17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (3740)

93. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Það hefir verið minnzt á 30 ára stríð a. m. k. af 2 hv. þdm., 30 ára stríð, sem á að hafa staðið um núgildandi ábúðarlöggjöf. Ég held, að hér hafi verið skotið nokkuð yfir markið. Reyndar man ég ekki, hve snemma var hafið máls á löggjöf þessari, en frá þinginu 1883 eru 1., þó að þau væru ekki staðfest fyrr en árið eftir. Mig minnir satt að segja, að málið hafi legið fyrir 3 eða 4 þingum. Það skiptir í sjálfu sér ekki miklu um þetta, en hitt mun vera fjarstæða ein, að um þessa löggjöf hafi verið háð 30 ára stríð. Að vísu var tíminn tiltölulega langur, af því að þing var þá ekki haldið nema annaðhvert ár. Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, en því hefir einnig verið haldið hér fram í þessum umr., að 1883 hafi landsdrottnar ráðið einir í þinginu. Þeir hafi sett 1. og þau hafi verið ófrjálsleg frá þeirra hendi. Það er sjálfsagt rétt, að fleiri eða færri af þeim, sem þá áttu sæti á þingi, voru sjálfseignarbændur, og ég geri ráð fyrir því, að það hafi einkum verið sjálfseignarbændur ásamt nokkrum sveitaprestum, sem unnu að afgreiðslu málsins. Mér er það enn minnisstætt, að eftir að l. komu út, var mikið um það talað og orð á því haft, að þeir hefðu verið óvenjulega frjálslyndir gagnvart leiguliðunum, jafnvel framar en efni stæðu til. Þegar ég lít aftur í tímann eins og hann var um 1880, þá verð ég að viðurkenna, að þeir menn, sem að þessari lagasmið unnu, hafi verið sérstaklega frjálslyndir og nærgætnir um þessa hluti. Þessi löggjöf er enn í dag að mörgu leyti fyrirmynd, og það skársta í þessu frv. er allt tekið þaðan. Hafi svo verið, að landeigendurnir hafi átt mestan þátt í lagasmíðinni 1883, þá er hún þeim til sóma. En nú eru það víst leiguliðarnir, sem mestan þátt hafa átt í lagasmíðinni. Eftir því, sem mér hefir verið sagt, munu þeir flestir leiglendingar vera, sem mestan þátt hafa átt í þessari frv.smíði, eða tilvonandi landeigendur, menn, sem hljóta fyrst og fremst að leita að hagkvæmustu leið til þess að geta náð jörðunum á sitt vald. Þess vegna er ekkert óeðlilegt, þó að þeir við samningu frv. og till. minni hl. n., sem hér liggja fyrir, hafi leitað lags um að komast að hagfelldum landkaupum. Og þegar litið er á 12. og 18. gr. frv., verður ekki annað sagt en að þeim hafi tekizt furðu vel að tryggja tilvonandi hagsmuni sína. Reyndar hefir orðun á fyrstu setningunni, í 18. gr. ekki tekizt fimlega, en markinu virðast þeir að öðru leyti hafa náð mjög vel.

Út af orðum hv. 1. þm. Skagf., þar sem hann var að minna mig á það, að þær kvaðir, sem lagðar voru á landsdrottna að því er húsabætur snertir, tækju aðeins til þeirra jarða, sem þeir leigðu, en notuðu ekki sjálfir, þá var sú bending meira en óþörf. Hann þurfti sízt að minna mig á þetta. Hv. þm. leggur alla áherzluna á það, að einstakir menn geti ekki átt jarðir og leigt þær öðrum. M. ö. o. verður eftir hans kenningu að finna ráð eins og í 18. gr. frv. — tiltölulega sniðug ráð — til þess að losa landeigendur við slíkar eignir fyrir lítið, eða helzt ekki neitt. Hv. þm. þurfti svo sem ekki að taka það fram, eins og hann gerði, að frv. tæki ekki til ábúðarjarða sjálfseignarbænda að því er húsabætur snerti. Það er líklega nógur kommúnistakeimur að því samt.

Af því að stefna mín í þessu máli er yfirlýst og fyrir löngu ákveðin, þá þarf ég ekki að vera að elta ólar um þær einstöku brtt., sem fyrir liggja, og get ég að mestu leyti látið niður falla andsvör við aths., sem fram hafa komið. Hæstv. ráðh. hefir svarað þeim flestum svo að ég get vei við unað. — Það er aðeins síðasta brtt. minni hl., sem ég vil snöggvast drepa á. Hún er um það, að l. gangi að fullu í gildi eftir 2 ár, en ekki eins og í frv. stendur, eftir 5 ár. Ég þykist sjá, að byltingin, sem verður við það, að l. koma til framkvæmda, geti orðið ærið skæð og hastarleg, ef hún á að dynja yfir eftir tveggja ára tíma, sérstaklega þó, ef kreppuástandið, sem nú er, verður ekki um garð gengið. Það hlýtur að gilda um þetta umrót eins og um svo margt annað, að „frestur er á illu beztur“, og sjálfsagt er að reyna að komast út yfir það ástand, sem nú er í landinu, áður en ofsóknin hefst á hendur landeigendum, því að hraklegar mundu afleiðingarnar verða, ef þetta ætti að skella yfir fyrirvaralaust, eins og ástæðurnar fjárhagslega eru nú. Þessi till. minni hl. er þess vegna ein af þeim fráleitustu, sem fram hafa komið, og eru aðrar till. hans þó sízt góðgjarnlegar. Ég vil ekki tefja tímann með því að gera þær frekar að umtalsefni, af því að þeirra hefir þegar verið maklega minnzt. Læt ég svo þetta lynda að sinni og hygg, að málið í heild sinni græði lítið á löngum umr.