19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (3711)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Steingrímur Steinþórsson:

Það ganga hátt öldurnar nú hér í þessari hv. d. Ég ætla mér ekki að kynda það bál, sem hér er farið að loga, fremur en orðið er, en af því ég er annar sá þm., sem skrifaði undir brtt. með hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. V.-Húnv., og af því að mér hefir fundizt sumt af því, sem komið hefir fram gegn frv., af fullu skilningsleysi ef ekki af taugaóstyrk talað, þá vildi ég víkja nokkrum orðum að þessu máli. Ég held, að sumir hv. þm. gái ekki að kjarna þessa máls, sem sé þeim, hve þetta gjald er ósanngjarnt eins og það er. En ef það er ósanngjarnt eins og það er, þá á að samþ. það í öðru formi. Ég get verið samþykkur till. hv. 1. þm. N.-M., því ég álít það réttlátt að leggja gjald á allan landbúnaðinn, sem svarar til útflutningsgjaldsins, t. d. leggja það á búpening eins og tíund. Eins og nú er kemur þetta gjald aðeins á þá framleiðendur eina, sem sízt geta undir því risið. Það kemur á þá tegund búpeningsins, sem langmest hefir fallið í verði. Ef leggja á gjald á framleiðsluvörur landbúnaðarins, þá á ekki að byrja á þeim greinum, sem verst eru settar; því mega menn ekki gleyma.

Það er ekki viðeigandi í þessu máli að rísa upp með rosta og hávaða eins og hv. þm. Ak. gerði og fara að tala um ölmusu og glataðan metnað, án þess að koma nokkuð inn á kjarna málsins. Slíkt ber aðeins vott um taugaóstyrk eða eitthvað annað óskiljanlegra. Það er líka annað í þessu sambandi. Það hefir verið talað um það, að greiða verði verðuppbót á útflutningsvörur bænda úr kreppulánasjóði. Mér sýnist það beinlínis hlægilegt að fara þá að taka útflutningsgjald af sömu vöru, og þegar auk þess er litið á þetta frv. sem kreppuráðstöfun, þar sem í brtt. eru ákvæði þess miðuð við þrjú ár, sem ég fyrir mitt leyti gæti fallizt á, að fært yrði niður í tvö til samkomulags. Og ég skyldi lofa því, ef ég fjalla um löggjafarmál framvegis, að ég skuli vera með því að leggja gjald á landbúnaðinn, ekki aðeins sem svarar núv. útflutningsgjaldi, heldur dálítið meira, eftir því sem mér finnst réttlátt gagnvart útveginum. En það er sá meginmunur á þessum tveimur atvinnuvegum, þegar um útflutningsgjald er að ræða, að sjávarútvegurinn flytur út nálega alla sína framleiðslu, en meginhluti landbúnaðarafurða er notaður í landinu sjálfu og kemst því undan þessu gjaldi. Ég skil því ekki ofstæki þeirra manna, sem þjóta upp á nef sér í svona máli. Ég ætla ekki, þó hv. þm. Ak. hefði átt það skilið, að taka til athugunar þau slagorð og fullyrðingar um lágar hvatir, sem hann slöngvaði að okkur fylgismönnum þessa frv. Ég ætla ekki að gefa tilefni til nýrra fjarstæðna. Mér dettur ekki í hug, að hv. þm. Ak. eða aðrir, sem talað hafa gegn þessu frv., geri það af því, að þeir vilji troða á rétt sumra bænda, en þá vil ég líka neita því, að þessi hv. þm. hafi rétt til að tala um frv. sem ölmusu eða kosningabeitu. Það kom líka fram í ræðu hans, að bændur mundu ekki vilja þiggja þessa hjálp. Samræmið í ræðu hans var nú ekki meira en þetta. Hann talaði um, að þetta væri kosningabeita, en svo sagði hann, að þeir, sem hún væri ætluð, vildu ekki við henni líta. Þannig var ræða hans full af mótsögnum og byggð á mótsögnum.

Ég vildi aðeins lýsa afstöðu minni til málsins og láta þess getið, að ég er sízt á móti því, að landbúnaðurinn beri gjald, sem er hliðstætt útflutningsgjaldinu að einhverju leyti, en það nær ekki nokkurri átt, að lagt sé á hann eins og gert er nú. Það er ekkert höfuðatriði, hvort gjaldið er stórt eða lítið, en ef það er ranglátt, þá á að breyta til og leggja það á annan hátt á. En um hitt þarf ekki að deila, að með annari hendinni að taka gjald af verðlausri framleiðslu, en með hinni að gefa verðuppbót til hinnar sömu framleiðslu er ákaflega heimskuleg aðferð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en úr því að umr. voru orðnar svona langar, gat ég ekki látið hjá líða að lýsa minni afstöðu til málsins.