19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (3715)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þessar umr. eru nú komnar inn á aðra braut en ég tel rétt. Það er náttúrlega álitamál, hvort betra er að skipta um og leggja annan skatt á landbúnaðinn en útflutningsgjald. Um það má ræða, en fyrr en þær till., sem fram eiga að koma, liggja fyrir, er ekki hægt að dæma um, hvort þær eru betri en það, sem nú er. En ég held, að þegar frv. þetta var borið fram, þá hafi það ekki verið, eins og hv. 1. þm. Skagf. tók fram, með tilliti til þess, hve gjaldið kæmi ósanngjarnlega niður. Það hefir ekki allan þennan tíma, sem þingið er búið að sitja, bólað neitt á till. um nýja skatta á landbúnaðinn. Ég held því, að þetta sé aðeins fundið upp af því, að meðmælendur frv. finna, að þetta er í raun og veru ekki sanngirnismál eins og það liggur fyrir, og ég vil undirstrika það, sem ég sagði áðan viðvíkjandi þeim samningum, sem gerðir voru 1925 um þessi mál. En annars get ég ekki neitað því, að mér fannst annar andi í ræðu hv. 2. þm. Rang. en ræðu hv. samþm. míns, þó að þeir séu báðir flm.brtt. við þetta frv.

Ég hefi svo ekki ástæðu til að lengja umr. frekar.