17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (3734)

93. mál, ábúðarlög

Jörundur Brynjólfsson:

Ég vil byrja á því að tjá hæstv. atvmrh. þakkir fyrir, hve annt hann hefir látið sér um flutning þessa máls og undirbúning, og þó að ég sé sízt sammála um, að sumar breyt. séu til bóta, þá vil ég tjá honum þakkir fyrir, að hann hefir öðrum fremur stuðlað að því að koma málinu í höfn. Mig hefir mjög undrað það á undanförnum þingum, hve lítið mönnum hefir verið annt um að koma málinu áfram, og hv. 1. þm. Eyf. og mér hefir sárnað það, hve það virðist hafa skipt þingið litlu máli. Það er sameiginlegt álit okkar, að hæstv. atvmrh. hafi brugðizt betur við en fyrirrennarar hans, og á hann fyllstu þakkir fyrir það skilið. Þar eð svo fjölyrt hefir verið um málið á undanförnum þingum, ætla ég ekki að fara út í að rekja sögu þess. Ég get verið stuttorður, þar sem hv. frsm. meiri hl. hefir lýst gangi málsins, og ég er í flestum verulegum atriðum sammála honum. Hin minni atriðin, sem vafi leikur á, hvort séu til bóta, skipta hér ekki máli. Ég geng alveg framhjá því; en tvö atriði þarf ég að taka til athugunar, og er annað og mikilvægast húsaskylda landsdrottna og hitt, sem ekki er eins þungt á metunum, jarðabætur á leigujörðum. Þessi tvö atriði skortir mjög mikið á til þess að geta staðið í viðhlítandi ábúðarlöggjöf, og ekki síður til samanburðar við erlenda löggjöf í þeim efnum. Ég tel nú, að þannig eigi að ganga frá þessu máli, að leiguliðar og þeirra hagsmunir séu sæmilega tryggðir. En um húsaskyldu landsdrottins verð ég að segja, að eins og gengið er frá henni í frv. er hún alls ekki viðunandi, og það varðar vissulega ekki litlu, hvernig ákvæðin eru úr garði gerð um þetta atriði, sem skapar lífsskilyrðin fyrir þá, sem að þeim eiga að búa. Það er viðurkennt af mönnum, sem bezt skynbragð bera á þetta mál, að lögin frá 1884 hafi í mesta máta verið hemill á framkvæmdum leiguliða og afkomu þeirra í búskap, og furðu gegnir, hvað menn eru seinlátir að endurbæta þau, þar sem ljóst er, að með þeim lögum var stórt spor stigið aftur á bak frá því, sem áður gilti. Konungur hafði brotið skyldur sínar gagnvart leiguliðum á jörðum sínum, þvert ofan í landslög og rétt. Og Alþingi varð til þess að lögleiða þessar óhæfilegu aðfarir, sem konungur viðhafði fyrstur allra manna á leigujörðum sínum, sem svo færðist brátt yfir á kirkjujarðaleigjendur, og svo loksins var það látið ná til allra leigujarða yfirleitt í landinu. Þeir, sem vilja kynna sér þetta, ættu að lesa eldri lagaákvæði um þetta efni. Ég get vel viðurkennt, að það kunni að vera allmiklum erfiðleikum háð að byggja upp á jörðunum eins og þörf krefur. En ég get alls ekki séð, að sú krafa sé nokkru harðari fyrir þá, sem eiga jarðir og leigja þær, heldur en fyrir sjálfseignarbændurna. Ég sé sem sé enga ástæðu til þess að gera vægari kröfur til leigusala en til sjálfseignarbóndans. Þó að ákvæði 11. gr. um verðmæti húsa, sem leiguliði lætur í té, séu lögð þarna til grundvallar, og þó gengið sé út frá fasteignamati, þegar meta á húsin, þá býst ég við, að kostnaðarverð verði látið ráða. (Atvmrh.: Það stendur hvorttveggja, að fasteignamati undangengnu). Hvernig á þá að meta? (Atvmrh.: Fasteignamat á að fara fram). Það er nú tæplega hægt að láta fara fram fasteignamat á húsum, sem ekki er búið að byggja. Þetta er svo lágt sett, að það er ómögulegt að hýsa eignina fyrir þetta verð.

Þá er 12. gr., um skyldur leiguliða til að láta í té vinnu við byggingarnar. Þetta er einkar hörð kvöð, eins og hv. frsm. meiri hl. hefir þegar skýrt, ef leiguliði á að láta í té allan gröft og annast aðflutning byggingarefna; kostnaður við þetta getur skipt mörgum hundruðum króna, og ef um stór býli er að ræða, getur hann jafnvel komizt upp í 2—3 þúsund kr. Það er jafnast og eðlilegast, að leiguliðar hafi frjálsar hendur. Og sérstaklega getur þetta orðið óréttlát kvöð, ef leigusali vill hyggja sérstaklega vel og ætlar að taka handa sér eða sínum fljótlega jörðina til ábúðar. Hv. Ed. hefir sýnt þá linkind, að ef hann fer innan 6 ára, þá eigi hann að fá endurgreiddan nokkurn kostnað, en fari hann nú ekki fyrr en eftir 7 ár, þá fær hann ekkert. Leigusali getur því beinlínis stórgrætt á þessu. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess, að jarðeigandi eigi að fá gjöld af fjármagni, sem hann hefir alls ekki látið í té. Þetta er ekki viðunandi eins og nú er; úr þessari kvöð þarf að draga meira. Náttúrlega er ekki nema rétt, að leiguliði láti meira af hendi, ef eitthvað sérstakt kemur fyrir, t. d. eldsvoði eða náttúrufyrirbæri, sem valda báðum tjóni. En menn mega ekki búa við þessar miðaldahugmyndir um, að vinnukrafturinn sé svo ódýr til sveita. Það var auðvitað hér áður, að vinnuaflið var einkar ódýrt, en þeir tímar eru löngu liðnir. Og nú er svo komið, að bóndinn hefir ekki meira af sínu skylduliði heldur en brýn nauðsyn krefur. Máske var ekki útilokað, að að haustinu og á útmánuðum hafi menn getað á stöku heimili gert meira en að sinna búsþörfum, en með því fólkshaldi, sem nú er yfirleitt, þá er þetta útborin eign. Mér þykir það óviðfelldið, að til þess skuli vera ætlazt, að svo harðdræg kvöð og þetta verði lögleidd. Ég vænti þess, að hv. d. sýni fulla sanngirni í garð leiguliða og að rétta þeirra hlut. Ég minnist þess, sem elzti þingmaðurinn, eða réttara sagt, sá, sem flest þing hefir setið, sagði um ástand og kjör leiguliða, að illa væri þeim í hendur búið. Ég vænti þess, að bæði hann og aðrir minnist þessara orða þegar á að skapa þessum mönnum grundvallaraðstöðu í lífsbaráttunni með þessari löggjöf. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta atriði, ég hefi nú drepið stuttlega á það helzta; og ég vil sízt lengja umr. um málið, því að tími finnst mér nú kominn til þess að koma því í höfn. Svo að ég drep aðeins á helztu atriðin.

Ákvæði 41. og 42. gr. viðvíkjandi jarðabótum fer ég aðeins fáum orðum um. Ég get skírskotað til hv. frsm. minni hl. En eitt atriði hefir gleymzt; sem sýnir bezt, hvernig réttur leiguliða er gagnvart húsabyggingum, því hann verður sjálfur að byggja megnið af þeim. Mér kæmi það ekki á óvart, þegar til framkvæmdar laganna kemur, þó leigusali þurfi aðeins að láta íbúðina í té, en leiguliði eigi að koma upp hlöðum, peningshúsum o. s. frv. Og engin ákvæði eru til um það, að nokkur sé skyldur til þess að kaupa þau af honum, þegar hann flytur af jörðinni, sjá 13. gr. í lok málsgr.; hann hefir enga tryggingu fyrir því, að viðtakandi eða landsdrottinn kaupi þau af honum, þó að óhjákvæmilegt sé að hafa þau áfram á jörðinni, ef hana á að byggja áfram. Svo prýðilega er frá gengið!! Það vantar bara brtt., sem einu sinni kom fram, um að ef steinveggir væru, þá væri ekki leyft að rífa þá niður.

Þá kem ég að jarðabótunum. Þær skipta minna máli í framkvæmd heldur en húsaskyldan. En eigi að síður gætir þar ósamræmis, og get ég þar tekið undir ummæli hv. frsm. Mér finnst ekki fullkomlega réttmætt, að ef leiguliði vinnur að jarðabótum, þá fái hann ekki nema kostnaðarverð fyrir. En ef hann sætir þessu, þá er ósanngjarnt, að landsdrottinn fær meira en hann hefir látið í té. Ákvæði 42. gr. um, hvert gjald jarðeigandi fær, ef hann lætur vinna nauðsynlegar jarðabætur fyrir eiginn reikning, eru ekki ósanngjörn, og má vel við una, að réttur leigusala og leiguliða sé gerður jafn á því. Hæstv. atvmrh. drap á það áðan og nefndi tölur því til stuðnings, að þótt ekki þætti húsakvöðin fullkomin, gæti það reynzt nokkuð erfitt fyrir marga að standa straum af byggingarkostnaðinum. Þó að þetta kunni að vera satt, þá er ekki mögulegt fyrir Alþingi við svo mikilvægt mál sem þetta og afleiðingaríkt að setja markið svo lágt, að alltaf séu gerðar sem allra minnstar kröfur um byggingar. Ég vænti þess, að einhverjar breyt. verði hægt að gera til þess að draga úr ágöllum frv. um þessi 2 atriði, sem ég hefi hér tekið til meðferðar, og leiðinlegt þætti mér, ef hv. Ed. fengist ekki til að fallast á neinar breyt. Ef ekki fást bætur á húsaskyldunni, þá vil ég taka undir með hv. frsm. og bíða einu árinu lengur með að koma málinu í höfn, því að eins seint og hefir sótzt að fá þetta leiðrétt, þá er sem ég sjái viðtökurnar, sem umbótatill., sem fluttar kynnu að vera á næstu árum, fengju, ef nýlega væri búið að setja ábúðarlöggjöf.

Hv. frsm. meiri hl. taldi þetta sæmilegan samkomulagsgrundvöll, sem nú er, en ég skal segja hv. frsm. meiri hl. það, að ég fæst ekki inn á neitt samkomulag, ef þessi ákvæði eru höfð í frv. Getur verið, að það skipti ekki máli, þótt nokkrir þm. séu óánægðir, meiri hl. knýi frv. samt í gegnum d., en því heiti ég, að ef frv. fer svo í gegn, skulu þm. alla þá stund, sem ég sit á þingi, unz frekari réttarbætur fást, fá að heyra rætt um þetta mál frekar. Ég tel þetta atriði á engan hátt viðhlítandi. Ég heyri, að margir hv. dm. biðja nú um orðið, og býst ég við, að þeir geri það til þess að undirstrika það, sem ég sagði nú síðast. Ég býst við, að hv. dm. verði nú skeleggir fyrir því að leiðrétta þann órétt, sem til þessa hefir ríkt í þessum efnum. Það eitt sæmir og annað ekki.

Út af þeim orðum hv. frsm. meiri hl., að frv. hefði tekið miklum umbótum frá því, er það fyrst var borið fram, skal ég segja það, að ég viðurkenni fullkomlega, að frv. hefir tekið umbótum um mörg atriði, enda var frv. upphaflega lagt fyrir þingið af mér og hv. 1. þm. Eyf., óbreytt frá því uppkasti, sem mþn. í landbúnaðarmálum hafði gert, en meining n. var sú, að n. kæmi aftur saman til þess að leggja síðustu hönd á frv. Af þessu varð aldrei vegna veikinda á heimili eins nm., Þórarins Jónssonar, og við vildum ekki gera breyt. á frv. að honum fjarverandi, þar sem þessi nm. ávallt hafði verið skeleggur og tillögugóður um að gera frv. sem bezt úr garði, enda álít ég, að þessi maður eigi miklar þakkir skilið fyrir þetta sitt verk, eins og fyrir önnur störf sín í n., og tókum við hv. 1. þm. Eyf. þess vegna það ráð að leggja uppkastið óbreytt fyrir þingið eins og n. hafði skilið við það um haustið. En þótt ég þannig viðurkenni, að frv. hafi tekið miklum umbótum, verð ég þó að segja það, að það hefir allmjög geigað frá því marki, sem því var sett í upphafi, að allir búendur í landinu, hvort sem væru jarðeigendur eða leiguliðar, gætu náð sem mestum og beztum þrifnaði í búskap sínum, og að ábúðarlöggjöfin hjálpaði þar til, en hindraði ekki, því að það mark hefir frv. áreiðanlega fjarlægzt við þær breyt., sem á því hafa verið gerðar. En ég vænti þess, að þessi d. kippi þessu í lag og skapi þar með farsæld og umbætur að öllum eðlilegum hætti í búskap landsmanna. Læt ég þá ósk vera mín síðustu orð í þetta sinn.