29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (3684)

173. mál, óréttmæta verslunarhætti

Pétur Magnússon:

Það er misskilningur að halda, að frv. sé stofnað í hættu, þótt brtt. mín verði samþ. 15. gr. var felld niður af misskilningi í Nd., af því að einhverjir þm. héldu, að annað fælist í gr. en er. Ég vil því setja gr. inn aftur. Efni gr. er það, að er framleiðandi eða heildsali hefir sett ákveðið smásöluverð á vöru, má smásalinn ekki lækka verðið frá því, sem þeir ákveða, ef álagningin er undir 25%. Þetta ákvæði er sett vegna innlends iðnaðar, svo að framleiðendurnir verði ekki útilokaðir frá að hafa vörur sínar sem víðast á boðstólum. Hér er ekki verið að hugsa um milliliðina, heldur framleiðendur. Framleiðandinn ákveður sjálfs sín vegna álagninguna ekki hærri en nauðsynlegt er. En ef einstakir kaupmenn lækka hana úr því, getur farið svo, að aðrir kaupmenn vilji ekki selja vöruna, svo að minna gengur út af henni en ella, til tjóns fyrir framleiðendur. Með þessu er og fengin trygging fyrir, að varan verði ekki seld með óhæfilega háu verði. Tilgangurinn er auðvitað sá, að milliliðirnir geti ekki selt hærra verði en því, sem ákveðið er af framleiðendunum og þeir telja sanngjarnt gagnvart neytendum. Ég undrast, að hv. 5. landsk. skuli beita sér móti þessu ákvæði, því að á því geta ekki aðrir tapað en þeir kaupmenn, sem vilja leggja of mikið á. Hagsmunir framleiðendanna tryggja, að álagning sú, er þeir ákveða, verði ekki of mikil.