31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2315 í B-deild Alþingistíðinda. (3693)

173. mál, óréttmæta verslunarhætti

Vilmundur Jónsson:

Ég hefi ekki getað sannfærzt af röksemdum hv. þm. Vestm., því að það er bersýnilegt fyrir augum allra hv. dm., að hér er verið að vernda álag á vörur, er nemur allt að 25% af innkaupsverði þeirra. Enginn má fara þar niður fyrir.

Þetta miðar ekki til verndar hagsmunum almennings, heldur til þess að tryggja hátt álag á framleiðsluvörur. Hví mega menn ekki keppa um að selja þessar vörutegundir, sem hér um ræðir, við sem aðgengilegustu verði, eins og hverjar aðrar vörur? Ég sé ekki heldur, að hagur framleiðenda krefjist hér neinnar verndar. Þeir mega jafnvel þakka fyrir, ef einhver kaupmaður tekur upp á að undirselja vörur þeirra. Því meira gengur væntanlega út af þeim, Ég álít, að margt standi stjórnarvöldunum nær en að setja skorður við of lágu álagi kaupmanna. Þurfi kaupmenn verndar í þessu efni hver fyrir öðrum, verða þeir að eiga um það við sjálfa sig.