki annað en útflutningsvöru að selja. Mér finnst það óneitanlega einkennilegt, ef menn úr þessum héruðum segðu sem svo: við kærum okkur ekki um, að létt sé sköttum af okkar vörum, en við viljum fá svo eða svo mikinn styrk til þess að bæta verðið á þessum vörum. Við erum til með að borga hundrað kr. í útflutningstoll, en við viljum fá þúsundir kr. í styrk til þess að geta borgað þennan toll. Ég sé ekki, að þessi rökfærsla sé byggð á nokkru viti.

Ég ætla annars ekki að fjölyrða um málið í þetta sinn, en af því að ég hefi orðið þess var, að sumir menn telja, að það geti verið álitamál, hvað átt er við í frv. með orðinu „landbúnaðarafurðir“, þá hefi ég hugsað mér að bera fram þá skriflegu brtt. við brtt. 734 nú við þessa umr., að í stað þess orðs komi „búfjárafurðir“. Og leyfi ég mér að afhenda hæstv. forseta þessa till.