12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (3706)

93. mál, ábúðarlög

Jón Baldvinsson:

Þetta frv. hefir legið fyrir allmörgum þingum, en lítið miðað, þangað til nú virðist fyrst lagður nokkur kraftur á að koma því fram.

Ég mun ekki gera frv. sjálft að umtalsefni að þessu sinni, en vil beina því til hv. frsm. og nefndar, hvort hún telji ekki réttara að stuðla að því, að þáltill. mín um kaup hins opinbera á jörðum gangi fram frekar en þetta frv. Ég vænti þess því fremur, sem ég veit, að hv. frsm. hefir nú fengið skipun flokks síns til að beita sér fyrir því máli. Vegna þess að ég þykist vita, að hv. 3. landsk. hagi sér eftir samþykktum flokks síns, tel ég víst, að hann muni fremur beita sér fyrir þáltill. minni en því að lappa upp á landbúnaðarlöggjöfina með þessu frv. Það er víst, ef þáltill. mín nær fram að ganga, sem gera má sér góðar vonir um, eftir að Framsóknarfl. hefir lýst yfir fylgi sínu við hana, að slíkt myndi leiða af sér miklar breyt. á þeirri ábúðarlöggjöf, sem frv. gerir ráð fyrir, og því teldi ég heppilegra að fresta þessu máli til að losna við tafir og tvíverknað. Ég vil beina þessu til hv. frsm., þar sem hann mun nú vera orðinn öruggur fylgismaður ríkiskaupa á jörðum eftir samþykkt flokks síns.