17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (3735)

93. mál, ábúðarlög

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég þarf ekki margt að mæla, því að ræðu hv. l. þm. Árn. hefi ég í raun og veru svarað að mestu leyti í svarræðu minni til hv. frsm. minni hl.

Mér kom það undarlega fyrir, að hv. þm. varði miklum tíma og málskrúði til þess að þakka það verk, sem ég hefði unnið að þessu frv. En mér þótti þakkirnar fara minnkandi þegar fram í sótti ræðu hv. þm. og hann fór að tala um, hve leiguliðarnir fengju litlar réttarbætur með frv. Þótti hv. þm. ýmis ákvæði frv. ekki viðhlítandi. Þannig vildi hv. þm. draga það út úr ákvæðum 11. og 12. gr., að það yrði ekki nema lítill partur af húsunum, sem fengist byggður með þessu móti, og enda svo lélegar byggingar, að ekki yrði búandi í þeim, en hinsvegar gerði hv. þm. ráð fyrir því, að smáatriði eins og tóttarif o. s. frv. gætu hlaupið á þriðja þús. kr., og verð ég að segja það, að ég býst við, að það verði myndarlegar byggingar, miðað við það, sem við höfum að venjast hér á landi, ef þessi smávægilegasti kostnaðarliður við húsabygginguna verður svo mikill. Dýr mundi Hafliði allur. Dýr mundu þá húsin sjálf. — Hv. þm. vildi halda því fram, að í 2. málsgrein 11. greinar væri átt við hið reikningslega kostnaðarverð húsanna, en í mgr. stendur greinilega, að fara skuli eftir fasteignamati, og ég hygg, að hv. þm. þurfi ekki lengi að leita í fasteignamatinu til þess að komast að raun um, að hús, sem raunverulega kostaði t. d. 12000 kr. fyrir nokkrum árum, er þar metið á 4000 kr. Er þannig á engan hátt hægt að bera saman hús í sveit eftir fasteignamati og hús í sveit eftir kostnaðarverði, enda hygg ég, að öllum sé þetta ljóst, ef þeir aðeins vilja láta sér vera það ljóst. — Að því er innlenda efnið snertir skal ég ekki hefja deilur um það, en vil þó segja það, að ég ætla, að verð húsanna „sökkvi“ í verði fyllilega um þá upphæð. Ég hygg, að reynslan hafi orðið sú um flest hin dýrari hús á sveitajörðum, að orðið hefir að afskrifa 1/3 upp í ½ eða meira af verði húsanna nýrra, til þess að búandi sé á jörðunum. Og ef leiguliði leggur fram þann hl., sem hann á hægast með að leggja með, lækkar upphæðin, sem hann verður að greiða afgjald af, svo að fremur verður búandi á jörðinni en ella.

Hv. þm. talaði um, að ekki ætti að gera minni kröfur til landsdrottna, sem leigðu jarðir sínar, en landsdrottna, sem sjálfir byggju á eignarjörðum sínum. Las ég hér áðan upp skýrslu úr einni sýslu, þar sem reyndust að vera 76 landsdrottnar, er bjuggu á eigin jörð, en gerðu þó ekki meiri kröfur til húsa en svaraði 570 kr. að fasteignamati á hverju býli, og í sömu sýslu voru 61 leiguliði, sem búa við hús, sem að vísu eru undir 1000 kr. að fasteignamati, en hjá flestum yfir 600 kr., og virðast leiguliðarnir sannarlega ekki verr settir eftir þessu að dæma. Ég verð því að segja það, að ekki er mikið fengið með þessari kröfu. Það er hinsvegar vitanlegt, að sumir efnamenn hafa ofhýst jarðir sínar, svo að óbúandi er á þeim jafnvel fyrir þá sjálfa, og ég veit ekki, hvort það er heppilegt, að löggjöfin fari að stuðla að því, að jarðirnar verði óbyggilegar af þessum ástæðum. Verður að sjálfsögðu að líta til þess, hvað bændur megna í þessum efnum. Þegar jafnvel efnaðir sjálfseignarbændur hafa reist sér hurðarás um öxl með byggingum, er ekki síður ástæða til að óttast, að leigujarðirnir komist í hann krappan, ef keppt verður að hæsta marki í þessum efnum, án þess að taka nokkurt tillit til, hverju atvinnureksturinn getur staðið undir.

Til viðbótar við þakkirnar til mín lét hv. 1. þm. Árn. þess getið m. a., að við, sem fjallað hefðum um frv., lifðum aftur í fornöld. Tek ég þetta ekki nærri mér. Eins og ég áður sagði, er ég vanur að vera ánægður í sáttanefnd, ef báðir aðilar eru óánægðir. Ég hefi það sem öruggt merki þess, að mér hafi tekizt að finna sanngjarna leið út úr deilunum. Og svo mun og hér. Ég hefi leitazt við að fara sanngjarnan meðalveg, en látið mig litlu skipta hrópyrði öfgamannanna til beggja hliða.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði út af 42. og 44. gr., skal ég ekki endurtaka það, sem ég áður sagði, en mér finnst, að hver maður ætti að geta verið ánægður, sem fær kostnaðarverð fyrir það, sem hann gerir. Fæ ég ekki séð, að verið sé að draga leiguliðana niður, ef þeim er séð fyrir kostnaðarverði fyrir verk þeirra. Ef mönnum er það til hugarhægðar, get ég þó til samkomulags gengið inn á að setja slíkt ákvæði í 44. gr., enda þótt ég telji litla hættu á því, að nýgerðar jarðabætar verði metnar yfir kostnaðarverði.

Ég get ekki gengið inn á það hjá hv. 1. þm. Árn., að ef þetta frv. verður að 1. nú, myndi ekki verða nein leið til að endurbæta galla á því, sem kæmu í ljós við reynsluna. Ég hefi að vísu ekki átt sæti hér á þingi, en mig undrar, að svo gamall þm. sem hæstv. forseti þessarar d. skuli ekki bera meira traust til Alþingis Íslendinga en svo, að hann telur það muni vera ófáanlegt til að lagfæra síðar augljósa galla, sem kynnu að reynast á þessum l., fremur en öðrum l., sem alltaf er verið að breyta, og stundum árlega.