17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (3738)

93. mál, ábúðarlög

Frsm. minni. hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég skal reyna að vera stuttorður, en það hefir nú allmjög verið andmælt ýmsu af því, sem ég hélt fram í framsöguræðu minni í dag. Að vísu getur það, sem ég þarf að svara þeim andmælum, orðið styttra vegna þess, að hv. 1. þm. Árn. hefir komið inn á ýms þau atriði, sem andmælt var í minn garð, og hefir hann því sparað mér ýms mótmæli, sem ég hefði annars þurft að bera fram. — Ýmsar mótbárur gegn brtt. minni hl. landbn. mun ég ekki ræða hér, og á ég þá einkum við andmæli gegn þeim brtt., sem minna máli skipta, en mun aðallega snúa mér að þeim breytingartill., sem aðalágreiningi virðast valda. En ég skal þá fyrst geta þess, út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði, að það var ekki allskostar rétt haft eftir mér, þegar hæstv. ráðh. hélt því fram, að ég hefði talað um í minni ræðu, að samkv. frv. ætti að gera leiguliða að réttlausum kóngsþrælum. Ég talaði einungis um eitt atriði í frv., þar sem kvaðir væru lagðar á leiguliða, sem bentu mikið til þeirra kvaða, sem áður fyrr voru lagðar á leiguliða, og konungsvaldið einkum beitti sér fyrir að auka og margfalda. Þetta voru mín orð, og mun ég standa við það, að ákvæði 13. gr., að þær kvaðir, sem þar eru lagðar á leiguliða um framlög til húsagerðar án þess að þeir fái nokkra verulega hlutdeild í eigninni, virðast mjög líkar mörgum hinum gömlu kvöðum, sem þá voru á leiguliðana lagðar. Hæstv. atvmrh. andmælti flestum eða öllum brtt., sem við í minni hl. landbn. höfðum gert við frv. Mun ég ekki neitt verulega koma inn á þær allar, en láta þær, sem eru minni háttar og ekki skiptir miklu máli um, hvort eru samþ. eða ekki, óumtalaðar. Svo er það um fyrstu brtt., við 3. gr., hvernig orðalag hennar eigi að vera. Mun ég ekki gera það að deiluefni út af fyrir sig, en eðlilegast er að orða hana eins og við leggjum til, því að það, sem átt er við, er að skylda landsdrottin til að byggja öðrum þær jarðir, sem honum er ekki heimilt að nytja sjálfum samkv. 2. gr. Hv. 1. þm. S.-M. hneykslaðist mjög á þessari brtt., en hv. þm. hefir ekki aðgætt það, að hneykslunarhellan er í 2. gr. Ákvæði 3. gr. um þetta atriði eru einungis afleiðingar af ákvæðum 2. gr.

Þá er það brtt. við 9. gr., um það, hvort landsdrottni eigi í öllum tilfellum að vera skylt að byggja alla jörðina í einu, hve stór sem hún er, eða þótt hún fleyti meiru en 36 kúgildum, sem er sett þarna sem hámark þess, sem skylt er að byggja sama manni. Hæstv. atvmrh. sagði, að það væri afarerfitt fyrir landsdrottin, ef hann ætti að skipta stórum jörðum í tvennt og byggja báða hlutana til lífstíðar, og taka þá um leið á sig aðrar þær kvaðir, sem því fylgir. Þetta getur að vísu verið rétt, en honum er í sjálfsvald sett, hvort hann byggir jörðina þannig í tvennu lagi eða alla í einu. En mér finnst óeðlilegt, ef við göngum inn á þá stefnu, að jarðir skuli byggðar til lífstíðar, að við séum að gera undantekningar með jarðarhluta eins og hér er gert með þessu ákvæði. Mér finnst ekki hægt að færa nein veruleg rök fyrir því, að slíkt sé rétt. Það er ekki hægt að færa nein rök fram fyrir því, að það sé erfiðara fyrir landsdrottin að byggja upp í tvennu lagi á sömu jörðinni, ef hún er stór, en tveim kotum, og ég sé því ekki, að hægt sé að taka tillit til þess út af fyrir sig. En ég get mjög vel fallizt á þá hugsun, sem kemur fram hjá hæstv. atvmrh. í sambandi við þetta, að ekki sé ástæða til þess, að stórar jarðir séu endilega í einni ábúð. Mér finnst miklu eðlilegra að skipta þeim, og þetta ákvæði í 9. gr. væri eins og bending um, að slíkt ætti að gera, án þess að þar sé um nokkra skyldu að ræða. — Aðalumr. hafa orðið um 11. og 12. gr., og þær brtt., sem við höfum gert við þær, hefi ég fátt um að segja. Hæstv. ráðh. var að leitast við að sýna fram á, að ekki væri mótsögn í 1. og 2. mgr. 11. gr., þar sem í 1. mgr. segir, að landsdrottni sé skylt að láta fylgja hús í góðu lagi, en í 2. mgr. á hann að leggja til nothæf jarðarhús. Á þetta verður ekki öðruvísi litið en sem mótsögn. Ég vildi aðeins benda á, að það er svo margt annað í 2. mgr. en í 1. mgr. Hann á að leggja til nægileg eða nauðsynleg peningshús samkv. 1. mgr., en samkv. 2. mgr. er þetta takmarkað við vissa fjárhæð, sem í flestum tilfellum verður algerlega ónóg til þess að koma upp sæmilegum byggingum. Ég held, að fáir finni samræmið í þessu. Það er að mínum dómi nauðsynlegt að breyta þessu einhvernveginn, ef það verður ofan á í þinginu að miða skyldu landsdrottins til húsagerðar að einhverju leyti við landverð. Það, að 3. mgr. 11. gr. er felld niður samkv. brtt. okkar, er bein afleiðing af niðurfellingu 2. mgr., og ég hefi ekkert út á það að setja, að hún standi, ef 2. mgr. verður ekki felld burt. Annaðhvort verða báðar mgr. að falla burt eða báðar að standa. Hv. þm. Borgf, talaði einnig talsvert um húsaskyldu landsdrottins, og í því sambandi lagði þm. út af því, að jarðir hefðu víða verið yfirbyggðar nú, einkum hin síðustu árin, og benti hv. þm. Borgf. á það, að byggingar- og landnámssjóður hefði mjög takmarkað útlán sín í þessu skyni og lánaði nú ekki meira en 6 þús. kr. til sama býlis. Get ég viðurkennt það, að of margir bændur hafa reist sér hurðarás um öxl með því að byggja of dýrar byggingar á býlum sínum. En það, sem byggingar- og landnámssjóður hefir takmarkað útlánin nú upp á síðkastið, stafar ekki einungis af því. Þessi útlánalækkun stafar af tvennu: Fyrst og fremst af því, að of dýrt var sumstaðar byggt í fyrstu, svo og hinu, að verðfall hefir orðið á byggingarefni, vinnu og öðru, er til heyrir, og því ekki ástæða til að lána jafnmikið og áður. Það er rétt, að ekki á að leggja meira í byggingar á jörðum en hægt er að rísa undir. Það er hinn erfiði hnútur að leysa, að koma upp góðum byggingum, bæði fyrir fólk og fénað, sem þó eru ekki jörðunum ofviða. Þetta er erfitt hér á landi vegna loftslags og atvinnuhátta. Við þurfum mikinn húsakost vegna atvinnuvegar vors, og loftslagið gerir það að verkum, að byggingar verða að vera vandaðar, en þær endast illa vegna votviðra; þess vegna verða viðunandi byggingar alltaf dýrar hér við það, sem gerist annarsstaðar. Það dettur engum í hug, að hægt sé að koma upp slíkum byggingum á leigujörð, ef almennt er miðað við 2/3 hluta landverðs. Hæstv. atvmrh. féllst líka á, að á öllum þeim jörðum, þar sem landverð væri lágt, myndi þessi takmörkun vera of þröng. Ég hygg, að það hafi komið í ljós, að þessu verði að breyta á einn eða annan hátt. Hversu sparlega og hagkvæmlega sem byggt er, verður aldrei komið upp byggingum á jörðum fyrir 2/3 hl. landverðs.

Um 12. gr. talaði hæstv. ráðh. allmikið og virtist ég hafa verið óþarflega hvassyrtur út af kvöðum, sem þar væru lagðar á leiguliða, þar sem ætlazt er til, að þeir vinni nokkuð að byggingu húsanna. Sagðist hæstv. atvmrh. hafa komizt að því við endurskoðun reikninga yfir byggingar á prestssetrum, að dýrt hefði verið reiknað það, sem landsetinn lagði til. Ég get vel búizt við þessu, því að það er nú svo, að þegar menn vinna fyrir aðra, og einkum fyrir hið opinbera, þá vilja menn fá það fyrir vinnu sína, sem hægt er. Hæstv. atvmrh. sagði líka, að leiguliðar þyrftu ekki að finna til þess, þótt þeir lánuðu hesta til aðdráttar, en ég er hræddur um, að hestarnir geri ekki allt, sem ætlazt er til af landseta í 1. mgr. 13. gr. Þeir rista ekki torf eða taka upp grjót og annað þess háttar. Þetta er þó ekki það, sem ég legg aðaláherzluna á. Ég get fallizt á, að einhver kvöð sé lögð á leiguliða um framlag til bygginga. En þegar ekki er ætlazt til, að leiguliði eigi nokkurn hluta í byggingunni að sex árum liðnum, og hann þar með orðinn réttlaus, þá er ég hræddur um, að hv. 1. þm. S.-M., myndi hafa farið að tala um brot á 63. gr. stjskr., hefði landsdrottinn átt í hlut, en það virðist vera svo með marga hv. þm., að þeim virðist eðlilegt, að leiguliðar sitji þar við annað og óæðra borð en landsdrottnar. En það er þessi aldagamli vani, sem gerir það að verkum, að sumum finnst sjálfsagt að leggja þessar sérstöku kvaðir á leiguliða, en sem að mínum dómi eru algerlega ófærar. Það er einkum niðurlag 13. gr., sem mér er ómögulegt að sætta mig við. Það verður að meta það, hve stór hlutur leiguliða er í þeim umbótum, sem hann gerir, og vitanlega á hann að hafa óskoraðan rétt til þess hluta af kostnaðarverði bygginga, sem hann hefir lagt fram í fyrstu, svo lengi sem honum eru ekki greiddar þær að fullu, og það er algerlega óhugsandi, að Alþingi gangi svo frá þessum lögum, að þessi réttur leiguliða sé ekki tryggður. En hæstv. ráðh. og hv. þm. Borgf. gengu algerlega framhjá síðustu málsgr. gr., enda er algerlega ómögulegt að færa rök fyrir því, að hún sé réttlát. Það var einkanlega í sambandi við þessa málsgr., sem ég minntist á kvaðirnar á konungsþrælunum áður fyrr, sem eru einna óvinsælastar af erlendum álögum á þjóðina í sögu okkar.

Út af brtt. við 14. gr. vil ég aðeins taka það fram, í sambandi við þá skýringu, sem hæstv. ráðh. gaf um það, að til mála gæti komið að nota endurbyggingasjóð að einhverju leyti til viðhalds á jarðarhúsum, að ég get miklu fremur fallizt á það, að leiguliðabót hækki eitthvað, eftir að ég hefi heyrt þessa skýringu hæstv. ráðh. Því þá er hér að nokkru leyti um nýtt viðhorf að ræða, en hér þarf að koma viðbót inn í gr., því þar er sagt, að sjóði hverrar jarðar skuli aðeins varið til þess að endurreisa hús og híbýli jarðarinnar. Ég vildi þá, að þar á eftir kæmi, að leyfilegt væri að nota endurbyggingarsjóð að einhverju leyti til viðhalds. Þá horfir þessi gr. öðruvísi við frá mínu sjónarmiði. Hæstv. ráðh. hefir óskað eftir því, að minni hl. n. tæki aftur brtt. við 14. gr: til 3. umr., og tel ég það sjálfsagt, ef von er um aðra skipun á því máli.

Þá var það viðvíkjandi 40. gr., að hæstv. ráðh. hélt því fram, sem ég skal játa, að jarðabót, sem ekki kostar mjög mikið fé, geti bætt jörðina tiltölulega allmikið meira en hún raunverulega kostaði. Það er hugsanlegur möguleiki, að svona tilfelli geti átt sér stað, og get ég fallizt á, að verðmæti jarðabótarinnar, það sem fram yfir verður kostnaðarverð, eigi að skipta á milli leiguliða og landsdrottins, þegar svo stendur á. En ég hugsa, að slík tilfelli verði svo fá, að þau verði undantekning, en ekki aðalregla. Hinu hefir ekki verið mótmælt, sem ég sagði, að órétt væri, að leiguliði nyti umbótanna undir venjulegum kringumstæðum, og að afarerfitt gæti verið að meta oft og tíðum, hvað jarðabót hefði kostað. Slík verk eru oft ígripavinna, sem bændur vinna í frístundum sínum, og því erfitt að meta. Mér virðist því, að þetta ákvæði í niðurlagi 40. gr. sé algerlega óþarft og ekki rétt, nema þá ef tilgreind væru í lögunum sérstök tilfelli, og sé ég þó ekki, að það væri svo auðvelt.

Þá er það 42. gr. Hæstv. ráðh. fellst á það að ákvæðin í greininni um álag á jarðabætur væru ekki heppileg, og að ekki gæti komið til mála, að leiguliði greiddi álag á sléttur í túnum. (Atvmrh.: Ekki nema um sérstakan trassaskap væri að ræða). Ég kem að því síðar. En ég get ekki fallizt á, að hægt sé að skylda leiguliða til þess að greiða nokkurt álag á jarðabætur, hvorki á túnasléttur né engjabætur, svo sem flóðgarða eða skurði, því ef um vanrækslu er að ræða í þessum efnum, þá tryggja ákvæði 27. gr. það, eins og hæstv. ráðh. einnig viðurkenndi, að leiguliði greiði fullar bætur fyrir, þar sem landsdrottinn getur hvenær sem er látið meta skemmdir af þesskonar vanrækslu og krafið leiguliða um fullar bætur fyrir. Öll slík vanræksla heyrir undir ákvæði 27. gr., en ekki undir ákvæðin um álag. Enda þýða þau ákvæði ekki annað en það, að leiguliði, er hann fer af jörð, á að skila henni í ekki rýrara standi en hann tók við jörðinni. (Atvmrh.: Það þýðir, að hann á að skila jörðinni í góðu lagi). Nei, það þýðir, að leiguliði á að skila því mannvirki, sem um er að ræða, sem nýtt væri, því að viðhaldsskyldan hvílir á leiguliða þess utan samkv. ákvæðum 27. gr.

Þá var það viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. sagði um brtt. okkar við niðurlagsákvæði 54. gr., að í staðinn fyrir 5 ár komi 2 ár. Hæstv. ráðh. benti einkum á það, að verða mundi mjög erfitt að gera svo stórfelld kaup á byggingarefni sem þyrftu, ef skyldur landsdrottins um hús á leigujörðum gengju í gildi svo fljótt, og þess vegna mundi það verða ofætlun fyrir landsdrottna að fullnægja þessu ákvæði, ef það gengi í gildi strax eftir 2 ár. Ég skal játa, að húsabótaskyldan getur í einstökum tilfellum orðið landsdrottni nokkuð örðug, en það er ekki ástæða til að fresta gildistöku þessara ákvæða fyrir það meir en 2 ár, en yfirleitt hygg ég, að þetta ákvæði verði ekkert ægilegt, hvorki fyrir einstaklinga né hið opinbera, sem á flestar sínar jarðir í lífsábúð, og því eru það mjög fáar þeirra, sem losna árlega, svo að varla þarf að búast við stórfelldum árlegum útgjöldum af þessari ástæðu. Hitt er rétt, að landsdrottnar mundu nota þessi 5 ár til þess að átta sig á því, hvað þeir eigi að gera, hvort þeir eigi að eiga leigujarðir sínar áfram eða selja þær jarðir, sem þeir leigja, eftir því, hvort þeir treysta sér til að uppfylla þær kvaðir, sem lögin leggja þeim á herðar eða ekki. Þessi ástæða hefir við nokkuð að styðjast, en þó hygg ég, að 2 ár séu nægilegur frestur í þessu efni. Á hitt ber ekki síður að líta, að leiguliðar eru, eins og ástandið er nú, afskaplega réttlausir í þessum efnum og þrá því fátt meira en einhverja réttarbót viðvíkjandi húsabótum á ábýlisjörðum sínum. Það væri því höggið stórt skarð í þeirra rétt með svo löngum fresti sem frv. gerir ráð fyrir, enda gæti vel farið svo, að eftir þessi 5 ár væri komin hér önnur kreppa, sem gerði það að verkum, að þá yrði ekki léttbærara fyrir landsdrottnana að ganga undir þessa kvöð. Með 5 ára fresti er því rennt alveg blint í sjóinn um ástandið, þegar þessi ákvæði koma til greina, og tel ég beint hættulegt að hafa hann svo langan og tel því miklu hyggilegra að samþ. brtt. n. um þetta atriði.

Þá hefi ég svarað, að ég hygg, flestum þeim atriðum, sem þörf er á að svara, í ræðu hæstv. atvmrh., og í raun og veru líka að mestu leyti ræðu hv. þm. Borgf., því þeir voru mjög svo sammála.

Hv. þm. Borgf. dvaldi í ræðu sinni mest við 11. og 12. gr. frv. Hann tók það fram, að sér þætti hlutfallið hóflegt milli húsaverðs og landverðs samkv. 11. gr. eins og hún er nú. Ef hv. þm. á við það, að byggingar á leigujörðum þurfi ekki að vera meiri en sem svarar 2/3 eða helmingi af verði þeirra jarða, sem hafa lönd metin frá 1 til 3 þús. kr. samkv. fasteignamati, þá er ekki hægt að segja, að hv. þm. Borgf. sé kröfuharður fyrir hönd leiguliða um byggingar á leigujörðum, því það er vitanlega alveg ómögulegt að byggja viðunandi hús fyrir það fé.

Ég finn ekki ástæðu til að fara sérstaklega mikið út í ræðu hv. 1. þm. S.-M. Hann er allstórhöggur á allt þetta mál í heild sinni, þó hann veittist sérstaklega að brtt. minni hl. n. En þessi hv. þm. hefir áður borið fram þessar skoðanir sínar hér á þingi, og ég finn ekki ástæðu til að fara langt út í að ræða þær nú. Mér virðist hann telja, að með lögunum og brtt. sé gengið svo langt í því að taka umráðarétt af jarðeigendum yfir jörðum sínum, að vart muni líft hér á landi fyrir bændur, ef að lögum verði. Nú veit hv. þm., að þrátt fyrir þessi lög hefir þó hver jarðeigandi óskoraðan rétt yfir ábýlisjörð sinni. Hér er aðeins farið fram á að takmarka umráðarétt jarðeigenda yfir þeim jörðum, sem þeir leigja öðrum. Þetta ætti hann að athuga og taka meira tillit til en hann gerir. Af því að hann gerði það ekki, var margt í ræðu hans tóm vindhögg, byggð á skökkum forsendum. Ég skal játa það, þó það e. t. v. kunni að hneyksla hv. þm., að ég tel óheppilegt, að einstakir menn eigi jarðir í leiguábúð, sem þeir hafa óskoruð umráð yfir, af því að ég hefi séð slíkar jarðir alloft lenda í niðurníðslu, og ég skal játa það, að ég ætlast til, að húsabótaskyldan verði til þess að knýja slíka landsdrottna til að láta jarðirnar af hendi. Ég tel það ekki heppilegt, að einstakir menn hafi yfirráð á jörðum, er þeir leigja öðrum, af því ég álít það hvorki gróðaveg fyrir þá sjálfa né leiguliða, heldur sé þeim jarðeigendum betra að losna við þær jarðir á einn eða annan hátt. — Hv. 1. þm. S.-M. talaði um, að í 12. gr. væri það heimtað, að landsdrottnar gæfu stórar upphæðir með leigujörðum sínum. Ég veit ekki vel, hvað hann hefir meint með þessu, en ef hann á hér við húsabótaskylduna, sem ég býst við, að hann meini, þá er þess að gæta, að landsdrottinn hefir heimild til að hækka afgjald jarðarinnar sem svarar útlánsvöxtum Búnaðarbanka Íslands af því, er hann hefir lagt fram, og í því tilfelli, að lán til bygginganna séu veitt úr byggingar- og landnámssjóði, þá virðist hér ekki vera um sérstaka byrði að ræða fyrir landsdrottin, heldur miklu fremur, að hann græði á þeim viðskiptum. Annars tel ég, að þessi ummæli hv. þm. hafi fremur verið töluð í hita en að þau væru framborin eftir nákvæma íhugun á málinu, og verða þau því ekki tekin alvarlega.

Þá hygg ég, að ég hafi athugað og svarað þeim andmælum gegn frv. og brtt., sem þarf í þetta sinn, og sé því ekki ástæðu til að lengja umr. meira af þeim tilefnum, er gefin hafa verið.