22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Baldvinsson:

Útvarpshlustendur og aðrir áheyrendur hafa nú fengið nokkra hugmynd um það, hvernig dómsmálastjórnin á þessu landi hefir verið framkvæmd undanfarin ár, af ræðum þeirra hv. 5. landsk. og hæstv. dómsmrh., sem báðir hafa haft hana á hendi. Það, sem fram hefir komið í ræðum þeirra, hefir nú ekki gefið neina glæsilega hugmynd um þeirra starf á því sviði. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að það mun almennt viðurkennt, að í þessu sæti þurfi að vera glöggir og réttsýnir menn. En á lýsingum þeim, sem þeir hafa gefið hvor öðrum, er ekki hægt að sjá, að svo hafi verið. Ég mun þó ekki eyða frekar orðum að þessu, heldur snúa mér að hæstv. forsrh.

Ég dró saman í fyrri ræðu minni yfirlit yfir þau loforð, sem stj. gaf þegar hún tók við völdum 4. júní í fyrra, og sýndi fram á, að hún hefði ekki efnt þau. Hæstv. forsrh. svaraði þessu og gaf von um þá lausn í stjórnarskrármálinu, sem ég gæti verið ánægður með. En hæstv . ráðh. hefir nú svo oft áður sagt þetta sama, án þess að orð hans hafi rætzt, að maður hættir að gera mikið úr slíkum orðum. Og þótt hann hafi fyrir löngu sagt þetta í þinginu og í blaði sínu, „Framsókn“, nýlega, þá var það þó svo, að stjórnarskrármálið var tekið út af dagskrá síðast í dag. Og enginn þykist enn um lausn þess máls vita, né þorir að fullyrða, að hún sé nærri, sízt sú lausn, er þingið allt geti sætt sig við. Hæstv. forsrh. hélt því fram, að norsku samningarnir hefðu verið misbrúkaðir til pólitískra agitationa. Ég held nú, að fullsnemmt sé að fullyrða nokkuð um ágæti þeirra samninga meðan þeir eru ekki farnir að sýna sig. Og þótt sú reynsla sé enn ekki að fullu komin í ljós, þá bendir

það þó í áttina, að Norðmenn auka flota þann, er þeir senda til veiða hingað, meir en nokkru sinni áður. Það þýðir það, að þeir ætla að nota sér fyllilega þau fríðindi sem samningurinn veitir þeim, að láta síld þá, er þeir veiða, á land hér í stórum stíl. Allt útlit er nú fyrir, að afleiðing þessa verði svo lágt síldarverð, að Íslendingar sjái sér naumast fært að gera út, vegna þess að útgerðin beri sig ekki.

Hæstv. ráðh. talaði um sparnaðarviðleitni stjórnarinnar. Ég sagði líka, að hún hefði sparað. En að sá sparnaður hefði mest komið fram í því, að lækka kaup við vegavinnu og minnka opinbera vinnu á krepputímum. Einmitt þá vinnu, sem aðrar þjóðir hafa talið sér skylt að auka á þessum erfiðu tímum og hafa tekið stórlán til þess. Hæstv. atvmrh. varði löngu máli til að reyna að sanna, að atvinnuframkvæmdir af hálfu ríkisins hefðu verið meiri en ég vildi vera láta í minni ræðu. Hann nefndi tölur, er hann vildi telja, að sönnuðu þetta, og sagði, að unnið hefði verið fyrir 936 þús. kr. alls. Þetta er nú að vísu meira en það, sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh., er hann lagði fram fjárl.frv., og á henni byggði ég, þegar ég sagði að framkvæmdir hefðu verið minni 1932 en áður, og fyrirhyggja einnig um þessa hluti í núgildandi fjárl., þessi mestu kreppuár, sem komið hafa, heldur en var á undangengnum góðu árunum, eða 1929 og 1930. En hæstv. ráðh. vildi sýna með samanburði, að eins mikið hefði verið unnið 1932 eins og á þeim árum. Ég hefi nú fyrir mér landsreikninga frá þeim árum og sé, að 1929 hefir verið unnið að vega- og brúargerðum fyrir 1550 þús. kr. og 1930 fyrir 1980 þús. kr. Nú er þá bara spurningin, hvort þessar tölur eru hærri eða lægri en sú, sem hæstv. ráðh. nefndi. (Atvmrh: Ég sagði ekki, að þetta væru jafnar upphæðir!) Hæstv. ráðh. vildi þó láta líta út sem svo væri. Hér munar á árunum 1930 og 1932 meira en mill. kr. eða talsvert meiru en helming. Og þá er það líka rétt, að sparaðar hafa verið opinberar framkvæmdir. En með því hefir verið aukið á atvinnuleysið í landinu. Helmingi þess fólks og meira þó, sem hafði atvinnu við vega- og brúargerðir 1930, hefir á árinu 1932 verið bætt í hóp atvinnuleysingjanna. Þessar tölur hefðu þurft að vera öfugar, lægri talan 1930. Þá var atvinnulífið í góðum gangi og ekki farið að bera til muna á hinni lamandi kreppu, sem varð mest 1932 af því, sem hún enn hefir orðið. Það er þetta, sem ég vildi benda hæstv. stj. á.

Að síðustu nokkur orð til hæstv. dómsmrh. Hann fann það réttilega úr ræðu minni, að mér finnst vera tvennskonar réttlæti í landinu. Ég hefi gert samanburð þessu til sönnunar á rannsókn þeirra sakamála, sem fyrrv. dómsmrh. hafði sett á stað áður en hann fór frá, og þeirra, sem núverandi dómsmrh. og ráðuneyti Ásgeirs Ásgeirssonar framkvæmdi á árinu 1932, þegar hann dró aftur kærur gegn þeim mikilsmetnu íhaldsmönnum, sem fyrir lágu, þegar hann kom að völdum, og þegar hann setti í gang sakamálsrannsókn gegn fjölda verkamanna, sem höfðu tekið þátt í óspektunum 9. nóv. 1932.

Ég má til að lesa hér upp nokkur orð, ef hæstv. forseti leyfir, (Forseti: Sem allra fæst) úr vörninni, sem lýsir tildrögum málsins:

„Fyrstu dagana í nóv. síðastl. ákvað meiri hl. bæjarstjórnar hér í bænum að lækka kaupið í atvinnubótavinnunni úr kr. 1,50 fyrir hverja vinnustund niður í kr. 1,00. Nam lækkun þessi því 331/3% eða þriðjungi. Vakti samþykkt þessi, sem von var, megna andstöðu meðal verkamanna allra í bænum og í alþýðusamtökunum yfirleitt. Var hér að áliti allra verkalýðssinna og sanngjarnra manna um að ræða hið argasta ofbeldi og launakúgun, og þar ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur. Og af tilefni þessarar kaupkúgunar var stofnað til kröfugöngu hér í bænum, og er það vafalaust sú voldugasta og áhrifaríkasta kröfuganga, er hér hefir sézt. Meginhluti allra verkamanna í bænum, og svo að skipti þúsundum, tóku þátt í þessari kröfugöngu og mótmæltu á mjög einbeittan, en þó hóglátan hátt þessari gífurlegu kauplækkun. Var síðan krafizt bæjarstjórnarfundar um málið. En áður en sá bæjarstjórnarfundur var haldinn, hélt bæjarráð Rvíkur fund með sér. Þar flutti undirritaður till. um það, að bæjarstjórnin félli frá kauplækkuninni, en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins báru fram og samþykktu í bæjarráðinu rökst. dagskrá um það, að bæjarstjórnin sæi enga ástæðu til þess að breyta fyrri samþ. sinni. Þessar till. lágu fyrir bæjarstjórnarfundinum 9. nóv. síðastl. og var það alkunnugt í bænum. Var á meðal verkamanna allmikill æsingur og biðu þeir á milli vonar og ótta um afdrif málsins, eins og skiljanlegt var, þar sem um var að ræða afdrifaríkar ákvarðanir um lífskjör verkalýðsins“.

Þetta eru nú tildrögin til þess, að óspektirnar urðu á bæjarstjórnarfundinum 9. nóv. Og það mun áreiðanlega verða talið af öllum sanngjörnum mönnum, að slíkt hafi verið framferði meiri hl. bæjarstj., að nokkur vorkunn væri, að til óspekta drægi út af þessari samþykkt. Dómsmálastjórnin hefði mjög gjarnan mátt líta á þessa hlið málsins, og ráðh. hefði ekki átt að láta þessi mál fara þá leið, sem hann gerði, einkanlega með tilliti til þess, að hið sama ráðuneyti hafði áður fellt niður margar sakamálsrannsóknir á menn, sem tilheyrðu flokki hæstv. dómsmrh., sem á sumum hverjum hvíla þungar sakir, að margra áliti.

Ég minntist á Keflavíkurmálin, sem hann sagði, að ég ætti ekki að nefna við sig. En nú hefir fyrrv. dómsmrh. upplýst, að þau voru í fullum gangi þegar hann fór frá, og var það því hlutverk hæstv. núverandi dómsmrh. að halda þeim áfram.

Fyrst minn tími er búinn, ætla ég aðeins að segja örfá orð við hæstv. dómsmrh. út af því, sem hann hefir beint til mín um sakamálsákærur. Þær ákærur eru nú — a. m. k. 3—4 af þeim — frá íhaldsmanni, sem var settur af fyrir misfellur í embættisfærslu, og sem ég held að hafi kært flesta málsmetandi menn í landinu; hann hefir kært marga lögfræðinga, lögmann og lögreglustjóra í Rvík. Slíkar kærur liggja fyrir hjá dómsmrh., og bið ég mér engrar hlífðar. Tek ég því ekki þegjandi, þegar hæstv. dómsmrh. sveigir að mér, að ekki sé viðeigandi af mér að tala um samamálsákærur, t. d. um Íslandsbankastjórana. Ég tala og mun tala um þessi mál eins og mér sýnist og eigi hirða neitt um fyrirskipanir ráðherrans.