19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (3710)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Sveinbjörn Högnason:

Það er ekki í fyrsta skipti hér á Alþingi, ef talað er um að styrkja bændur að það heyrist hljóma, að nú sé verið að biðjast ölmusu handa þeim. Í hvert einasta skipti, sem á það er minnzt að rétta þeirra hlut, hljóma sömu svörin: gjafir og ölmusa. Það eru svörin til þeirra manna, sem borið hafa mestan þungann af endurreisn landbúnaðarins á síðustu árum. Og þessi svör koma frá þeim mönnum, sem ekki hafa staðið að neinu viðreisnarstarfi fyrir þjóðfélagið, mönnum, sem aldrei hafa lagt á sig nokkurt erfiði. En ef það er ölmusa að veita styrk þeim, sem við mesta erfiðleika eiga að búa vegna óviðráðanlegra orsaka, mönnum, sem aldrei hafa þegið af öðrum, hvað á þá að kalla þá menn, sem þegið hafa af fé almennings, ekki tugi þúsunda, heldur millj. kr., og það í bezta árferði? Hvað á að kalla þá menn, sem í mestu góðærunum sóuðu milli 30 og 40 millj. kr. í útgerð og braski, ef á að kalla bændur ölmusumenn, þó þeir þurfi að fá styrk á þeim alerfiðustu tímum, sem komið hafa yfir þessa þjóð? Hvað á þá að kalla þá menn, sem taka tugi þúsunda í laun fyrir að vinna lítið verk, 10, 20 upp í 30 þús. kr. fyrir sáralítið starf? Það má lengi segja, að hér sé lítið um að ræða, þar sem er þetta útflutningsgjald. Það er satt, það er lítið, 10 til 30 kr. á hvern bónda. Það er lítið frá sjónarmiði þeirra manna, sem hafa tugi þús. kr. í árslaun, en bændur hafa ekki því að heilsa að mæla á svo stórstígan mælikvarða. Og ég skil konungslund íslenzkra bænda ekki síður í því, að þeir heimti sinn rétt, heldur en að þeir komi sem ölmusulýður krjúpandi að fótum þeirra manna í þjóðfélaginu, sem við kjötkatlana sitja nú.