17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (3746)

93. mál, ábúðarlög

Frsm. minni hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég skal ekki lengja umr. mikið, því að það eru aðeins örfá orð út af seinni ræðu hæstv. atvmrh. Hann sagði, að það nálgaðist hártogun hjá mér, þar sem ég hafði talað um, að ekki væri hægt að byggja sæmileg hús fyrir 2/3 af fasteignamatsverði lands, af því að í frv. væri ekki átt við kostnaðarverð bygginganna, heldur fasteignamatsverð. Það mun vera rétt hjá hæstv. ráðh., að ég hafi ekki skýrt þetta nógu skipulega í minni ræðu, en þetta verður framkvæmt á þann hátt, að fasteignamat verður látið fara fram strax þegar húsið er fullgert, og þá veit ég a. m. k. af þeirri reynslu, sem áður er fengin, að þegar ný hús eru metin til fasteignamats, er afarmikið tillit tekið til kostnaðarverðsins. Undir eins og byggingarnar eru teknar að eldast, falla þær mikið í verði. Ef á að framkvæma mat á slíkum húsum, verður það kostnaðarverðið, sem lagt verður mjög mikið til grundvallar. Landeigandinn leggur áherzlu á, að kostnaðarverðið verði lagt til grundvallar, en hagsmunir leiguliða fara að vísu í gagnstæða átt. En þó er ég hræddur um, að það verði kostnaðarverðið, sem lagt verður til grundvallar og réði mestu um fasteignamatið. Svo verður ekki fyrr en við næsta mat á eftir, að veruleg lækkun frá kostnaðarverðinu kemur fram. Ég er dálítið hræddur við þetta atriði og held þess vegna, að í ýmsum tilfellum sé ekki svo mikill munur á kostnaðarverði og fasteignamati, a. m. k. ekki eins mikill munur eins og hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir.

Þá er það aðeins út af því, sem hæstv. ráðh. sagði viðvíkjandi brtt. við 40. gr., að það væri tæplega rétt að tryggja mönnum meira fyrir verk sín en verkin hefðu kostað þá. Ég verð að játa, að þetta er fallega sagt og réttmætt í sjálfu sér, að hver maður fái fyrir verk sín eins og hann hefir til þeirra lagt, en hvorki meira né minna. Hitt finnst mér ennþá verra, að landeigandi eigi að fá fyrir verk, sem annar maður gerir, en það verður það í þessu tilfelli, sem hér er deilt um, ef jarðabæturnar, sem gerðar hafa verið, bæta jörðina meira en það, sem hér er um að ræða. Að miða kostnaðarverð við dagsverkatölu eftir ákvæðum jarðræktarlaganna er að mínum dómi fráleitt. Við skulum hugsa okkur mann, sem tekur grýtt land til ræktunar, ryður úr því grjóti og gerir að túni. Kostnaðarverð jarðabótarinnar getur þá orðið margfalt við það, sem jarðræktarl. gera ráð fyrir. En aðra aðferð en þessa gat hæstv. ráðh. ekki bent á til að komast að kostnaðarverðinu. Þar sem ég vil ekki lengja umr. um of, ætla ég ekki að segja fleira út af ræðu hæstv. atvmrh.

Um ræðu hv. 1. þm. S.-M. skal ég ekki fara mörgum orðum. Hann sagði, að 1884 hefði alls ekki verið búið að heyja 30 ára stríð um ábúðarl., og mundu þau vart hafa legið fyrir meira en 3 þingum. Þau voru fyrst til umr. á þingi 1845, og var málið svo afgr. á þinginu 1883. Verður stríð það, sem háð var um málið, því frekar nefnt 38 ára stríð.

Ég veit ekki, hverja afgreiðslu málið muni fá hér í d., en eftir afstöðu d. til málsins í fyrra, skil ég ekki annað en að flestar till. okkar nái samþykki. Skil ég heldur ekki, að Ed. taki svo í málið, að það þurfi að verða því að falli.