26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (3758)

93. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Við 1. og 2. umr. þessa máls benti ég á ýmsa annmarka, og þá suma stóra, er mér þykja vera á frv. þessu. Við 2. umr. lét ég þess getið, að ég mundi bera fram brtt. við frv. fyrir 3. umr. Ég kunni því betur og tel rétt að láta ekki lenda við aðfinnslur einar, þótt tilefni sé ærið. Vildi ég heldur gera mitt til að frv. mætti verða aðgengilegra, og hefi því komið fram með nokkrar brtt. á þskj. 766, sem taka til 16. gr. þess. Það er þó ekki svo að skilja, að ég álíti, að frv. þurfi ekki frekari breyt. við en þar er lagt til að gera á því, heldur hitt, að ég hafði ekki tíma til að fara lengra en þetta þskj. sýnir. Mér virðast ýmsir fleiri staðir í frv. þurfa endurbóta við, jafnvel stórra. Get ég sem dæmi nefnt 35. og 36. gr. frv., sem mér virðast ekki vel orðaðar eða heppilega. En þar er þó eigi um svo stórar misfellur að ræða að efni til, að frv. megi ekki verða að l. þeirra vegna. — Brtt. á þskj. 766 lúta að því fyrst og fremst að draga úr þeirri óhæfilegu takmörkun á ráðstöfunar- og umráðarétti landeigenda yfir eignum sínum, sem nú er í frv., takmörkun, sem álíta verður, að leiða mundi til þess, að lögfestar verði samskonar takmarkanir á umráðarétti einstakra manna yfir annari eign eða atvinnutækjum. Yfirleitt mundu ákvæði 63. gr. stjskr. um friðhelgi eignarréttarins með því að miklu leyti falla úr gildi. Í öðru lagi lúta brtt. mínar að því að takmarka það úrskurðar- og drottinvald, sem frv. leggur í hendur Búnaðarfél. Ísl., trúnaðarmönnum þess og úttektarmönnum yfir jarðeignunum. Að því leyti, sem rétt er að afhenda slík umráð óvilhöllum stjórnarvöldum, þá legg ég til, að þau hverfi til sveitarstjórnanna á hverjum stað. Tel ég þau betur komin þar en hjá þeim aðilum, sem frv. greinir. Þá aðila, Búnaðarfél. Ísl. og trúnaðarmenn þess, skortir oft að sjálfsögðu staðlega þekkingu og kunnugleika um þau deiluatriði, sem til lykta þarf að leiða. Sveitarstjórnirnar eru sökum kunnugleika síns betur til þess fallnar en nokkrir aðrir menn.

Í þriðja lagi miða brtt. mínar að því að fella úr frv. orðatiltæki og setningar, sem eru meira eða minna óþörf eða tvíræð og valdið geta ágreiningi. M. ö. o. geta orðið til þess að vekja deilur.

Í fjórða lagi er með brtt. bætt ákvæðum í frv., sem nú vantar og skipta þó verulegu máli, svo sem í 24. gr. Ennfremur er á nokkrum stöðum breytt orðum, sem ekki eiga við og hljóta að valda misskilningi. Verð ég svo að víkja að einstökum brtt., en fer þó fljótt yfir sögu.

1. brtt. er við 2. gr. Þykja mér ákvæði þeirrar gr. nokkuð tvíræð að sumu leyti og óeðlilega hörð gagnvart landeigendum yfirleitt víða, t. d. orðatiltæki eins og það, að býli megi ekki sameina eða nytja fleiri býli saman, ef þau hvert fyrir sig teljast lífvænleg fyrir ábúanda. Hér er óskýrt, hvað við er átt. Þetta getur farið og fer eftir stærð fjölskyldu. Það getur t. d. verið lífvænlegt býli fyrir einsetukarl, sem ekki fleytir fram 5 manna fjölskyldu. Svo óákveðið orðalag sem þetta er óhafandi í l., sem almenningur á að lifa og breyta eftir. Það vekur deilur og verður misskilið. Í þessari sömu gr. eru ákvæði um heimild landeiganda til að skipta jörð. En þá heimild tel ég bundna óeðlilegum takmörkunum, þar sem til þess verður að leita úttektarmanna. Mér þykir ófrjálslegt og óviðfelldið, að landeigandi skuli ekki mega skipta jörð milli barna sinna án þess að kveðja til þess óviðkomandi menn.

Efni 2. gr. er að vísu tekið upp í brtt., en á annan veg orðað en í frv. og felld niður viðsjálustu ákvæðin. Vil ég ekki fjölyrða um það frekar, en skal þó geta þess, að ritvilla eða prentvilla — ég veit enn eigi, hvort heldur er — hefir slæðzt inn í till. Þar stendur tilvitnun í 3. gr. 3. málsgr., en á að vera 3. gr. 2. málsgr. Vil ég biðja hv. þdm. að athuga þetta og leiðrétta. — 2. brtt. við 3. gr. er að mestu orðalagsbreyt. Efni er þar ekki haggað. Ég tel þó, þar sem landeiganda er gert að skyldu að byggja jörð, sem hann nytjar ekki sjálfur, að þá verði eftirgjald að bjóðast a. m. k. svo hátt, að viðlit sé að byggja jörðina, og tel ég þar lágmarkið vera 2% af matsverði jarðar og húsa. Er ekki forsvaranlegt að skylda landeiganda til þess að byggja jörð, sem honum eftir 2. gr. er bannað að hagnýta sér, fyrir t. d. ½% af matsverði. Lágmark leigu hefi ég því sett 2%, og mun þó flestum virðast það harla lítið afgjald. En sannleikurinn er þó sá, að eftir margar þær jarðir, sem eru í opinberri eign, fæst tæplega þetta afgjald, og sumar þó enn minna. Tel ég sjálfsagt að takmarka skyldu landeiganda til að byggja jörð sína við það, að viðhlítandi boð fáist í hana, ella sé honum frjáls notkun hennar eftir vild.

Þá eru enn nokkrar breyt. í niðurlagi 3. gr. Þar er t. d. numin burt sú skylda landeiganda að byggja upp á eyðijörð og bjóða hana síðan til ábúðar. Er sú kvöð hastarlegri en tali taki, að landeigandi skuli húsa og rækta jörð, sem svo gengur máske ekki út fyrir 1% af matsverði.

Kem ég þá að 3. brtt., sem er við 7. gr. og ekki mikilvæg. Úr henni felli ég þó mat úttektarmanna á landskuld. Ég legg einnig til, að niður falli það ákvæði 7. gr., að jarðarafgjald undir vissum skilyrðum skuli metast eftir því, sem það hefir til forna verið. Þetta tel ég vera ónákvæmt orðalag og vanhugsað. Er heldur ekki vitað, hvort þetta ákvæði er leiguliða í hag. Ef úttektarmenn færu að miða afgjald jarða við fornan leigumála, þá mundi afgjaldið oft verða tvöfalt við það, sem hæfilegt þykir nú. Meðan nær því öll þjóðin hafði aðsetur sitt í sveitum, var eftirspurnin eftir jörðum miklu meiri en nú er og landskuldir hærri. Er óefað helmingsmunur á afgjaldi margra jarða nú, miðað við það, sem var fyrir um 60 árum.

Við 9. gr. legg ég til nokkrar orðabreyt., en efnisbreyt. þó jafnframt. Greinin fyrirskipar fortakslaust lífstíðarábúð á leigujörðum. Mér finnst ekki eiga við að fyrirskipa fortakslaust slíka takmörkun á samningafrelsi. Oft getur komið fyrir, að nauðsynlega verði að leigja jörð tiltekinn tíma. Og óvíst er, að leigjanda sé nokkur greiði gerður með því að binda leigu sífellt við lífstíð. Hætt er t. d. við, að leigukjör verði verri með þeim hætti, þegar landeigendur sjá, að þeir fá ekkert færi á að breyta leigumálanum síðar. Í brtt. minni við 9. gr. er a-liður aðalatriðið, hitt annað eru einkum orðabreyt. B-liður er, eins og ég hefi tekið fram, breyt. á ákvæðinu um fleytimagn jarða, sem ætlazt er til í frv., að verði metið af trúnaðarmanni Búnaðarfél. Ísl. og úttektarmanni. Í þess stað legg ég til, að viðkomandi sveitarstjórn skeri úr þessu, en ekki trúnaðarmaður Búnaðarfél. Ísl., sem engin skilyrði mundi hafa til þess í langflestum tilfellum, vegna skorts á kunnugleika á staðháttum og ágreiningsatriðum milli manna út af þessum hlutum. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir slíkri þekkingu hjá þeim mönnum, sem í fjarlægð búa.

Ég hefi einnig lagt til, í c-lið brtt. minnar við 9. gr., að fyrir „vergagna“ í 4. mgr. komi „vervistar“. Þessi brtt. er endurtekin síðar í frv. Ég kannast sem sé ekki við, að orðið „vergögn“ þýði það, sem því er ætlað að þýða í frv., að það tákni hlunnindi á jörð. Ég hefi leitað að þessu orði í orðabókum þeirra Sigfúsar Blöndals og Eiríks Jónssonar. Í báðum orðabókunum er orðið lagt úr á dönsku „Fiskeredskaber“, og einmitt þannig er orð þetta skilið víðast á landinu. Það táknar áhöld til fiskiveiða og annað, sem vermenn flytja með sér í verið, svo sem blöndukút, nestisskrínu, skinnföt og þesslegt. En vervist þýða báðir þessir orðabókahöfundar sem veru þar, sem fiskveiðar eru stundaðar. „Vergagn“ er alls ekki rétt nafn á hlunnindum jarða.

Ég kem þá að 5. brtt. minni, sem er um, að 10. gr. falli niður. Þar er gert ráð fyrir, að ef landsdrottinn byggir út leiguliða undir því yfirskini, að hann ætli að láta ættingja sína eða vandamenn, sem í frv. greinir, nota hana, en prettast svo um það, þá sé honum skylt að byggja leiguliða aftur og greiða bætur fyrir prettina. Ég álít þetta ákvæði óþarft vegna þess, að margt getur komið fyrir í viðskiptum milli landsdrottins og leiguliða, sem heimfæra má undir svik frá annarshvors hendi, og ekki verður með ábúðarlöggjöf tínt til allt, sem fyrir getur komið af því tægi. Þess vegna finnst mér óþarft að taka upp í slíka löggjöf ákvæði um þetta sérstaka tilfelli. Mér finnst eðlilegast, að þegar annarhvor hefir brigðað ábúðarsamningnum, þá leiti hinn réttar síns, hvor þeirra sem er. Þessi 10. gr. er í raun og veru hortittur í frv.

Þá er 6. brtt. mín við 12. gr., um að fyrir „hefir lagt til . . . verða nú eigi . . .“í 6. mgr. komi: hefir áður lagt til nægileg peningshús, sem nú verða eigi. Ákvæði 12. gr. um byggingarskyldu landsdrottins eru harðvítug í hans garð. Þó er nokkur tilslökun gerð í niðurlagi gr., sem hv. þdm. hafa efalaust kynnt sér. Í frv. er í þessari 6. mgr. bundið við, að húsin séu í nothæfu standi, þegar deilt er út af húsbyggingum á jörðinni. Það er ekki á valdi landsdrottins að hafa húsin þá í notfæru standi, heldur hefir það verið á valdi leiguliða, sem á að halda þeim við. Og séu þau það ekki, þegar á að beita kröfunni, sem hér um ræðir, er það ekki landsdrottni að kenna. Það, sem ég legg til, að numið verði burt úr frv., er ákvæðið um, að húsin þurfi að vera í nothæfu standi á þeirri stund, þegar deilt er um viðbót húsa e. t. v. mörgum árum eftir að leiguliði tók við jörðinni.

7. brtt. mín, við 17. gr., er um það eitt, að fyrir „hús“ í 1. málslið komi: jarðarhús. „Hús“ á jörðinni almennt má skilja svo, að skylda landsdrottins til greiðslu brunabótagjalds nái einnig til húss leiguliða, en vitanlega á ekki að skilja gr. svo. Einmitt hér á því við að setja „jarðarhús“ í staðinn fyrir „hús“. (StgrS: Það er tekið fram í frv., að eigandi húsanna eigi að bera kostnaðinn). Það má skilja það svo eftir frv., að jarðeigandi eigi að greiða tryggingarkostnað af öllum húsum á jörðinni.

Í 18. gr. vil ég breyta nokkrum orðum, en ekki er það mikilvæg efnisbreyt. Mér finnst ekki heppilegt orðalag á upphafi hennar, því að þar stendur: „Nú sér landsdrottinn sér ekki fært að fullnægja þeim skyldum, sem á hann eru lagðar með lögum þessum, og skal honum það vítalaust“.

Mér finnst óviðeigandi orðalag að segja, að landsdrottni sé vítalaust að sjá sér ekki fært að fullnægja skyldunum. Þá hefi ég einnig bætt við ákvæðum í 18. gr., sem ég tel nauðsynlegt, að standi í 1., nefnil., að kauptilboðum þeim, sem landsdrottinn á að gera ábúanda og sveitarstjórn, sé svarað innan ákveðins tíma, sem ég hefi sett 5 vikur.

9. brtt. mín er við 23. gr. frv. og er ekki annað en lagfæring á orðinu „vergagn“ í „vervist“, og hefi ég áður gert grein fyrir þessu.

10. brtt. mín er við 24. gr. Þessi gr. ákveður, að um innstæðukúgildi fari eftir samkomulagi landsdrottins og leiguliða. Þetta hefir alltaf verið svo, og ákvæðið er þess vegna í alla staði eðlilegt. En svo er bætt við ákvæði um 6% leigu eftir kúgildi, þegar búið er í upphafi gr. að leggja á vald landsdrottins og leiguliða að semja um þau. Finnst mér þetta ósamræmi og algerlega óviðeigandi. Nú er það svo, þrátt fyrir lagaákvæði, sem gilt hafa um margar aldir hér á landi í þessu efni, að kúgildi á leigujörðum eru víðast úr sögunni. Takmörkun á þessu sviði finnst mér þó sjálfsögð, til þess að ekki verði hrúgað á eina jörð svo eða svo mörgum kúgildum, ef þess ætti að freista, og þess vegna legg ég til í samræmi við forna venju, að ekki megi fleiri kúgildi vera á leigujörð en eitt fyrir hver 9 kúgildi af fleytimagni jarðar. Hinsvegar álít ég óþarft að tiltaka, hve háa vexti skuli greiða af þessari innstæðu, úr því að gert er ráð fyrir, að samningar um þau fari eftir samkomulagi milli landsdrottins og leiguliða. Geta þeir þá samið um þessa vexti sem annað. Eftir minni brtt. getur landsdrottinn aldrei látið fylgja jörð fleiri kúgildi en eitt á móti hverjum 9, sem jörðin telst framfleyta. Hygg ég, að þau kjör séu ekki harðari í garð leiguliða en samrímazt getur fornri venju, en fremur vægari. — Í niðurlagi gr. er lítilvæg orðabreyt. gerð, um að leiguliði ábyrgist innstæðu og skili henni í „leigufæru“ standi, en ekki „fullgildu standi“. Það er vanalega kveðið svo að orði um ærpening, að hann sé í leigufæru standi.

11. brtt. mín er við 25. gr., og er hún í samræmi við það, sem ég hefi áður minnzt á, að úrskurðarvaldið um þau mál, sem geta valdið misklíð á milli landsdrottins og leiguliða, verði flutt frá Búnaðarfél. Ísl. og til viðkomandi sveitarstj. Einnig að í stað orðsins „vergagna“ komi „vervistar“, samkv. því, sem ég hefi áður sagt.

Þá er lítilfjörleg brtt., sú 12., við 37. gr. frv., um það, hvernig reka skuli skipt. Legg ég til, að í stað orðsins „álna“ í 1. mgr. komi „fóta“. — Frvgr. gerir ráð fyrir, að allan 4 álna við eða lengri skuli landsdrottinn hafa, en leiguliði allan við minni. Víðast hafa álnarkefli fallið til leiguliða, en stærri viður komið til skipta. Þótt brtt. mín yrði samþ., þá er samt helmingi stærri viður ákveðinn í hlut leiguliða en venja hefir verið til, því áður var hámarkslengdin 2 fet.

13. brtt. mín er við 38. gr. frv. og lýtur að því, hvernig skipta skuli rekahval. Í frvgr. er gert ráð fyrir, að landeigandi fái 2/3 hluta hans, en leiguliði 1/3. Þetta er stórfelld breyt. frá því, sem verið hefir, því að ég hygg, að það hafi vart nokkurn tíma þekkzt dæmi þess, að leiguliði hafi fengið meira en 1/8 hluta hvalreka, og tíðast ekkert haft af rekahval annað en „sjómannshlut“ svonefndan eða björgunarlaun. Mér finnst þessi breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, vera óeðlilegt stökk, og virðist mér leiguliði allvel haldinn, þótt hann fái ekki meira en 1/4 hvals, eins og ég legg til. Hinsvegar er þetta atriði í löggjöfinni ekki mikilsvert, vegna þess að nú er hvalreki orðinn svo torgætur, að naumast er hann lengur til.

14. brtt. mín er við 40. gr. og er, eins og áður er vikið að, um að í stað orðanna „trúnaðarmanns Búnaðarfél. Ísl.“ komi: „sveitarstjórnar“, og er því um flutning úrskurðarvalds frá Búnaðarfél. Ísl. til viðkomandi sveitarstjórnar. Í öðru lagi er þessi 14. brtt. mín um, að í stað orðanna „eftir því, sem úttektarmenn meta, að hækka megi þeirra vegna landskuld á jörðinni“ komi: eftir því sem landskuld hefir þá hækkað á jörðinni.

Þarna er í frv. gert ráð fyrir, að leiguliði geti krafizt gjalds fyrir unnar jarðabætur á jörðinni, þegar hann fer frá henni, allt að tólffaldri þeirri upphæð, sem úttektarmenn meta, að landskuld geti hækkað vegna þessara umbóta. Það getur staðið svo á, þótt jarðabætur séu miklar á einhverri jörð, að ekki aukist afgjald hennar eða eftirspurnin eftir henni að sama skapi, vegna ýmissa annara ástæðna. M. a. s. gæti eftirspurn eftir henni Orðið minni eftir en áður, af einhverjum ástæðum, þrátt fyrir jarðabæturnar. Álit úttektarmanna er engin trygging fyrir sanngjarnri niðurstöðu í þessu efni. Með þessu ákvæði frv. yrði því gengið á rétt landeiganda, ef ekkert hækkaði afgjald jarðarinnar. Það gæti þá orðið sniðugt ráð fyrir leiguliða til þess að næla í fé, að gera til málamynda einhverjar jarðabætur og fá álit úttektarmanna um, að hækka mætti leigu þeirra vegna mikið. (StgrS: Hann á ekki að fá yfir kostnaðarverð jarðabótanna, að frádreginni fyrningu). Ég hefi ekki haggað neinu, sem í frv. stendur, heldur skýrt frá því rétt, sem þar er tekið fram.

15. brtt. mín er við 41. gr. og er aðeins lítilsháttar orðabreyt. Hún er um tilflutning úrskurðarvalds frá Búnaðarfél. Ísl. til sveitarstjórna, eins og áður er að vikið.

Við 51. gr. er síðasta brtt. mín, og er hún um það, að fyrir orðin: „að hann hafi krafizt álags“ komi: að hann hafi að lögum krafizt álags.

Það skiptir miklu, hvort álags er krafizt að lögum eða ekki. Og geti viðtakandi jarðar þrátt fyrir það ekki fengið álagið hjá fráfaranda, er sjálfsagt, að landsdrottinn greiði það. En hafi viðtakandi ekki krafizt þess að lögum, finnst mér engin ástæða til að setja í lög, að þá skuli landeigandi greiða álagið.

Ég þekki dæmi þess, að fráfarandi hefir prettað viðtakanda með því, að hann hefir tekið að sér að greiða álag og gefið ávísun á fé í banka, en þegar til kom var ekki til í bankanum nein innstæða til greiðslu á ávísuninni, svo að viðtakandi fékk ekkert.

Ég hefi nú eytt nokkuð miklum tíma í þessar aths., vegna þess, að hér er um svo margar brtt. að ræða, sem sumar taka til þeirra atriða í frv., sem miklu máli skipta. Læt ég hér staðar numið, enda þótt ég ætlaði að fara nokkrum fleiri orðum um frv. eins og það er nú. Ég skal svo að lokum lýsa yfir því, að ef þessar brtt. mínar verða samþ., þá mun ég geta unað því nokkurn veginn, að frv. verði afgr. héðan og lögfest, en ég tel samt allan búning þess lítt vandaðan og slík lög tvísýna réttarbót, þótt viðhlítandi geti orðið í bili, ef brtt. verða samþ.